Grænt ljós á frekari uppbyggingu

Á skíðum í Bláfjöllum.
Á skíðum í Bláfjöllum. mbl.is/Eggert

Í nýrri skýrslu um vatnsvernd á Bláfjallasvæðinu sem starfshópur á vegum Kópavogsbæjar hefur skilað af sér er gefið grænt ljós á að frekari uppbygging verði til lengri framtíðar á svæðinu í Bláfjöllum og í Þríhnjúkagígum.

Unnið hefur verið að skýrslunni í rúmt ár.

Þar kemur fram að ásættanlegt sé að starfsemin verði áfram á svæðinu. Þetta staðfesti Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, við mbl.is, og sagði hann niðurstöðuna jákvæða. 

Ármann greindi frá því í samtali við mbl.is á síðasta ári að niðurstaða skýrslunnar skipti miklu máli upp á það hvar framtíðarskíðasvæði íbúa á höfuðborgarsvæðinu verður og hvaða möguleikar eru á uppbyggingu á Þríhnjúkum.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfshópur á vegum Kópavogsbæjar lagði fram greinargerð um áhættumat vegna starfsemi á skíðasvæði í Bláfjöllum og fyrirhugaðrar starfsemi við Þríhnúkagíg gagnvart vatnsvernd og grunnvatnsmálum á fundi bæjarráðs í Kópavogsbæjar í gær.

Einnig var á fundinum lögð fram skýrsla verkfræðistofunnar Vatnaskil undir heitinu „Þríhnúkagígur og skíðasvæði í Bláfjöllum, dreifingarreikningar vegna áhættumats uppbyggingar og starfsemi“ og skýrslan „Uppbygging aðstöðu við Þríhnúkagíg og Bláfjöll, áhættumat gagnvart vatnsvernd,“ sem var unnin af verkfræðistofunni Mannvit.

Fyr­ir tveim­ur árum kom út skýrsla um vatns­vernd á höfuðborg­ar­svæðinu sem Sam­tök sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu (SSH) létu vinna fyr­ir sig. Við gerð nýju skýrslunnar var farið dýpra ofan í það sem kom fram í þeirri skýrslu. 

Áhættu­grein­ing­in vegna skíðasvæðis­ins teng­ist um­ferðinni í kring­um svæðið og meng­un vegna henn­ar en ekki hugs­an­legri snjó­fram­leiðslu.

Reykja­vík­ur­borg sér um rekst­ur skíðasvæðis­ins fyr­ir hönd sveit­ar­fé­lag­anna. Sam­komu­lag ligg­ur þegar fyr­ir á meðal Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að horfa til frek­ari upp­bygg­ing­ar í Bláfjöll­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert