Sniðug bóla eða breytingar í vændum?

„Ég held samt að karlar séu farnir að leyfa sér …
„Ég held samt að karlar séu farnir að leyfa sér fjölbreyttari hluti í ákveðnu samhengi en leyfa sér það samt ekki alls staðar eða tala um það,” segir Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Stígamótum. mbl.is/Eggert

„Þetta er mjög spennandi og fær vonandi fleiri til að hugsa um þessa hluti. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þetta þróast. Við verðum svo að sjá hvað kemur í kjölfarið eða hvort þetta þetta sé bara sniðug bóla á Twitter,“ segir Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Stígamótum, um átakið á samfélagsmiðlum #karlmennskan sem snýr að staðalímynd karlmanna og skaðlegum karlmennskum.  

Hann segir umræðuna um karlmennsku hafi farið hægt af stað í samfélaginu. Þrátt fyrir að karlar hafi almennt mikið rými í samfélaginu þá hefur vantað uppá að skapa rými þar sem skoðað er hvaða áhrif ákveðnar karlmennskuhugmyndir hafa og hvað „leyfist“ og hvað ekki innan hugmynda um karlmennsku.

„Ég held samt að karlar séu farnir að leyfa sér fjölbreyttari hluti í ákveðnu samhengi en leyfa sér það samt ekki alls staðar eða tala um það,” segir Hjálmar. Hann bendir á að ýmsar breytingar hafa átt sér stað í samfélaginu sem snerta karlmennsku eins og til dæmis fæðingarorlof feðra. „Í dag tökum við þessu sem sjálfsögðum hlut en við gerðum það ekki áður fyrr,“ segir Hjálmar.

Munu karlar ræða við kynbræður sína um karlmennskuhugmyndir? 

„Það verður spennandi að sjá hvort þetta átak muni leiða til raunverulegra breytinga. Hvort karlmenn fari að ræða við kynbræður sína af alvöru um karlmennskuhugmyndir og neikvæð áhrif þeirra á karla og konur. Samfélagsmiðlar eru eitt. Það sem fólk gerir í sínum samskiptum er annað,“ segir Hjálmar. Hann segir löngu tímabært að við karlar hugum að auknu mæli að þessum viðfangsefnum sem við höfum ekki gert áður, forðast að gera eða jafnvel komist upp með að taka ekki til okkar.

Hjálmar G. Sigmarsson.
Hjálmar G. Sigmarsson. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Í þessu samhengi bendir hann á að eitt af því mörgu sem #metoo-byltingin hefur kallað fram, er að núverandi ástand er ekki ásættanlegt og áþreifanlegar breytingar eru nauðsynlegar. „Nú er komin pressa á okkur karlmenn að gera eitthvað í þessu. Við karlar þurfum að skoða áhrif skaðlegra karlmennskuhugmynda, takast markvíst á við nauðgunarmenningu og taka virkan þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi gegn konum,“ segir Hjálmar.

Bandamenn fyrir karlmenn í baráttunni gegn kynferðisofbeldi

Í framhaldi af #metoo-byltingunni þróaði Stígamót námskeiðið Bandamenn, fyrir karlmenn sem vilja beita sér í baráttunni gegn kynferðisofbeldi gegn konum. Námskeiðið var í fyrsta skipti í febrúar og verður aftur á dagskrá í apríl.

Tilgangurinn með námskeiðinu er að þátttakendur öðlist dýpri skilning á mikilvægum hugtökum og viðfangsefnum sem varða kynferðisofbeldi gegn konum, þar á meðal karlmennskuhugmyndir og forréttindi karla. Einnig er lögð áhersla á að skapa rými fyrir uppbyggilegar umræður um þessi þemu með það að markmiði að skoða hvað karlmenn geta gert í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

Næsta námskeið verður helgina 14. og 15. apríl og það er ókeypis. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Hjálmari með því að senda tölvupóst á hjalmar@stigamot.is






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert