Grunur um að Sindri sé staddur á Spáni

Grunur lögreglunnar á Suðurnesjum beinist nú að Spáni.
Grunur lögreglunnar á Suðurnesjum beinist nú að Spáni. Grunnkort/Map.is

Grunur beinist að því að Sindri Þór Stefánsson, sem flúði opna fangelsið að Sogni aðfaranótt þriðjudags og flaug síðan til Svíþjóðar með vél Icelandair, sé á Spáni, samkvæmt Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

„Grunurinn beinist að því að hann sé á Spáni,“ segir Ólafur Helgi í samtali við mbl.is. Hann getur þó ekki fullyrt að svo sé, heldur hafi „Spánn heyrst nefndur,“ sem áfangastaður Sindra Þórs.

Ólafur Helgi segir einnig að það sé það til skoðunar hvort leitað verði til dómstóla til að fá dómsúrskurð um aðgang að kortafærslum Sindra Þórs.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Ljósmynd/Júlíus Sigurjónsson

Kortafærslur Sindra Þórs gætu varpað nánara ljósi á það hvar hann er niðurkominn, en dómsúrskurð þarf til þess að viðskiptabankar veiti slíkar upplýsingar.

„Við þurfum dómsúrskurð til þess og við þurfum bara að skoða það hjá okkur hvort það sé með næstu skrefum okkar að óska eftir því við dómstóla að viðskiptabanki veiti okkur aðgang að upplýsingum um kortafærslur,“ segir Ólafur Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert