Gullleitarmaðurinn Eldur

Eldur Ólafsson hefur keypt leyfi til þess að grafa eftir …
Eldur Ólafsson hefur keypt leyfi til þess að grafa eftir gulli á Grænlandi. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hann er með þeim fyrstu sem skírðir eru þessu glóandi nafni. Eldur Ólafsson er 32 ára framkvæmdastjóri Alopex Gold, sem fer brátt að grafa upp gull úr námum á Grænlandi. Hann segir foreldra sína sjálfsagt hafa verið hippa að velja slíkt nafn, en það passi vel við hann, jarðfræðinginn. Kannski er hann líka eldhugi, að ráðast í slíkt stórverkefni eins og gullnámuvinnslu.

Ísland á hestbaki

„Áhugi á jarðfræði byrjaði um tólf ára aldur. Það var þannig að foreldrar mínir tóku aldrei frí; fríin okkar voru þannig að tvisvar á sumri fórum við í hestaferðir með fóstursystkinunum mínum. Fyrst fórum við í stutta ferð, tvo, þrjá daga en seinni ferðin var tíu daga ferð. Svakalegt ævintýri og rosalega gaman. Ég hef oft sagt að besta leiðin til að skoða landið sé á hestbaki, en ekki lokaður inni í bíl,“ segir Eldur sem naut náttúrunnar í þessum ferðum.
„Svo þegar ég var tólf ára fór ég í fyrsta sinn í göngur og fór þá alla leið upp á Hveravelli og það var smalað milli Hofsjökuls og Langjökuls. Þetta var vikuferð og það gerði kannski útslagið.“ Jarðfræðiáhuginn var kviknaður.

Í skurðum í Kína

Eftir nám í jarðfræði fékk Eldur vinnu hjá Geysi Green Energy. „Fljótlega fór ég til Kína að til að taka þátt í uppbyggingunni á hitaveitunni þar. Mitt hlutverk var að fara þangað með þekkingu og vaxtarplön. Verkefnið átti ekki bara að vera í einni borg heldur þremur, en fókusinn var að byggja hitaveitur,“ útskýrir Eldur.
„Á meðan ég var að vinna þarna varð efnahagshrunið á Íslandi. Og þarna vorum við í samstarfi við kínverskt fyrirtæki, en okkur tókst að stækka veituna með þeirra hjálp,“ segir Eldur sem flutti frá Kína til Danmerkur árið 2010. „Ég hafði unnið mikið með Kínverjum í viðskiptaþróun og áætlanagerð en þegar ég byrjaði í Kína var ég sjálfur í skurðunum að kenna starfsmönnum þar að sjóða saman rör. Þetta þurfti að vera svona „hands on“ vinna því að rörin voru þriðjungur af fjárfestingu okkar,“ útskýrir hann. 

Eldur er á ferð og flugi flesta daga.
Eldur er á ferð og flugi flesta daga. Ásdís Ásgeirsdóttir


Ferðast um heiminn

Mikil ferðalög og viðvera fylgir starfi gullleitarmannsins Elds. „Ég er sjálfur mjög mikið á staðnum. Vinna mín felst líka mjög mikið í að ferðast um allan heim og tala um fyrirtækið. Það eru mörg fyrirtæki á markaði og við þurfum að útskýra af hverju við erum áhugaverður fjárfestingarkostur. Það er engin launung á því að við erum ekki komnir í vinnslu, en það er ekki fyrr en þá sem við skilum tekjuflæði,“ segir Eldur. 

„Við eigum 263.000 únsur í jörðu, en ein únsa er 30 grömm. Únsan í dag er seld á þrettán hundruð dollara. Þannig að þetta er í kringum þrjátíu og fimm milljarða virði, söluverðið,“ segir Eldur.
„Þetta er allt unnið mjög skilmerkilega og þess vegna erum við á markaði í Kanada. Æðin heldur áfram upp fjallið og kemur út á yfirborð í eins kílómetra fjarlægð. Þegar við reiknum lengd æðarinnar og þykkt og gefum okkur að gullgildi séu þau sömu þá er möguleiki á því að það séu um 1,2 milljónir únsa í sömu æð. Planið er að byrja vinnslu árið 2019 og halda síðan alltaf áfram að rannsaka svæðið.“

Ætlum að vera bestir

„Svo ætlum við að leggja áherslu á að verða bestir í því sem við gerum, hvort sem það er rannsóknarvinna eða að byggja upp hafnir og vegi. Við viljum vera bestir í því og með minnstum kostnaði. Grænland er suðupunktur af öllum málmum sem þú getur hugsað þér. Það sem skiptir máli er að geta orðið yfir tíma samkeppnisfær við önnur lönd í kostnaði,“ útskýrir hann. 

„Það er auðvitað alltaf áhætta en ég og mitt teymi og fjárfestar erum búin að leggja allt undir í þetta og við værum ekki í þessu nema við hefðum mikla trú á þessu.“ 

Ítarlegt viðtal er við Eld í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert