Stormur og rigning á leiðinni

Veðurstofa Íslands

Gengur í suðaustanhvassviðri eða -storm undir kvöld á Suður- og Vesturlandi. Hlýnar með rigningu á láglendi. Veðurfræðingur Veðurstofu Íslands ráðleggur fólki að huga að því að rigningar- og leysingarvatn komist sína leið í fráveitukerfi til að fyrirbyggja vatnstjón.

„Um 500 km suðaustur af Hvarfi er vaxandi 964 mb lægð sem þokast norður. Þótt lægðin komi ekki mikið nær landi fyrr en á morgun ganga samskil frá henni yfir landið í dag og nótt. Þegar skilin nálgast landið þykknar upp, hlýnar og hvessir. Snemma í kvöld verður hvassviðri eða stormur um landið suðvestanvert en mun hægari norðaustan til. Allhvass eða hvass vindur verður þó um land allt í nótt. Það snjóar mögulega á láglendi um tíma síðdegis, en skiptir fljótt yfir í slyddu og síðar rigningu þegar heldur áfram að hlýna, en búast má við 1 til 7 stiga hita í fyrramálið. 

Sunnanátt á morgun, víða 13-18 m/s, og áfram rigning um landið sunnanvert en rofar til fyrir norðan. Suðvestlægari með skúrum annað kvöld, kólnar svo um nóttina og skiptir yfir í él á þriðjudag en léttskýjað um landið norðan- og austanvert. Svo er útlit fyrir næsta storm á miðvikudag með hlýnandi veðri og talsverðri rigningu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Hæg suðlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað en vaxandi suðaustanátt og þykknar upp með deginum, fyrst sunnan til. Suðaustan 15-25 m/s undir kvöld, hvassast syðst á landinu. Rigning eða slydda á láglendi, en snjókoma á heiðum. Hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi, en dálítil snjókoma eða slydda þar seint í kvöld. 

Sunnan 13-20 m/s, hvassast á Snæfellsnesi, og rigning á morgun en suðvestlægari og skúrir síðdegis. Styttir upp og birtir til á Norður- og Austurlandi með deginum. 
Hlýnandi veður, hiti 1 til 7 stig í nótt og á morgun en kólnar annað kvöld.

Á mánudag:

Sunnan 13-20 m/s og rigning en skúrir síðdegis. Styttir upp og birtir til á Norður- og Austurlandi með deginum. Hiti 3 til 8 stig. Suðvestlægari um kvöldið og fer að kólna. 

Á þriðjudag:
Suðvestan 13-20 og slydduél, en hægari og léttskýjað norðaustan til. Dregur úr vindi og kólnar með deginum, él sunnan- og vestanlands um kvöldið. Frost 0 til 5 stig, en rétt yfir frostmarki með suðurströndinni. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir sunnanhvassviðri eða -storm með rigningu, slyddu eða snjókomu, talsverð úrkoma um sunnanvert landið. Lengst af vægt frost, en hiti 0 til 5 stig um tíma. Suðvestan 8-13 um kvöldið með éljum, en rofar til norðaustan til. 

Á fimmtudag:
Allhvöss suðvestanátt og él en bjart með köflum um landið norðaustanvert. Frost um land allt. 

Á föstudag:
Líkur á sunnanstormi eða -roki með talsverðri rigningu en úrkomuminna fyrir norðan. Hlýnar í veðri. 

Á laugardag:
Suðvestlæg átt og él, yfirleitt bjart á Norður- og Norðausturlandi. Hiti um og undir frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert