Ferðir spóa kortlagðar með GPS

Hér má sjá ferðir spóanna á og í kring um …
Hér má sjá ferðir spóanna á og í kring um varpsvæðið á Þveráraurum. José Alves

„Þetta eru fyrstu frumniðurstöður og þær sýna að þessir fuglar eru að nota miklu stærri svæði en við höfum haldið,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson vistfræðingur í samtali við mbl.is. Hann deildi fyrir skömmu mynd í Facebook-hópnum Fuglafréttir úr Rangárvallasýslu sem sýnir ferðir spóa, sem merktir voru með GPS sendum, á varptíma. 

Um er að ræða fyrstu niðurstöður úr rannsókn Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. „Hún er rétt að byrja, niðurstöðurnar hafa ekki verið birtar og eru ekki búnar að fara í gegn um ritrýni eða neitt slíkt.“

Um 20 spóar voru merktir með GPS sendum, en á myndinni er hver litur einn fugl og þeir litir sem líkir eru, svo sem gulur og appelsínugulur, tákna pör. Línurnar sem sjást á myndinni sýna margar um 15 km ferðalög. „Spóarnir eru þannig gerðir að þeir vilja vera tilbúnir eins fljótt og hægt er til að geta flogið aftur til Afríku. Þegar tilhugalífið er búið og hreiðrið er komið þá er sá fugl sem er ekki á vakt farinn að kíkja svona aðeins í burtu til að fita sig. Þeir geta þetta á meðan hinn er á hreiðri, svo þegar ungarnir koma þá virðast þeir vera aðeins meira bundnir báðir við að passa ungana. En þeir nota þennan sveigjanleika til að kíkja á aðra staði.“

Niðurstöðurnar hafi heilmikla þýðingu fyrir náttúruvernd

Tómas segir þessar fyrstu niðurstöður og væntanlegar niðurstöður hafa heilmikla þýðingu fyrir náttúruvernd. „Þú ferð eitthvert og telur fugla og heldur að þeir eigi heima þar en þeir eru að nota einhverja mósaík af landi saman. Í þessu tilfelli eru þeir að verpa þarna niðri á Þveráraurum en nota önnur svæði, sennilega í fæðuleit.“

Tuttugu spóar voru merktir með GPS sendum.
Tuttugu spóar voru merktir með GPS sendum. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

„Staðir þar sem við kannski sjáum ekki mikið af fuglum í varpi geta veri mjög mikilvægir fyrir þá. Í þessu tilfelli þá sjáum við að þeir leita í holt og mýrar og á búsvæði sem er verið að taka t.d. undir skógrækt. Skógrækt er góð fyrir marga fugla en ekki fyrir spóa og skylda fugla sem verpa á jörðinni og kjósa opið land. Til þess að vernda svona fugla þurfum við að skilja hvernig þeir nota mósaíkina sem er í boði í landslaginu,“ segir Tómas.

Komi fuglarnir aftur og séu GPS merkin í lagi þá geta Tómas og félagar séð hvar í Afríku þeir hafa verið og hvernig þeir hafa hagað sér. „Þeir eru ekki með gervihnattabúnað heldur er hann aðeins léttari, en merkin senda í móttökustöð sem við erum með, lítið tæki sem er á stærð við ferðaútvarp. Við getum sett það á staur og þegar fuglinn kemur í nokkurra hundruð metra fjarlægð frá tækinu þá sendir hann inn upplýsingarnar. Við vonumst til þess að þeir komi sem flestir aftur og hlaði niður alveg gommu af áhugaverðum upplýsingum.“

Hér má sjá færslu Tómasar í heild sinni.

Spóinn verpir á jörðinni og kýs helst opið land.
Spóinn verpir á jörðinni og kýs helst opið land. Ljósmynd/Borgný Katrínardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert