Fundu ástina í Costco og barn á leiðinni

Síðustu mánuðir í lífi Þóreyjar og Ómars hafa verið eins …
Síðustu mánuðir í lífi Þóreyjar og Ómars hafa verið eins og í ævintýri.

Einhverjir vilja meina að áhrif Costco á íslenska smásöluverslun séu veruleg. Aðrir telja áhrifin ofmetin. Á þessu eru skiptar skoðanir og eflaust túlkunaratriði hvort er rétt. Það er hins vegar óhætt að fullyrða að áhrif Costco á líf Þóreyjar Sigurjónsdóttur og Ómars Arnar Magnússonar hafi verið veruleg og eflaust dramatískari en nokkurn tíma þau áhrif sem Costco hefur haft á smásöluverslun á Íslandi.

Þórey og Ómar eru nefnilega að upplifa eina skemmtilegustu nútímaástarsögu síðari tíma. Sagan er lyginni líkust og mun eflaust vekja von í brjóstum margra sem löngu hafa gefist upp á leitinni að hinni sönnu ást.

Fyrir rúmum níu mánuðum, rétt eftir opnun Costco hér á landi, fundu þau hvort annað í einum stærsta Facebook-hópi landsins, Keypt í Costco Ísl. – Myndir og verð. Reyndar var það Ómar sem fann Þóreyju og hún var ekki alveg á þeim buxunum að gefa honum tækifæri. Sem betur fer sló hún þó til. Nú eru þau trúlofuð, eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð og eiga von á barni í vor, nánar tiltekið þann 24. maí, daginn eftir ársafmæli Costco á Íslandi. En ekki hvað? „Þegar við fengum þessa dagsetningu þá héldum við að það væri verið að grínast í okkur,“ segir Þórey skellihlæjandi í samtali við mbl.is.

Fyrir átti hún tvö börn fyrir og Ómar þrjú. Nýjasta viðbótin verður því sjötta barnið í fjölskyldunni þar sem mikil hamingja ríkir.

Honum fannst ég sæt og „pókaði“ mig“

Sagan hefst á sakleysislegri athugasemd Þóreyjar við umræðu í Costco-hópnum, sem dugði til að kveikja áhuga Ómars og gekk hann beint til verks.

„Það var einhver sem hafði póstað einhverju sniðugu í tengslum við grænmeti og ég kommentaði í gríni á það. Ég man ekki einu sinni hvað, en hann sá það sem ég skrifaði, fannst það fyndið og smellti á prófílinn minn á Facebook. Honum fannst ég sæt og „pókaði“ mig og sendi mér svo skilaboð. Þetta var hálfasnalegt eitthvað,“ segir Þórey sem getur ekki varist hlátri þegar hún rifjar þetta upp.

Hún var þá búin að vera einstæð í fjögur ár og löngu búin að gefast upp á leitinni að hinum eina rétta. Átti mörg misheppnuð deit að baki og nennti varla að standa í slíku veseni lengur. Hún var komin í ákveðna rútínu sem snerist um börnin hennar tvö og hana sjálfa, fór sjaldan út og hélt hún hefði einfaldlega ekki rými fyrir aðra manneskju í lífi sínu.

Að reyna að finna ástina á börum bæjarins eða á Tinder, líkt og margir gera, var heldur ekki að heilla hana. Það var ekki rétti vettvangurinn, að hennar mati.

Fyrstu samskiptin ekki áhugaverð

Hún bjóst heldur ekki við því að Costco yrði hennar vettvangur, þó vissulega væri hún spennt fyrir komu opnun verslunarinnar, líkt og fjöldi Íslendinga. Það hvarflaði allavega ekki að henni að koma Costco til landsins myndi hafa jafn afgerandi áhrif á líf hennar og átti eftir að koma í ljós.

Þórey segir þau mjög lík og þeim líði eins og …
Þórey segir þau mjög lík og þeim líði eins og þau hafi þekkst miklu lengur en raun ber vitni.

„Ég var búin að vera lokuð fyrir öllu svona í langan tíma. Vinkonur mínar höfðu samt verið að ýta á mig að gera eitthvað í þessu. Ég var bara svo svartsýn orðin á að eitthvað myndi gerast. Ég var dottin í þennan pakka að ég nennti ekki að hafa fyrir þessu. Ég hafði tekið tímabil þar sem ég var að deita en ég átti aldrei neina samleið með þeim sem ég var að hitta. Vinkonur mínar hvöttu engu að síður til að tala við hann þannig ég ákvað að prófa,“ segir Þórey og vísar þar til upphafs samskipta hennar og Ómars.

Hún segir spjall þeirra engan veginn hafa verið áhugavert í fyrstu og það virtist sem hvorugt þeirra hefði tíma fyrir samskiptin. „Við spjölluðum eitthvað saman á Facebook, en það var ekkert áhugavert. Yfirleitt skiptir þetta fyrsta samtal svo miklu máli og það vekur frekari áhuga, en þetta var ekki þannig. Við vorum bæði rosalega upptekin þannig ég bjóst við að þetta myndi fjara út.“

Reyndi að koma sér undan stefnumóti

Fljótlega tók Ómar þó af skarið og bauð Þóreyju á stefnumót. Eitthvað sem hún hafi ekki búist við og boðið kom henni í opna skjöldu.

„Ég sagði já, en var samt ekkert viss um að ég ætlaði að fara á þetta deit. Svo var ég ótrúlega upptekin og sá ekki fram á að fá pössun, þannig ég bjóst ekki við því að það yrði af þessu. Ég sendi honum heila ritgerð í skilaboðum um að ég hefði aldrei neinn lausan tíma og hefði lítinn möguleika á pössun. Hann las hins vegar allt annað út úr skilaboðunum og fannst eins og ég hefði fullt af lausum tíma. Mér fannst ég ekki hafa neinn tíma, en hann sá allan tímann sem ég hafði raunverulega lausan fyrir utan það sem ég taldi upp.“

Ómar sá sér því leik á borði og stakk upp á því að þau myndu hittast á fimmtudegi, í sömu vikunni og samtalið fór fram. Þórey viðurkennir að henni hafi brugðið hressilega en sagði engu að síður já því hún hafði jú játað boðinu áður.

„Svo fór ég í kaffi til vinkonu minnar þar sem ég velti því fyrir mér hvernig ég gæti komið mér út úr þessu. Mér fannst þetta ekki alveg málið. En vinkonu minni fannst alveg fáránlegt að ég ætlaði ekki að fara. Hún sagði að þetta væri örugglega draumaprinsinn minn, en ég kæmist ekki að því nema ég færi. Ég var bara búin að gera þetta svo oft og af hverju átti hann að vera merkilegri en einhver annar?“

Kíkti í heimsókn og fór ekki aftur heim

Vinkona Þóreyjar gaf sig hins vegar ekki og hún gat því ekki annað en farið. „Hún gaf mér ekki kost á öðru þannig ég ákvað að prófa eitt deit,“ segir Þórey hlæjandi, en stefnumótið átti sér stað í byrjun júní á síðasta ári. Aðeins nokkrum dögum eftir að brandari um grænmeti hafði leitt Ómar inn á Facebook-síðu Þóreyjar.

Á aðfangadag skellti Ómar sér niður á skeljarnar og bað …
Á aðfangadag skellti Ómar sér niður á skeljarnar og bað Þóreyju um að giftast sér.

„Við fórum út að borða og það var alveg ótrúlega gaman. Við erum nákvæmlega eins að öllu leyti. Þetta var því ótrúlega skrautlegt og skemmtilegt deit.“ Það fer ekki á milli mála hve ástfangin Þórey er þegar hún lýsir fyrsta stefnumótinu, en óhætt að segja að þau hafi smollið saman strax. „Þetta er allt svo ótrúlega gaman,“ segir hún einlæg.

Eftir fyrsta stefnumótið hittust þau þó ekkert í þrjár vikur, en að þeim tíma liðnum fóru hjólin að snúast. Og það ansi hratt. „Ég fór til hans á fimmtudegi þremur vikum síðar og fór ekkert heim aftur um sumarið. Svo flutti hann inn til mín í lok ágúst.“

Vissi ekki að allt gæti gengið svona upp

Þórey trúði því ekki að það gæti verið svona áreynslulaust og eðlilegt að sameina tvær fjölskyldur og hefja líf með öðrum einstaklingi.

„Ég var komin í þann pakka að ég gerði ekki neitt, fór ekki neitt og var orðin sátt við það. Ég var líka komin með mjög fastmótaðar hugmyndir um hvernig allt þyrfti að vera ef ég fyndi einhvern. Þetta var mjög fjarlægt. Það hafði ekki hvarflað að mér, áður en ég hitti hann, að hlutirnir gætu verið svona eins og þeir eru. Ég gat ekki að þessu gert. Þetta gerðist bara. Maður reynir oft að finna eitthvað við manneskjuna til að ýta henni frá sér, en ég gat það ekki í þessu tilfelli.“

Þórey kíkti í heimsókn til Ómars og fór ekki heim …
Þórey kíkti í heimsókn til Ómars og fór ekki heim aftur fyrr en hann fylgdi henni þangað og flutti inn.

Um jólin fór Ómar svo niður á skeljarnar og bað Þóreyju um að giftast sér. „Það var jólagjöfin,“ segir Þórey kímin. „Þetta er auðvitað mjög stuttur tími og við erum bæði meðvituð um það. Allir sem þekkja okkur bæði vita að þetta er lyginni líkast og þannig hefur það verið frá upphafi. Okkur finnst eins og við höfum þekkst í miklu lengri tíma. Við erum svo ótrúlega lík. Allt í einu varð allt sem var svo flókið í hausnum á mér, svo ótrúlega einfalt. Það passaði allt. Börnin, lífið og plönin, allt sem við erum að gera.“

Barnið fær Costco-Baby smekk

Þórey viðurkennir að þau hafi bæði jafn gaman af því að kíkja í Costco. „Það er gaman að geta sameinast í því. Fyrst þegar við fórum saman þá fannst okkur fannst okkur tilvalið að sýna vinunum frá því á Snapchat.“

Samband Þóreyjar og Ómars og það hvernig þau kynntust hefur verið óþrjótandi uppspretta brandara í vinahópum þeirra beggja og víðar. Vinkonur Þóreyjar héldu til að mynda fyrir hana barnaboð eða „babyshower“ á dögunum, sem að sjálfsögðu var með Costco ívafi. Létu þær meðal annars útbúa smekk fyrir ófætt barnið með áletruninni: Costco-Baby. En væntanlega er um fyrsta íslenska Coscto-barnið að ræða.

Sem betur fer hafa þau bæði mikinn húmor fyrir þessu öllu saman. „Okkur finnst líka báðum skemmtilegra að segja frá þessari sögu heldur en sögu af Tinder,“ segir Þórey kímin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert