Viðvörun gildir fyrir allt landið

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir allt landið á miðvikudag en spáin í dag gerir ráð fyrir suðaustanstormi og er spáð að það fari í 35 metra á sekúndu í hviðum á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og undir Eyjafjöllum. Lögregla biður fólk um að huga að lausamunum og hreinsa frá niðurföllum. Gul viðvörun gildir fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Faxaflóa í dag. 

„Suðaustan 15-23 m/s, hvassast í efri byggðum og á Kjalarnesi. Lausamunir geta fokið. Slydda í fyrstu, síðar rigning og hlýnar. Ráðlegt er að huga að því að rigningar- og leysingarvatn komist sína leið í fráveitukerfi til að fyrirbyggja vatnstjón,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Spá er snjókomu og skafrenningi á fjallvegum sunnan- og suðvestanlands en rigningu á láglendi. Veðrið verður verst frá því um kvöldmatarleytið fram á nótt. Talsverð rigning suðaustanlands í dag og á Austfjörðum í kvöld og fram eftir morgni. 

Hálkublettir eru á höfuðborgarsvæðinu og víða á Reykjanesinu. Hálka eða snjóþekja er á Suður- og Suðvesturlandi og töluverður skafrenningur. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir. Það er víða orðið greiðfært á Norðurlandi vestra en hálka er á Þverárfjalli og á nokkrum útvegum og hálkublettir á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. 

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á Norðausturlandi en greiðfært er í Eyjafirði. Á Austur- og Suðausturlandi er víðast hvar hálka, segir á vef Vegagerðarinnar. 

Allt bendir til að ferðir strætó falli niður frá Akureryri klukkan 16:20 í Borgarnes og 18:58 frá Borgarnesi til Akureyrar.

Leið 57 frá Mjódd upp á Akranes kl. 17:30 fellur niður vegna veðurs. Athugað verður síðar dag með kvöldferðirnar, segir á vef Strætó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert