Var með barnið á heilanum

Þegar ungmenni er fimmtán ára þá geta foreldrar ekki kært …
Þegar ungmenni er fimmtán ára þá geta foreldrar ekki kært kynferðisbrot gagnvart barni sínu nema barnið samþykki og kæri sjálft. mbl.is/Hari

Tæplega sextugur karlmaður situr í gæsluvarðhaldi grunaður um alvarleg kynferðisbrot gagnvart ungum pilti og að hafa haldið honum nauðugum í fleiri daga í síðasta mánuði. Pilturinn er átján ára gamall í dag en brotin hófust þegar hann var 15 ára. 

Á síðasta ári var Þorsteinn Halldórsson ákærður fyrir að hafa ítrekað tælt drenginn, með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum, gefið honum peninga, tóbak og farsíma og nýtt sér yfirburði sína gagnvart drengnum vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við sig samræði og önnur kynferðismök á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. 

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa á sama tímabili, frá því drengurinn var 15 til 17 ára, ítrekað tekið ljósmyndir af piltinum á kynferðislegan og klámfenginn hátt og hreyfimynd af honum er hann veitti manninum munnmök sem vistað var í læstri möppu á farsíma mannsins. Hann er jafnframt ákærður fyrir að hafa ítrekað brotið gegn nálgunarbanni sem hann sætti gagnvart drengnum á sex mánaða tímabili í fyrra. 

Tekið er fram í gæsluvarðhaldsúrskurðinum yfir manninum frá því í janúar að hann sæti nálgunarbanni gagnvart öðrum dreng vegna meintra kynferðisbrota og áreitis.

Foreldrar drengsins segja að allt hafi breyst þegar hann var fimmtán ára en á þeim tíma hafi þau ekki haft hugmynd um hvað olli þessum breytingum á líðan drengsins og hegðun fyrr en töluvert seinna.

Þau segja að hann hafi verið byrjaður í einhverri neyslu og hún hafi ágerst um svipað leyti og hann virðist hafa komist í kynni við karlinn.

„Við fórum að verða vör við óeðlilega hegðun af hans hálfu sumarið og um haustið þegar hann byrjar í framhaldsskóla. Hann laumast út á nóttunni og er mjög ólíkur sjálfum sér. Það er síðan undir lok árs 2015 sem hann hringir sjálfur í Neyðarlínuna um miðja nótt og biður um hjálp. Hann sé í neyslu og ráði ekki við þær aðstæður sem hann væri búinn að koma sér í. Neyðarlínan tilkynnir þetta til barnaverndar og um morguninn segir hann okkur líka frá þessu,“ segir faðir drengsins.

Barnavernd hefur í kjölfarið samband við þau og þeim er bent á SÁÁ þar sem drengurinn fór í nokkur viðtöl. Ráðgjafi SÁÁ sagði að drengurinn væri ekki fíkill en á góðri leið með að verða það.

„Ég veit nú ekki hvernig ráðgjafanum tókst að komast að þessari niðurstöðu eftir að hafa talað tvisvar við hann því það er nú varla að marka orð af því sem hann segir,“ að sögn móður hans.

Undrast hvernig tekið er á svona málum hjá lögreglunni

„Það sem við skiljum ekki [er] hvernig er tekið á þessum málum hjá lögreglunni,“ segja þau. „Við vorum að orðin fullviss um að það væri eitthvað óeðlilegt í gangi og vorum með myndir af syni okkar með manninum úr eftirlitsmyndavélum. Eins sáum við að ítrekað voru lagðar inneignir inn á síma hans og við gátum ekki óskað eftir upplýsingum hjá símafyrirtækinu um hvaðan þær kæmu. Sem lögreglan gat aftur á móti gert. Drengurinn okkar fékk peninga, dóp, síma og kreditkortanúmer hjá karlinum svo hann [gat] keypt sér það sem hann langaði í á netinu. Við fórum til lögreglu og vildum kæra en var tjáð að þar sem hann væri orðinn 15 ára þá yrði kæran að koma frá honum. Virtist engu skipta að við erum ekki að tala um grun okkar heldur haldbær gögn sem við lögðum fram hjá lögreglu á þessum tíma,“ segir faðir drengsins. 

Meðal þess sem foreldrarnir tjáðu lögreglu þegar þau lögðu fram kæruna var að þau hafi gengið á son sinn, þegar þau sáu hann með karlinum á myndum úr öryggismyndavélum, um hvað þeim hafi farið á milli. Meðal annars hvort hann hafi verið að kaupa dóp af karlinum. Drengurinn játar því og segir að hann hafi verið að kaupa dóp af honum. Þau taka það fram við lögreglu að þau telji það afar ólíklegt að svo hafi verið enda ekki líklegt að karl á sextugsaldri sé með heimsendingu á dópi til unglingspilts. Þau séu sannfærð um að maðurinn brjóti kynferðislega á barninu.

Ábyrgðin nær ekki til kynferðisbrota eftir 15 ára aldur

Lögreglan kom í framhaldinu með fíkniefnahunda í fjölbýlishúsið þar sem fjölskyldan býr og segja þau að þeim hafi virst lögreglan hafa meiri áhuga á að vita hvort hér færi fram fíkniefnasala en brot gagnvart barninu þeirra. „Það er okkar upplifun og þrátt fyrir að barnavernd hafi haft samband við lögreglu þá gerðist ekkert. Þar sem hann kærði ekki þá var málinu lokað án þess að okkur væri einu sinni sagt frá því,“ segja þau.

„Annaðhvort ertu barn eða ekki. Við eigum að bera ábyrgð á honum til 18 ára aldurs en við berum ekki ábyrgð ef einhver brýtur gegn honum kynferðislega eftir fimmtán ára aldur. Við vissum að það væri verið að brjóta á barninu okkar og við fundum meira [að] segja greiðslukort karlsins inni hjá drengnum. Ef lögreglan hefði farið og rætt við karlinn þá hefði kannski verið hægt að stöðva þetta þarna [febrúar 2016], en þess í stað er ekkert gert,“ segir móðirin. 

Foreldrar drengsins íhuguðu um tíma að taka málið í sínar …
Foreldrar drengsins íhuguðu um tíma að taka málið í sínar hendur svo þreytt og úrvinda var öll fjölskyldan orðin og ekkert miðaði áfram. Á sama tíma hélt níðingurinn áfram að sitja um drenginn. mbl.is/Hari

Málinu var lokað af hálfu lögreglunnar og barnaverndar í ágúst 2016 án þess að nokkur frumkvæðisrannsókn hafi farið fram af hálfu lögreglunnar. Í nóvember 2016, níu mánuðum eftir að kæran var lögð fram af foreldrum skilaði drengurinn sér ekki heim og höfðu þau samband við lögregluna sem fékk Guðmund Fylkisson, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, til að leita að honum. Guðmundur nær sambandi við drenginn og hann skilar sér heim. Á þessum tíma vissu þau ekki betur en að málið væri í rannsókn hjá lögreglu en annað hefur komið í ljós.

„Í ljós kom að karlinn hafði verið í sambandi við son okkar nánast allan sólarhringinn þessa daga sem hann hvarf. Þá gengum við hart fram í því við drenginn að hann segði okkur frá því hvað væri í gangi. Um sama leyti var karlinn stöðvaður af lögreglunni uppi í Heiðmörk með drenginn okkar,“ segir faðir hans en þá var Þorsteinn ekki einu sinni tekinn í yfirheyrslu.

„Þrátt fyrir að drengurinn hafi verið í neyslu og stolið einhverju af okkur hér á heimilinu þá er ekki til ofbeldi í honum. En þegar við göngum hart á hann á þessum tíma um að upplýsa okkur um karlinn þá missir hann stjórn á sér og ræðst á mömmu sína. Þarna ákváðum við að hringja í barnavernd og sögðum að við gætum ekki haft hann á heimilinu enda um heimilisofbeldi að ræða.

Lögreglan kom og handtók hann og tók af honum skýrslu á lögreglustöðinni og hann var síðan fluttur í neyðarvistun á Stuðla. Daginn eftir fer fulltrúi barnaverndar og ræðir við hann og strákurinn vildi bara fara heim,“ segir faðir hans.

Átti drenginn í rauninni á þessum tíma

Þau segja að þar hafi drengurinn loksins verið reiðubúinn til þess að kæra Þorstein Halldórsson og gert það sama dag og þá fóru hjólin loks að snúast segja þau. „Það er ótrúlegt hvað mikið þurfti að ganga á þangað til eitthvað gerðist. Drengurinn var orðinn gjörsamlega heilaþveginn af þessum manni, orðinn háður dópi og tóbaki. Karlinn kaupir handa honum endalaust af tölvuleikjum og eins síma. Hann á drenginn í rauninni á þessum tíma,“ segir móðir hans.

Þau segja að þegar drengurinn hafi birst með nýjan síma þá hafi eðlilega kviknað spurningar hjá þeim um hvar hann hafi fengið hann. En drengurinn var með skýringarnar á hreinu. Hann hafi unnið í tölvuleik og getað keypt símann. Þau hafi grennslast fyrir hjá öðrum reyndari en þau eru á tölvuleikjasviðinu og verið sagt að þetta væri alveg hægt. 

„Þannig að við í einfeldni okkar trúðum þessu. Á þessum sama tíma og karlinn dælir í hann dópi, peningum og öðru vorum við á bremsunni að gefa honum ekki neitt þar sem við vorum að reyna að koma í veg fyrir að hann væri í neyslu og færi að vinna. Sem hann gerði en það sem við vissum ekki var að hann borgaði jafnvel vinnufélögum fyrir að taka fyrir sig vaktir. Svo var hann rosalega duglegur að fara í ræktina en hann var ekkert þar heldur var hann að hitta karlinn. Ástandið var orðið svo slæmt að okkur leið eins og við værum að tala við karlinn í gegnum drenginn,“ segir faðir hans.  

Átti góðan tíma eftir kæruna

„Um tíma gekk allt vel og við áttum æðisleg jól saman fjölskyldan en þetta er stuttu eftir að drengurinn hafði lagt fram kæru á hendur níðingnum. Okkur fannst jafnvel eins og drengurinn okkar væri kominn aftur. En það var ekki lengi því strax eftir áramótin 2016/2017 var karlinn farinn að sitja um heimilið og fylgjast með drengnum sem hafði áhyggjur af því að karlinn hefði komið fyrir staðsetningarbúnaði í síma sínum og þannig náð að fylgjast með hverju fótmáli hans,“ segja þau. 

Í janúar 2017 fer sonur þeirra að vera öðruvísi en hann á að sér að vera og þá fara þau inn í tölvuna hans og finna þar ný samskipti milli hans og Þorsteins. Þau hafa samband við lögregluna og láta vita af þessu og lögreglan skipar Þorsteini að láta drenginn í friði. „Samt hélt hann áfram og þá hafði ég samband við lögmann Þorsteins og bað um að hann fengi Þorstein til þess að hætta þessu. En það breytti engu, áreitnin hætti ekki.

Við sátum hérna saman og horfðum á símann hans þar sem skilaboðunum rigndi inn frá karlinum. Það endaði með því að ég hringdi í hann og öskraði á [hann] að hann ætti að láta drenginn í friði. En það hafði engin áhrif og þá fengum við nálgunarbann á hann,“ segir faðir drengsins.

Svo er bara talað um næst...

Líkt og fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum þá braut hann ítrekað gegn nálgunarbanninu þessa sex mánuði sem það gilti. Þau skilja hreinlega ekki hvers vegna nálgunarbann sé einungis tímabundið úrræði því á þessum tíma er nokkuð um liðið frá því drengurinn kærir. 

Eins segja þau að það hafi líka verið furðulegt og vont að upplifa það þegar þau tilkynntu um brot á nálgunarbanninu að fá ráðleggingar um hvernig best væri að snúa sér næst þegar hann bryti gegn banninu. „Næst, bíddu hvers vegna er nálgunarbannið ef það er strax talað um næst,“ segja þau. 

„Með nálgunarbanninu er Þorsteini bannað að nálgast barnið okkar. Barn getur ekki flúið þær aðstæður sem það er komið í en það getur fullorðinn einstaklingur gert, þess vegna verðum við að geta treyst því að úrræði eins og nálgunarbann séu að virka en þau eru því miður ekki að því. Svo er bara talað um næst við okkur,“ segja foreldrar drengsins.

Síðasta vor reyndi drengurinn að taka eigið líf með því að taka stóran lyfjaskammt en það tókst að bjarga lífi hans á bráðamóttökunni. Í framhaldinu var hann lagður inn á BUGL, barna- og unglingageðdeildina. Á þessum tíma voru foreldrar hans að bíða eftir því að drengurinn fengi inni á Stuðlum þar sem þau töldu það einu leiðina til þess að hann fengi frið frá níðingnum. Að læsa barnið inni til þess að verja hann þar sem kæran var enn föst í ákæruferli.

Þeim finnst að allt of mikið hafi verið horft á neyslu drengsins í þeim meðferðarúrræðum sem í boði eru í stað þess að vinna með rót vandans, brotin sem drengurinn varð fyrir. Neyslumynstur hans sé líka óvanalegt fyrir svo ungan mann, er einn í neyslu og aðallega í róandi lyfjum, morfíni og öðru slíku.

Í ágúst í fyrra var ákæran loks gefin út en enn er beðið eftir því að aðalmeðferð fari fram í málinu. Nú er þess beðið að ný ákæra verði gefin út vegna frelsissviptingarinnar í síðasta mánuði. „Þegar við spurðum á sínum tíma hvers vegna það tæki svona langan tíma að gefa út ákæruna var okkur sagt að það væri vegna brota Þorsteins á nálgunarbanninu. Það þyrfti alltaf að bæta við ákæruna á hendur honum. Ég spurði þá hvort ég ætti að hætta að tilkynna um brot á nálgunarbanninu svo ákæran næði einhvern tíma að fara í gegn,“ segir móðirin.

Maðurinn var handtekinn um miðjan janúar og úrskurðaður í gæsluvarðhald …
Maðurinn var handtekinn um miðjan janúar og úrskurðaður í gæsluvarðhald og sætir þar einangrun. Hann er grunaður um að hafa einnig brotið gegn öðrum dreng. mbl.is/Hari

Snemma á þessu ári lét drengurinn sig hverfa af heimilinu og gisti hjá vini sínum í nokkra daga. Þar komst Þorsteinn í samband við hann og spurði hann hvort þeir ættu ekki að hittast og hann ætti töflur handa honum. Hann var til í að fá töflurnar og kom Þorsteinn og náði í hann án vitundar foreldra og vinar hans sem drengurinn var hjá.

Þaðan fóru þeir og keyptu síma handa drengnum og fékk Þorsteinn honum nýtt símanúmer en næstu dagar eru aftur á móti í móðu hjá drengnum. Líkt og fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum þá var hann í lyfjamóki í tæpa viku. Þeir hafi gist á þremur stöðum á þeim tíma og kvaðst hann lítið muna hvað þeir gerðu saman vegna mikillar neyslu lyfja en kvaðst þó minnast þess að maðurinn hafi haft samræði við hann í að minnsta kosti tvígang og kvaðst hann finna mikið til eftir það, samkvæmt því sem kemur fram í gögnum lögreglunnar sem voru lögð fram í héraðsdómi.

Drengurinn hafði samband við móður sína í gegnum Snapchat og bað hana um að koma sér til hjálpar við að flýja frá karlinum. Hún segir að barnið hennar hafi sent henni neyðaróp þar sem hann óttaðist um líf sitt en Þorsteinn hefði dælt í hann róandi lyfjum. 

Hann stillti símann síðan þannig að foreldrar hans gátu séð hvar hann væri og höfðu þau strax samband við lögreglu sem fann hann grátandi úti á götu. Eftir að hafa staðfest við lögreglu að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi var hann fluttur á neyðarmóttöku kynferðisbrota.

Var búinn að heilaþvo drenginn

Lögreglan leitaði í bíl Þorsteins og lagði hald á ýmis lyf merkt honum, erlendan gjaldeyri, miða yfir gjaldeyriskaup, kassa utan af nýjum síma, sleipiefni og kortaveski með ýmsum kortum, m.a. korti merktum dreng sem hann er einnig grunaður um að hafa brotið gegn kynferðislega.

„Þessi maður er með barnið okkar á heilanum og hefur [verið] með í nokkur ár. Við skiljum ekki hvers vegna ekkert var gert þrátt fyrir að við höfum haft samband við lögreglu á þeim tíma. Þar sem hann er 15 ára á þessum tíma þá varð barnið, sem hann er búinn að heilaþvo, að kæra.

Þegar hann náði tökum á honum núna í janúar þá reyndi hann að fá son okkar til að draga kæruna til baka. Hann býður drengnum upp á ferðalag til útlanda þar sem þeir geti gert eitthvað skemmtilegt saman,“ segja þau en þau treysta á að hann verði áfram í gæsluvarðhaldi þangað til dómur gengur í málinu. „Því við viljum ekki að þessi siðblindi maður komi nálægt fjölskyldunni okkar,“ segja þau en næsta verkefni fjölskyldunnar er að byggja sig upp eftir þessa martröð sem hefur herjað á þau undanfarin ár. Álagið á fjölskylduna hefur verið ólýsanlegt undanfarin ár og það hafa komið upp stundir sem þau hafa alvarlega íhugað að taka málið í sínar hendur þar sem ekkert var að gert af hálfu yfirvalda þrátt fyrir að ekki færi á milli mála að brotið hafi verið á barninu þeirra. En þar sem hann væri fimmtán ára gamall þá dygði ekki að þau legðu fram gögn málsins, kæran varð að koma frá honum sjálfum.

Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, segir mikilvægt að …
Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, segir mikilvægt að fagfólk þekki afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku til að geta veitt viðeigandi aðstoð. mbl.is/Hari

Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, fjallaði í doktorsritgerð sinni í hjúkrun um áhrif kynferðislegs ofbeldis í æsku á fólk, bæði karla og konur. Þeir karlar sem hún ræddi við höfðu í æsku átt við námsörðugleika að stríða og orðið fyrir einelti. Þeir voru ofvirkir og leiddust út í afbrot, áfengis- og fíkniefnaneyslu auk þess að glíma við fleiri heilsufarsvandamál.

Upplifun karlanna einkenndist af reiði, hræðslu og líkamlegri og sálrænni aftengingu. Þeir áttu erfitt með að tengjast mökum og börnum, höfðu gengið í gegnum hjónaskilnaði og voru allir forsjárlausir feður.

Helstu niðurstöður rannsóknar Sigrúnar voru að afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku, bæði fyrir íslenska karla og konur, voru alvarlegar fyrir heilsufar og líðan. Þátttakendur töldu að þeir hefðu ekki fengið nægjanlegan stuðning eða skilning frá heilbrigðisstarfsfólki, en þátttaka í Gæfusporunum virtist bæta heilsu og líðan þeirra kvenna sem tóku þátt í þeim.

Gæfusporið er þverfaglegt endurhæfingarúrræði fyrir konur þar sem unnið er í teymisvinnu með andlega og líkamlega heilsu. Markhópur Gæfusporsins eru konur sem eru þolendur kynferðisofbeldis í æsku.

Afleiðingar ofbeldisins geta verið alvarlegar og víðtækar

Afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku geta verið alvarlegar og víðtækar fyrir heilsufar og líðan til langs tíma og skiptir þar engu hvort um karla eða konur er að ræða.

Karlarnir lifðu í þögulli og kvalafullri þjáningu vegna eigin fordóma og samfélagsins og leituðu því ekki hjálpar eða sögðu frá fyrr en á fullorðinsárum. Konurnar höfðu meiri tilhneigingu til að beina tilfinningalegum sársauka sínum inn á við, sem kom síðar fram í flóknum andlegum og líkamlegum heilsufarsvandamálum.

Karlarnir höfðu hins vegar meiri tilhneigingu til að beina tilfinningalegum sársauka sínum út á við, sem kom einkum fram í hegðunarvandamálum og andfélagslegri hegðun.

Sigrún segir mikilvægt fyrir heilbrigðisstarfsfólk og annað fagfólk  að þekkja einkenni og afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku til að vera betur í stakk búið að veita stuðning og viðeigandi meðferð sem tekur mið af einstaklingnum og kyni hans.

Mikilvægt sé að halda áfram að þróa heildræn meðferðarúrræði fyrir konur á Íslandi og þróa slík meðferðarúrræði fyrir karla sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi í æsku. Með því að byggja einstakling markvisst upp eftir áföll vegna kynferðislegs ofbeldis getur margt áunnist fyrir hann, fjölskyldu hans og samfélagið í heild, segir í niðurstöðum Sigrúnar.

Hún segir að þegar barnsækunni sleppir, það er þegar einstaklingur nær átján ára aldri og er ekki lengur hluti af barnaverndarkerfinu, þurfi að koma til ungmennavernd í stað þeirra úrræða sem eru í boði fyrir börn yngri en 18 ára, svo sem Stuðla og Barnahúss.

Réttur foreldra enginn

Börn sem verða ung fyrir áföllum, svo sem kynferðislegu ofbeldi, og leiðast út í neyslu á kannabis til að mynda staðna oft í þroska, segir Sigrún. Síðan er mjög mismunandi hversu þroskað fólk er og unglingur sem er orðinn 18 ára gamall er kannski með þroska á við barn hver svo sem ástæðan er, neysla eða annað. Þessir einstaklingar eru ekki orðnir fullfærir um að taka ábyrgð á eigin lífi, segir hún.

Samkvæmt almennum hegningarlögum er refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þetta lagaákvæði miðar fyrst og fremst að því að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun sér eldra fólks sem vill nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna. Með öðrum orðum við fimmtán ára aldur hafa foreldrar ekkert með kynlíf viðkomandi barns að gera, þó svo að barnið búi enn á heimilinu, og 18 ára er réttur foreldra enginn líkt og fram hefur komið í opinberri umræðu, dómum og víðar, bendir Sigrún á.

Hún tekur sem dæmi fimmtán ára ungmenni sem er í neyslu og ef einhver fullorðinn útvegar því eiturlyf gegn kynlífi þá geta foreldrarnir ekkert gert nema ungmennið vilji kæra þann sem hefur misnotað það. „Því þetta er ekkert annað en misnotkun,“ segir Sigrún.

Vika getur verið ansi langur tími í lífi ungmennis.
Vika getur verið ansi langur tími í lífi ungmennis. mbl.is/Hari

„Barn eða ungmenni sem verður fyrir slíkri misnotkun er oft greint í kjölfarið með ADHD, kvíða, þunglyndi eða fleiri raskanir. Eitthvað sem hægt er að rekja til ofbeldisins sem barnið hefur orðið fyrir og neyslu fíkniefna. Að segja frá slíku ofbeldi er ekki auðvelt og ekki síst fyrir drengi sem upplifa oft skömm á sama tíma. Því getum við verið viss um að það er aðeins brotabrot, af því kynferðisofbeldi sem börn og unglingar verða fyrir, sem kemur upp á yfirborðið.

Segjum svo að 18 ára ungmenni greini foreldrum sínum frá og þau fylgi viðkomandi á neyðarmóttöku. Þar er viðkomandi tjáð eftir læknisskoðun að sálfræðingur hafi samband innan viku og ef ekki þá eigi að hafa samband við deildina. Vika er ansi langur tími í lífi þolanda kynferðislegs ofbeldis og þá ekki síst barns eða unglings sem kerfið skilgreinir kannski sem fullorðinn. Þú átt að fá þjónustu strax, ekki eftir viku eða síðar,“ segir Sigrún.

Á Akureyri er komið á vinnuferli þannig að um leið og kynferðislegt ofbeldi er kært til lögreglunnar á Norðurlandi eystra fær viðkomandi sálfræðiaðstoð á lögreglustöðinni eftir að skýrslutöku lýkur. Þetta byggir á breskri fyrirmynd og hefur gefið góða raun. Með þessari aðferð er hægt að grípa miklu fyrr inn sem getur skipt sköpum varðandi framtíð viðkomandi, segir Sigrún.

„Ég vil sjá einhvers konar ungmennavernd þar sem þau fá þann stuðnings sem þau þurfa á að halda. Miðstöð þar sem þú getur komið og fengið aðstoð. Þar sem fagfólk er til staðar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, geðlæknar, félagsráðgjafar o.fl. 

Miðstöð þar sem ungmenni geta leitað sér aðstoðar sér að kostnaðarlausu og fengið breiða aðstoð, líkt og er innan Gæfusporanna þar sem unnið er úr áföllum og þeim veittur stuðningur. Unnið með þeim að því að finna rót vandans, áfallið sem þau eru að glíma við og getur verið rót fíknarinnar.

Megum ekki gleyma strákunum

Ungmenni sem hafa verið í neyslu eru seinni til í þroska og eðlilega eru ungmenni misjöfn að þroska, segir Sigrún. Spurning hvort setja þurfi inn í lög að ekki megi stunda kynlíf með manneskju sem er yngri en átján ára þar sem hún er ekki sjálfráða, sem myndi auðvelda foreldum að geta kært slíkt þegar grunur er um misnotkun. Krakkar með þunga reynslu á bakinu verða að fá að stunda nám á sínum hraða og hreinlega fá að takast á við lífið á sínum forsendum. Það eitt að fara út úr herberginu sínu getur verið meira en viðkomandi ræður við. Oft er það þannig að enginn veit af þessu fyrir utan nánustu aðstandendur meðal annars vegna þeirrar skammar sem fólk upplifir. Ekki síst strákar sem eiga sér fáa málsvara þegar kemur að opinberri umræðu um kynferðisbrot.

Við þurfum líka að hugsa um strákana ekki bara stelpur og konur þegar kemur að opnun umræðunnar um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi. Strákar eru líka börn og þeir eiga ekki að alast upp við þær ranghugmyndir um að ábyrgðin sé þeirra og því eigi þeir ekki að kæra,“ segir Sigrún

Hún segist hafa áhyggjur af strákunum og óttist að þeir fresti því að segja frá. „Við þurfum umræðuna um drengina okkar. Það eru þeir sem eru í afbrotum og það eru þeir sem sitja í fangelsum. Af hverju? Jú; þeir fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Við foreldrar verðum líka að taka þetta til okkar og koma fram við þá á sama hátt og dætur okkar þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi,“ segir Sigrún.

Að sögn Sigrúnar átta foreldrar sig oft ekki á því sem er að gerast hjá unglingnum. Til að mynda varðandi einelti sem er oft uppsprettan að vanlíðan síðar á lífsleiðinni. Vanlíðan sem getur endað með sjálfsvígi. 

„Sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karla á Íslandi og árið 2016 frömdu 36 sjálfsvíg á Íslandi,“ segir Sigrún. 

Mörg þessara barna eiga eftir að eiga komast í kast við lögin og lögregluna. Hún segir mikilvægt að lögreglan kunni að bregðast við og grípa inn í eins og Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gerir en hann leitar að börnum sem hafa týnst.

„En vitneskjan og þekkingin verður að vera meiri innan allrar lögreglunnar og næsta haust mun ég kenna námskeið þessu tengt í Háskólanum á Akureyri, um sálræn áföll og ofbeldi, þar sem fagfólk og nemendur úr öllum stéttum er velkomið. Ég var í lögreglunni í gamla daga og maður kunni þetta hreinlega ekki. Hvers vegna hegða sumir drengir sér eins og þeir gera?

Við þurfum að hvetja drengina til þess að segja frá og það þarf að gerast inni í skólakerfinu. Ríkinu og þjóðfélaginu sem heild ber að taka ábyrgð á að veita þessum krökkum aðstoð strax í stað þess að þau endi í fangelsi. Heldur á að veita þeim aðstoð við að komast á beinu brautina. Við erum með einhver slík úrræði, svo sem Fjölsmiðjuna en það er alltaf spurning hvort við getum ekki gert betur. Til að mynda í skólakerfinu,“ segir Sigrún.

Hún segist telja að með því mætti spara háar fjárhæðir síðar í stað þess að halda fólki föstu í kerfi þar sem það á ekki möguleika. 

„Ég er ekki sammála því sem ýmsir halda fram það eigi að skikka þau í að vera edrú áður en  farið er að vinna úr áföllunum því víman er kannski eina leiðin fyrir þau til þess að komast í gegnum daginn í glímunni við það [sem] hrjáir þau. Við verðum að aðstoða þau við að takast á við skuggana sem hvíla á þeim og gera þau reiðubúin til þess að takast á við lífið án þess að leita í vímu. Þetta væri hægt að gera á stað þar sem þau eru í næði, til að mynda utan höfuðborgarsvæðisins. En á sama tíma er ekki nóg að senda þau út af heimilinu og í geymslu eitthvað út á land. Heldur þarf að fara fram markviss áfallavinna þar sem þau fá bata og þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. Það er allt of dýrt fyrir okkur sem samfélag ef við gefum þeim ekki tækifæri til þess.

Ungmenni í neyslu eða þau sem glíma við alls konar raskanir eru oft langveik og eiga að fá sama stað í heilbrigðiskerfinu líkt og þau ungmenni sem glíma við annars konar veikindi en þau sem eru geðræn. Þetta er verkefni sem bíður okkar og nauðsynlegt að hefja sem fyrst. Áður en það verður of seint fyrir svo marga sem eru í þessum sporum í dag,“ segir Sigrún Sigurðardóttir.

Sigurþóra Bergsdóttir er ein þeirra sem taka þátt í starfi …
Sigurþóra Bergsdóttir er ein þeirra sem taka þátt í starfi grasrótarsamtakanna Olnbogabörn og hún segir mikilvægt að auka samstarf milli ríkis og sveitarfélaga í málefnum barna og ungmenna sem þurfa á aðstoð að halda. mbl.is/Hari

Sigurþóra Bergsdóttir er ein þeirra sem hefur talað fyrir úrbótum í málefnum ungs fólks sem glímir við afleiðingar áfalla, þar á meðal vegna kynferðislegs ofbeldis. Sonur hennar, Bergur Snær, var nítján ára gamall þegar hann framdi sjálfsvíg í mars 2016 eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Níðingurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart níu drengjum en hann var ekki ákærður fyrir brotin gagnvart Bergi Snæ. Taldi saksóknari að ekki væru nægjanleg sönnunargögn fyrirliggjandi til að það myndi leiða til sakfellingar.

Hún er ein þeirra sem taka þátt í starfi grasrótarsamtakanna Olnbogabörn en segist hafa verið efins í fyrstu hvort hún ætti þar heima. Því Bergur var ekki einn af týndu börnunum. En eftir að hafa setið fund hjá samtökunum var henni bent á það af ungri stúlku sem er ein þeirra sem hefur týnst í kerfinu að Bergur Snær hafi svo sannarlega verið olnbogabarn þrátt fyrir að hafa ekki verið á barna- og unglingageðdeildinni, Stuðlum eða í öðrum úrræðum á vegum barnaverndar.

Það var enginn sem passaði upp á hann

„Þessi unga stúlka horfði í augun á mér og sagði jú Bergur Snær var svo sannarlega olnbogabarn en hann dó. Hann fékk ekki hjálpina og fann ekki leiðina. Það var enginn sem passaði upp á hann. Þannig að ég áttaði mig á því að það er svo auðvelt að hafa stjórn á umræðunni og þagga niður í fólki með því að setja það inn í box. Það hefur verið gert við fólkið sem er með erfiðustu málin.

Eitt af því sem er sagt er að þetta séu svo fáir einstaklingar en þess þá heldur að koma þeim til bjargar. Við eigum að geta sinnt þessum hóp og komið í veg fyrir að hann stækki,“ segir Sigurþóra.

Hún segist telja eðlilegast að um samstarf væri að ræða milli ríkis og sveitarfélaga. Boðið yrði upp á einfalda leið í nærumhverfinu þar sem haldið er utan um þessi ungmenni og stuðningurinn sé einstaklingsmiðaður.

Verðum að ná þeim áður en þau lenda í ruglinu

„Ef við hefðum getað leitað til heilsugæslunnar líkt og við Bergur Snær gátum gert þegar eitthvað líkamlegt amaði að. Þar sem við hefðum getað rætt við einhvern ráðgjafa sem hefði unnið með Bergi áfram. Þannig að hægt væri að leiða þessi ungmenni í gegnum erfið tímabil. Það eru svo margir ungir drengir dottnir út úr skólakerfinu, farnir að reykja gras og hafa lent í áföllum. Eitthvað hefur gerst sem veldur því að þeir detta út úr skólum og flakka á milli skóla. Vinna á börum og veitingahúsum og aldrei lengi á sama stað. Fara aldrei á atvinnuleysisskrá og vitleysast kannski í tíu ár án þess að leggjast nokkurn tíma inn á meðferðarstofnun.

Ef við myndum ná þeim áður en þeir lenda í þessu rugli. Þeir fengju aðstoð við að sjá tilganginn með því að vakna á morgnana og mæta í vinnu. Þeir væru leiddir áfram í því að sinna einhverju sem þeir hafa gaman af. Hvað er það sem gleður þá? Ég spurði Berg minn stundum þessarar spurningar; hvað gleður þig? Hann var búinn að gleyma því og ég var búin að gleyma því hvað það var sem gladdi hann. Hvernig getum við fundið eitthvað sem gleður en ekki bara það sem vekur áhyggjur,“ segir Sigurþóra.

Hún óttast að meðferðaráætlanir séu almennt byggðar á fullorðnu fólki en tíminn gengur bara allt öðruvísi hjá ungu fólki en fólki sem komið er yfir fertugt. Þú sendir ungmenni í viðtal hjá sálfræðingi og svo á það að bíða í mánuð eftir næsta viðtali. Hvað á ungmennið að gera á milli? spyr hún.

„Meðferð á Vogi er ekkert alltaf rétta úrræðið fyrir ungt fólk né heldur geðdeild. Unga fólkið þarf miklu frekar á ráðgjöf og stuðningi að halda. Þau þurfa á einstaklingsmiðaðri þjónustu að halda og að fá að komast aftur út í lífið á sínum hraða. Þannig er það á Laugarásnum, meðferðardeild fyrir ungt fólk,“ segir Sigurþóra.

Nánar er fjallað um starfsemi Laugaráss í annarri grein í greinarflokknum sem birt verður á mbl.is síðar í dag.

Sigurþóra segir að úrræðin þurfi að vera tvískipt. Annað fyrir þá sem þurfa á langtímainnlögn að halda. Ungt fólk sem er í alvarlegum sjálfsskaða og glímir við mjög alvarleg veikindi. Hitt úrræðið yrði fyrir þá sem þurfa að ná tökum á lífinu, svo sem líðan, svefni og fleiri atriðum til þess að líða betur og vera reiðubúin til þess að halda áfram.

Foreldrar Bergs Snæs urðu fyrst vör við að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera sumarið eftir að hann lauk tíunda bekk en hann hafði verið í Valhúsaskóla þar sem vel var haldið utan um hann. Þau vissu ekki að vorið eftir níunda bekk hafði misnotkunin hafist og stóð sleitulaust næstu ár.

Vissu ekki hversu illa honum leið

„Það er svo skrýtið að upplifa þetta. Þú veist ekki hvað eru unglingsárin og hvernig á þetta að vera,“ segir hún.

Sumarið áður en hann varð 16 ára fór að síga á ógæfuhliðina og mikil spenna ríkir á milli Bergs Snæs og foreldra hans en hann fór í Kvennaskólann haustið eftir tíunda bekk. Þau gátu ekki treyst neinu sem hann sagði og gerði og ástandið á heimilinu orðið mjög þrúgandi. Hann braut öll mörk sem honum voru sett á heimilinu og foreldrar hans hreinlega úrvinda.

Úr varð að hann fór norður í land haustið á eftir og bjó hjá vinkonu Sigurþóru og stundaði nám við framhaldsskóla þar fram að jólum. „Það sem við vissum ekki var hversu illa honum leið og ekkert okkar gat ímyndað sér hvað hann hefði gengið í gegnum. Hann kom hingað heim og það fór allt. Hann lét sig hverfa, löggan kom hingað með hann eftir að hann er tekinn með fíkniefni og stolinn síma,“ segir Sigurþóra.

Í kjölfarið kemur barnavernd að málinu en þarna er Bergur Snær á átjánda ári. Snemma á árinu fór Bergur Snær í MST (meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda). MST-meðferðin var enn í gangi þegar kynferðisbrotadeild lögreglunnar hefur samband við Sigurþóru og veltir upp þeim möguleika að maðurinn, sem var til rannsóknar vegna kynferðisbrota gegn fjölda drengja, hefði einnig brotið gegn Bergi Snæ.

„Þarna fengum við loksins skýringu á þessari skelfilegu vanlíðan Bergs Snæs en þrátt fyrir að hafa gengið á hann þá neitaði hann alltaf að um nokkuð slíkt hafi verið að ræða. 

Vogur var ekki rétti staðurinn fyrir hann

Hann fór á Vog í meðferð en þetta var ekki rétti staðurinn fyrir hann og braut hann bara niður. Að segja það við átján ára krakka að hann sé fíkill og hann megi aldrei aftur bragða áfengi. Þetta braut hann meira niður,“ segir hún. Brot sem var löngu hafið og virtist aldrei taka enda.

Fjölskyldan fær að vita það í ágúst 2015 að ekki verði ákært fyrir brotin gegn Bergi Snæ og síðar þetta haust var Bergur Snær farinn að íhuga sjálfsvíg og taldi sig ekki eiga nokkra möguleika. Hann væri búinn að reyna allt án árangurs. Vinir hans, sem ekki vissu af kynferðisofbeldinu fyrr en eftir andlát Bergs, reyndu að draga hann út og hressa hann við en hann hleypti engum að sér.

Nokkrum dögum eftir andlát Bergs fengu þau hjónin vini Bergs í heimsókn þar sem þau útskýrðu hvað hafi legið á baki. Hvers vegna Bergi Snæ hafi liðið svona illa og hvers vegna hann hafi ekki séð aðra leið færa en að taka eigið líf. Enginn vina hans hafði hugmynd um kynferðisofbeldið og töldu þau Sigurþóra og eiginmaður hennar nauðsynlegt að vinirnir fengju vitneskju um að svo tryggt væri að þeir færu ekki að ásaka sig um það sem gerðist.

Eitt af því sem hún nefnir er að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eigi að standa saman að þjónustunni fyrir þennan hóp og það þurfi að auka stuðning og ráðgjöf inn í skólana. Heilsugæslan sé réttur vettvangur fyrir ungt fólk að leita á eftir aðstoð og að þaðan sé hægt að vísa þeim áfram ef þurfa þykir. Ekki sé rétt að hafa geðdeildir svo opnar að fólk geti gengið þangað inn af götunni því það skapi allt of mikið álag á þann lið þjónustunnar. 

„Það er ekkert að því að einkaaðilar annist einhverja þjónustu en það verður að vera mikið eftirlit með þjónustunni. Dæmin sýna okkur að ekki er vanþörf á. En við megum heldur ekki ætlast til þess af úrræðum að þau sinni einhverju sem þau hafa aldrei ætlað sér að sinna. Til að mynda starf SÁÁ á Vogi. Þau eiga ekki að sinna öðru en því sem þau ætla. Þau hafa bjargað mjög mörgum en geta ekki sinnt ungu fólki sem hefur flóknari vanda en bara vímuefnaneyslu enda hafa samtökin aldrei ætlað sér það,“ segir Sigurþóra.

Auður Axelsdóttir og Svava Arnardóttir hjá Hugarafli segja að starfsmenn …
Auður Axelsdóttir og Svava Arnardóttir hjá Hugarafli segja að starfsmenn þar séu til staðar og styðji fólk sem til þeirra leitar. mbl.is/Hari

Um 900 manns nýttu sér þjónustu Hugarafls í fyrra og á hverjum degi koma á milli 50 til 60 manns til þeirra í Borgartúni. Á síðasta ári bættust 143 einstaklingar nýir í hópinn, 44% þeirra er á aldrinum 18-30 ára. Konur eru í meirihluta þeirra sem sækja þjónustu Hugarafls.

Hugarafl var stofnað fyrir fimmtán árum af iðjuþjálfa með víðtæka reynslu af geðheilbrigðismálum og fjórum notendum í bata en notendur eru þeir sem hafa átt eða eiga við geðræna erfiðleika að stríða.

Ákvörðun sem kemur frá heilsugæslunni

Auður Axelsdóttir er iðjuþjálfi og forstöðukona geðheilsu-eftirfylgdar (GET) og einn af stofnendum Hugarafls. Til stendur að leggja niður fagteymi GET að sögn Auðar.

GET og Hugarafl hafa frá upphafi unnið í nánu samstarfi. Hjá GET starfa sálfræðingar, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi og jógakennari og á að vera búið að loka þeirri þjónustu í september.

Þau hafi fengið þau svör hjá heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, að heilsugæslan hafi fengið það verkefni að vinna samkvæmt geðheilbrigðisáætlun Alþingis sem meðal annars leggur áherslu á fjölgun teyma.

Að sögn Auðar er hvergi kveðið á um að leggja eigi GET niður og þau skilji engan veginn hvers vegna eigi að gera það á sama tíma og auka eigi áherslu á geðheilbrigðismál. Ákvörðunin komi frá heilsugæslunni en stofna á þrjú ný teymi á höfuðborgarsvæðinu í staðinn.

„Við fáum eiginlega engar skýringar á því hvers vegna valið er að leggja niður GET. Hugarafl hefur allt frá upphafi verið grasrótarsamtök sem hafa unnið við hlið heilsugæslunnar sem þýðir í raun og veru að þeir sem hingað koma geta bæði hitt fagfólk og fólk sem er að vinna í sínum bata. Er jafnvel búið að ná bata og vill gefa til baka. Okkur hefur þótt þetta passa vel saman og erum þess vegna afar sorgmædd yfir þessari ákvörðun að ýta þessu teymi út af borðinu.

Heilsugæslan skýlir sér á bak við aðgerðaráætlun Alþingis sem er bara ekki rétt því aðgerðaráætlun Alþingis byggir á því að fjölga teymum og þá er mikil mótsögn í því að leggja niður það teymi sem er með mestu reynsluna og hefur náð árangri.

Hvað varðar ungt fólk þá er þetta í hróplegri andsögn við það sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tala fyrir – að minnka kerfin og auka samstarf. Auka áherslu á starf félagasamtaka og hættið að vera svona köld og stofnanaleg þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Þetta er nákvæmlega það sem við erum að gera hér,“ segir Auður.

Á hverjum degi koma milli 50 og 60 manns til …
Á hverjum degi koma milli 50 og 60 manns til Hugarafls í Borgartúni. Flestir þeirra sem komu í fyrsta skipti í fyrra var fólk yngri en þrítugt. mbl.is/Hari

Í september 2016 var gerður samningur við Vinnumálastofnun um að Hugarafl veiti starfsendurhæfingu sem byggir á reynslu fólks með geðræna erfiðleika sem hafa náð bata og fagfólks sem hefur áralanga reynslu af geðsviði. Svava Arnardóttir, iðjuþjálfi hjá Hugarafli, starfar á vegum þess samnings sem hefur verið framlengdur til tveggja ára.

„Unga fólkið er að fá gott utanumhald hjá okkur og það sækir hingað sem þýðir það að það er í samfélagi sem því líður vel í. Þau sem nýta sér okkar þjónustu fara aftur í skólann sinn eða vinnuna þegar þau eru reiðubúin til þess. Geta haldið í okkur í öllum þessum skrefum í átt að bata. Við erum í raun að grípa þau sem þurfa á aðstoð að halda og okkar mat er að fólk á aldrinum 18-24 ára sé ekki nægjanlega vel sinnt í í fullorðinsgeðheilbrigðiskerfinu Í dag þar sem kerfið vill sjúkdómsgreina og stimpla tilfinningar og hegðun. Það er mikilvægt að ná til ungmenna sem fyrst og veita þeim vettvang til að ræða líðan án þess að von og framtíð sé tekin af þeim,“ segir Svava og bætir við að fólk nái bata þrátt fyrir að aðstæður virki stundum vonlausar í núinu.

Svava Arnardóttir segir að gríðarlega miklar kröfur séu gerðar til …
Svava Arnardóttir segir að gríðarlega miklar kröfur séu gerðar til ungs fólks í dag og menntakerfið vilji steypa alla í sama mótið. mbl.is/Hari

„Þessi hópur á alls ekki allur heima inni á geðdeild auk þess sem það er ekki pláss fyrir hann þar. Í raun á helst ekki að þurfa að leggja fólk inn á geðdeild á þessum aldri nema þau kjósi sérstaklega að leggjast inn vegna sjálfsskaða- eða sjálfsvígshugsana. Við finnum það líka á okkar skjólstæðingum að það getur verið erfitt að stíga skrefið frá barna- og unglingageðdeildinni (BUGL) yfir á almenna geðdeild,“ segir Auður.

Hún segir að þau þurfi úrræði þar sem þau geta unnið í sínum málum með aðstoð og á þeim hraða sem þeim hentar. „Ég hef áhyggjur af því að ungu fólki sé ekki gefinn sá tími sem það þarf á að halda og þar er ég til dæmis að tala um ungt fólk sem hefur ítrekað dottið út úr skóla. Kannski er það bara meiri tími sem þau þurfa til að ná áttum, 1-2 ár í endurhæfingu til að ráða við verkefni sem þeim eru sett í lífinu. Gefum fólki tíma og þá nær það sér og fer aftur út í samfélagið,“ segir Auður.

Væri gott að snúa kerfinu á hvolf

Svava tekur undir þetta og segir gríðarlega miklar kröfur gerðar til ungs fólks í dag. Framhaldsskólinn hefur verið styttur í þrjú ár og á sama tíma eiga þau að standa sig vel í íþróttum, tónlist og já öllu, segir hún. „Menntakerfið virðist vilja steypa alla í sama mótið í stað þess að fagna fjölbreytileika og nýta styrkleika og áhugasvið hvers og eins,“ segir Svava.

Auður og Svava segja að það væri gott ef heilbrigðis- og félagskerfinu væri snúið á hvolf og ungu fólki gefið færi á að vera alltaf við stjórnvölinn í eigin lífi. Þar sem það fengi allar upplýsingar um valkosti og fengi vald til að taka upplýstar ákvarðanir um eigið líf. Þar sem skilaboðin eru að þau séu ekki sjúklingar þrátt fyrir að þau séu tímabundið að ganga í gegnum vanlíðan sem getur tekið frá þeim von. Öðruvísi skilar þessi hópur sér ekki aftur út í lífið.

„Fólk er vant því að þiggja þjónustu og fara eftir fyrirmælum og einhver annar er með lausnina fyrir þig. Þetta er ekki að skila fólki aftur út í lífið. „Það er svo mikilvægt að viðkomandi fái tíma til að grufla og finna út úr því hvað henti. Ekki það að einhver sem er kannski eldri en þú segir þér hvað sé rétt fyrir þig,“ segir Svava þegar rætt var um viðhorfsbreytingu frá hlutverki sjúklings yfir í einstaklingsnálgun byggða á valdeflingu.

Hjá Hugarafli er fólk á jafningjagrunni og skjólstæðingurinn er sá sem þekkir sig best og er best til þess fallinn að stjórna ferðinni. Hann finnur lausnina fyrir sig sjálfur með aðstoð annarra,“ segir Svava.

„Við erum hér til staðar og styðjum viðkomandi ef hann vill. Hvort heldur sem það er samtal við fagaðila eða aðra manneskju sem hefur reynslu til að vinna úr því sem hann er að ganga í gegnum. Það er eitthvað sem manneskjan finnur út sjálf. Þetta er hluti af töfrunum hjá okkur, hvers vegna svo mikið af ungu fólki kemur til okkur og hvers vegna það ílengist. Við veitum þeim fullt af tækifærum sem ekki eru í boði annars staðar. Það er ekki þannig að þú sért veikur og við ætlum að minnka kröfurnar til þín og gera allt viðráðanlegra fyrir þig. Við viljum ýta undir drauma þína og að þú ert að fara aftur út í lífið. Það held ég að skipti miklu máli,“ segir Svava.

Starf Svövu miðar að því að styðja við fólk í endurhæfingu og hjálpa því við að komast aftur út í lífið. „Hér hafa einstaklingar farið aftur út í skólann eða vinnuna með aðstoð og stuðningi hér hjá okkur í Hugarafli. Ég er þeim innan handar áfram eftir að viðkomandi er farinn af stað aftur, til að mynda fólk sem hefur verið öryrkjar lengi en eru farnir í fullt háskólanám,“ segir hún.

Auður segir mikilvægt að fólki viti að það geti alltaf leitað til Svövu og annarra fyrirmynda sem eru hjá Hugarafli. Til að mynda fólki sem er búið að ná bata. Að ungt fólk geri sér grein fyrir því að bati er ekkert óraunhæft markmið.  

Hindranir sem drepa niður von

„Ég held að við séum svolítið að senda þau skilaboð í kerfinu eins og það er í dag, að þetta sé sjúkdómur sem sé kominn til að vera. Kerfið mætir mörgum með hindrunum, óþarfa flöskuhálsum og biðlistum. Þetta drepur niður von, drifkraft og frumkvæði. Svo erum við hissa að fólk skili sér ekki aftur út í lífið,“ segir Svava. „Vonin er það sem skilar manni áfram í sjálfsvinnu og það er hún sem gerir manni kleift að ná bata,“ bætir hún við.

Fólk sem kemur til Hugarafls getur komið þangað án nokkurrar tilvísunar og þjónustan er án endurgjalds. Margir notendur eru á endurhæfingarlífeyri á sama tíma og nýtir þann tíma sem það fær á slíkum lífeyri, mest 36 mánuðir, til að byggja sig upp og fara út í lífið án þess að þurfa að fá örorkubætur. Oft skiptir mestu að vera í sambandi við aðra og hitta fólk sem er að fást við sömu hluti. Að upplifa að vera ekki einn á báti, segir Auður. 

„Við erum búin að búa til kerfi sem miðar að …
„Við erum búin að búa til kerfi sem miðar að því að setja alla í einhver fyrirframgefin box – box sem við búum til í stað þess að fagna fjölbreytileikanum.“ mbl.is/Hari

Í geðfræðslu Hugarafls er fólk sem hefur náð bata hjá Hugarafli og fer inn í bekki í grunn- og framhaldsskóla til að segja sögu sína, opna umræðu um geðheilsu og eyða fordómum.

Í hverjum bekk megi gera ráð fyrir að tveimur til þremur líði ekki nógu vel og þeir kveikja oft á perunni þegar þeir heyra sögur þeirra sem eru með geðfræðsluna. Hvað valdi vanlíðan þeirra og að mögulegt sé að grípa strax inn á þessum jafningjagrunni, segir Auður.

Á sama tíma og búið er að opna umræðuna um geðræna erfiðleika, svo sem kvíða og þunglyndi, þá er líka verið að stimpla það inn hjá ungu fólki að það sé komið með sjúkdóm sem fylgi því alla ævi. „Þetta geta verið viðbrögð við einhverju sem þú hefur gengið í gengum og ekkert endilega eitthvað sem þú átt eftir að glíma við alla ævi. Kannski er þetta bara tímabil í lífi þínu. Ég held að kerfið vilji setja fólk í box en við eigum ekki að krefjast þess að allir séu með einhvern stimpil heldur eigi frekar rétt á aðstoð,“ segir Svava og bætir við að veita eigi aðstoð án þess að þeir sem fái aðstoðina þurfi endilega að fá greiningu til þess að fá hjálp.

„Við erum búin að búa til kerfi sem miðar að því að setja alla í einhver fyrirframgefin box – box sem við búum til í stað þess að fagna fjölbreytileikanum,“ segir hún. 

Auður segir að áður hafi verið talið að greiningar myndu minnka fordóma en það sé ekki þannig og þrátt fyrir að fá greiningu er ekkert víst að þú fáir þjónustuna.

„Peningarnir til að veita aðstoð eru til og það er verið að setja fullt af peningum inn í velferðarkerfið en kannski ekki í réttan farveg. Til að mynda ætti að fjármagna úrræði sem grípa þig strax í stað þess að bíða þangað til fólk er orðið of veikt. Við sjáum að ungt fólk sækir í miklu meira mæli hingað og við sjáum ekki hvernig við eigum vegna fjárskorts að veita öllum þá hjálp sem þeir þurfa. Þarna er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Samfélagsþjónusta sem vinnur forvarnarstarf sem er svo mikilvægt. Þjónustan er ódýr en því miður virðast stjórnmálamenn ekki gera sér grein fyrir því. Starfsemi Hugarafls er að skila góðum árangri og hvers vegna er verið að leggja slíka þjónustu niður?“ spyr Auður en eins og áður sagði er stefnt að því að leggja GET-hluta Hugarafls niður í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert