Leggst gegn því að umskurður verði refsiverður

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, leggst gegn því að umskurn á drengjum verði gerð refsiverð með breytingum á hegningarlögum. Hún segir að hætta sé á að gyðingdómur og íslam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir. 

Hún sendi í gær Alþingi umsögn vegna frumvarps til breytinga á almennum hegningarlögum er varða umskurð drengja.

Umsögn biskups er eftirfarandi:

„Í framkomnu frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 um bann við umskurði drengja, þingskjal 183 – 114. mál, er snert á máli sem hefur marga fleti.

Tillagan hefur það að markmiði að stuðla að vernd gegn líkamsárás sem veldur tjóni á líkama eða heilsu barna eða kvenna.

Undir það markmið skal tekið og ber samfélaginu öllu að vinna að þess háttar markmiðum með öllum tiltækum ráðum.

Í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu er vísað til þess að Ísland hafi verið ein þeirra þjóða sem lögðu til ályktun um bann við limlestingum á kynfærum kvenna sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2012. Biskup Íslands er stolt af þátttöku Íslands í þeirri baráttu og fagnar þeim árangri sem þar hefur náðst.

Umskurn drengja er víða um heiminn algeng aðgerð. Þjóðkirkjan hefur ekki sérstaklega rætt um hana á sínum vettvangi enda tíðkast slíkar aðgerðir almennt ekki meðal kristinna manna.

Biskup og þjóðkirkjan bera almennt virðingu fyrir siðum og venjum annarra trú- og lífsskoðunarfélaga. Hins vegar er það skoðun biskups Íslands að sjálfsagt sé að hlusta á bæði rök og reynslu þeirra sem þekkja til og fá fram umræðu um málið.

Biskup telur þó varasamt að frumkvæði að þeirri umræðu sé í formi frumvarps til breytinga á hegningarlögum þar sem lagt er til að viðurlög við umskurði drengja verði allt að sex ára fangelsi.

Greinargerð:

Í tillögunni mætast tvö ólík mannréttindasjónarmið. Annars vegar óafturkræft inngrip í líkama barna (drengja) og hins vegar réttur barna til að fá að alast upp við trúarlegar og menningarlegar grundvallarhefðir foreldra sinna og alls síns fólks, sem getur mótað sjálfsmynd þeirra.

Um leið og því er fagnað að Ísland hafi verið ein þeirra þjóða sem lögðu til ályktun um bann við limlestingum á kynfærum kvenna, sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2012, er mikilvægt að Alþingi og samfélagið allt beri gæfu til að veita umræðu um þetta viðkvæma mál í þann farveg að svigrúm sé til hlustunar á sjónarmið ólíkra menningarheima. Dregið skal í efa að frumvarpið feli í sér að vera slíkur farsæll farvegur upplýstrar umræðu.

Hættan sem blasir við, verði frumvarpið að lögum, er sú að gyðingdómur og íslam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir. Allar slíkar öfgar skulum við forðast.

Bann við umskurn án öruggra aðstæðna mætti líka ræða og hvort hægt væri að tryggja þá heilbrigðisþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi sem mætir þörfum hinna ólíku trúar- og menningarheima.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert