Enginn bauð í biðskýlin

Enginn bauð í biðskýlin.
Enginn bauð í biðskýlin. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við buðum ekki í verkefnið. Það var af þeirri einföldu ástæðu að þetta var of dýrt,“ segir Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri AFA JCDecaux á Íslandi, um nýafstaðið útboð Reykjavíkurborgar á strætóskýlum. Náði útboðið einnig til auglýsingastanda. Boðin voru út að lágmarki 210 biðskýli og að hámarki 50 auglýsingastandar. Þeir eru t.d. á Hlemmi.

Haft var eftir Þorsteini R. Hermannssyni, samgöngustjóra Reykjavíkur, í Morgunblaðinu í byrjun mars að verktaka yrði heimilt að setja upp allt að 400 biðskýli í borginni. Þar af áttu um 50 biðskýli að hafa upplýsingaskilti með rauntímaupplýsingum. Sagði Þorsteinn hugmyndina þá að farþegar sæju að minnsta kosti hvaða tveir vagnar væru næstir í röðinni og hver biðtíminn væri.

Undirbúningur að borgarlínu

Slík miðlun upplýsinga er liður í þeirri stefnu borgarinnar að efla almenningssamgöngur í aðdraganda þess að borgarlínan verður innleidd.

Samkvæmt útboðinu var verktaka heimilt að setja upp auglýsingaskilti fyrir hvert biðskýli sem fært yrði til vegna nýrra biðskýla borgarlínu.

Einar segir óraunhæft að auglýsingasala muni standa straum af kostnaði við nýju skýlin.

„Í fyrsta lagi er dýrt að setja upp búnaðinn sem farið var fram á. Til dæmis skjái í skýlunum með upplýsingum í rauntíma um ferðir vagna. Í öðru lagi fylgir því verulegur kostnaður að fjölga biðskýlum. Í þriðja lagi vildi borgin fá fleiri auglýsingafleti til eigin notkunar. Samanlagður kostnaður er því umfram auglýsingatekjur á tímabilinu,“ segir Einar en samningurinn átti að taka gildi 1. júlí og gilda til 2033.

„Við áætlum að skemmdir, viðhald og auglýsingaplássið sem Reykjavíkurborg vildi fá frítt hefðu kostað okkur 450-480 milljónir á tímabilinu. Þá á eftir að reikna með kostnaði við að setja upp skýlin. Sá kostnaður er allur eftir. Sá pakki hefði verið 600 milljónir fyrir okkur [hjá AFA JCDecaux]. Ef nýr aðili hefði ætlað að gera þetta má ætla að kostnaðurinn hefði verið 1.200 milljónir.“

Borgin gerði kröfu um leigu

Einar útskýrir svo að fyrirtæki hans hafi átt fyrir 130 biðskýli. Nýr aðili hefði hins vegar þurft að koma með að lágmarki 210 ný biðskýli. Hann hefði einnig þurft að setja upp auglýsingastanda og rauntímakort.

Einar segir verkefnið töluvert dýrara en borgin reiknaði með.

„Einnig gerði Reykjavíkurborg kröfu um leigu á borgarlandi fyrir öll strætóskýlin. Það þekkist hvergi annars staðar,“ segir Einar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert