„Mikill missir fyrir tónlistarheiminn“

Frá Golden Globe-verðlaunaafhendingunni.
Frá Golden Globe-verðlaunaafhendingunni. AFP

Jóhann Jóhannsson tónskáld varð þjóðþekktur á einni nóttu þegar hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndina The Theory of Everything árið 2014. Þrátt fyrir að nafn Jóhanns hefði þá verið nýtt fyrir mörgum Íslendingum  var hann þó langt frá því að vera óþekktur. Erlendis hafði frægðarsól hans verið að rísa hægt og örugglega síðustu tvo áratugi eða svo og hann hafði um árabil verið í hringiðu íslenskrar tónlistarsenu, einkum jaðarbundnari hlutanum. 

Jóhann Jóhannsson á rauða dreglinum við Óskarsverðlaunaafhendinguna árið 2015, en …
Jóhann Jóhannsson á rauða dreglinum við Óskarsverðlaunaafhendinguna árið 2015, en hann var tilnefndur til verðlaunanna fyrir tónlist myndarinnar The Theory of Everything. AFP

Lögregla kom að Jóhanni látnum á heimili sínu í Berlín í gær og er dánarorsökin enn ókunn. Umboðsmaður Jóhanns, Tim Husom, staðfestir fregnir af andláti Jóhanns en það var hann sem hafði samband við lögregluna í Þýskalandi eftir að hann hafði ekki heyrt frá Jóhanni  í nokkra daga.

Vakti fyrst athygli með Daisy Hill Puppy Farm

Tónlistarstíll Jóhanns hreif marga, á sólóferli sínum lagði hann sig eftir naumhyggju sem þó var djúpmelódísk og náði hann að heilla fólk jafnt úr heimi klassíkur og dægurtónlistar. Vald hans á kvikmyndatónlist var orðið algert undir það síðasta, eins og kristallaðist í framúrskarandi tónlist hans við myndirnar Sicario og Arrival. Jóhann hlaut Golden Globe-verðlaun árið 2014 fyrir tónlistina í The Theory of Everything en Jóhann var tilnefndur ýmist til allra helstu verðlauna heims á ferlinum, s.s. Grammy-, BAFTA-, Óskars- og Golden Globe-verðlaunanna.

Jóhann Jóhannsson um aldamótin 2000. Jóhann Jóhannsson Nýjasta tækni og …
Jóhann Jóhannsson um aldamótin 2000. Jóhann Jóhannsson Nýjasta tækni og vísindi mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Jóhann fæddist árið 1969 í Reykjavík og vakti hann fyrst athygli í tónlistinni sem liðsmaður íslensku neðanjarðarrokkhljómsveitarinn Daisy Hill Puppy Farm um og eftir miðjan níunda áratuginn. Í kjölfarið vann hann meðal annars með Gunnari Lárusi Hjálmarssyni, sem er betur þekktur sem Dr. Gunni, og Páli Óskari Hjálmtýssyni, en Jóhann og Sigurjón Kjartansson sem þá voru báðir hljómsveitarmeðlimir hljómsveitarinnar HAM aðstoðuðu Pál Óskar við gerð fyrstu sólóplötunnar hans, Stuð. Jóhann spilaði á þessum árum jafnframt með rokkhljómsveitunum Olympia og Unun og var auk þess einn stofnenda Tilraunaeldhússins sem var eins konar hugsunartankur sem studdi ríkulega við bakið á íslenskri neðanjarðartónlist með plötuútgáfu og viðburðahaldi.

Jóhann ásamt aðstandendum Tilraunaeldhússins, þeim Hilmari Jenssyni (lengst til vinstri), …
Jóhann ásamt aðstandendum Tilraunaeldhússins, þeim Hilmari Jenssyni (lengst til vinstri), Kristínu Björk Kristjánsdóttur og Pétri Hallgrímssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Undir lok tíunda áratugarins spilaði Jóhann í Lhooq ásamt Pétri Hallgrímssyni og Söru Marti Guðmundsdóttur og á þeim áratug og fram í þann næsta var hann einstaklega virkur og kom að hinum og þessum verkefnum öðrum. Vann m.a. með Marc Almond, Barry Adamson og Pan Sonic og var einn stofnmeðlima Orgelkvartettsins Apparat.

Hóf að semja kvikmyndatónlist af meiri krafti upp úr aldamótum

Upp úr 2000 hóf hann að semja sjónvarps-, kvikmynda- og ósungna tónlist af meiri krafti en áður og átti sú vinna eftir að eiga hug hans og hjarta til dánardags. Jóhann hlaut þannig mikið lof fyrir tónlist sína við leikritið Englabörn sem kom út erlendis árið 2002 á vegum Touch útgáfunnar. Markaði tónverkið ákveðin skil í lífi Jóhanns og fór nafn hans að verða þekkt í erlendum kreðsum. Jóhann sinnti jöfnum höndum tónlist sem samin var fyrir aðra miðla og svo eigin verkum, sem voru frístandandi, og var tilraunastarfsemin ávallt innan seilingar.

Árið 2004 gaf hann t.a.m.  út plötuna Virðulegu Forsetar, klukkutíma langt verk tólf manna lúðrasveitar, slagverksleikara og „drone“-hljóðfæris sem samanstóð af orgelpunktu, rafbassahljóðum og ýmiss konar rafhljóðum. Hann sendi frá sér sína fjórðu sólóplötu, IBM 1401, A User‘s Manual, árið 2006 og vakti platan mikla athygli bæði á Íslandi og erlendis en hún var víða á listum yfir bestu plötur ársins 2006. Tónlistin á plötunni samanstendur af strengjum og tölvuhljóðum sem eiga rætur sínar að rekja til IBM 1401-tölvu sem var flutt til landsins árið 1964 en innblásturinn sótti Jóhann til föður síns sem sá um viðhald á þessum forlátu tölvum. Er hér var komið við sögu var Jóhann kominn á mála hjá hinni virtu bresku útgáfu 4AD.

Jóhann ásamt Stephan Stephensen við opnun sýninga þeirra beggja. Stephan …
Jóhann ásamt Stephan Stephensen við opnun sýninga þeirra beggja. Stephan hélt ljósmyndasýninguna „Air Condition“ en Jóhann var með innsetningu sem tengdist tónverkinu „Virðulegu forsetar“ mbl.is/Jim Smart

Kvikmyndatónlistarverkum fjölgaði mikið síðustu ár

Undir því merki kom platan Fordlândia út árið 2008, verk sem var innblásið af hugmyndum bandaríska frumkvöðulsins Henry Ford um byggingu útópískrar borgar í norðurhluta Brasilíu. Árið 2011 var frumsýnd heimildarmyndin The Miners‘ Hymns en Jóhann samdi tónlistina í myndinni sem segir frá sögu kolanámumanna í Durham í Englandi.

Kvikmyndatónlistarverkum var farið að fjölga hin síðustu ár eins og fram kemur í upphafi. Nú í febrúarbyrjun kom t.d. út tónlist hans við myndina The Mercy, þar sem Colin Firth og Rachel Weisz fara með aðalhlutverkið. Deutsche Grammophon, virtasta útgáfa heims á sviði klassískrar tónlistar gefur út en á hennar vegum kom og út síðasta sólóplata Jóhanns, Orphée.

Jóhann var einn meðlima hljómsveitarinnar Ham.
Jóhann var einn meðlima hljómsveitarinnar Ham. mbl.is/Jim Smart

Hefði farið enn lengra á næstu árum

Ég er fyrir það fyrsta í algjöru áfalli. Þetta eru algerar hörmungarfréttir," segir Arnar Eggert Thoroddsen, poppfræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is sem leitaði viðbragða hans vegna andláts Jóhanns.

„Jóhann eða Jói var aðeins eldri en ég, og ég og bróðir minn hrifumst af honum þar sem hann spilaði með neðanjarðarokksveitinni Daisy Hill Puppy Farm. Seinna áttum við eftir að kynnast og það tókst með okkur ágætis vinskapur. Ég tók við hann fjölda viðtala, við treystum hvor öðrum og á milli okkar gagnkvæm virðing. Okkur þótti gaman að tala saman um tónlist, pæla í henni og ígrunda,“ segir Arnar Eggert.

Arnar Eggert Thoroddsen hreifst fyrst af Jóhanni Jóhannssyni þegar hann …
Arnar Eggert Thoroddsen hreifst fyrst af Jóhanni Jóhannssyni þegar hann spilaði með Daisy Hill Puppy Farm. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er búið að vera magnað að fylgjast með þessari vegferð hans í tónlistinni, þessi hægi en öruggi stígandi sem var að skila honum aðdáun sívaxandi hóps tónlistaráhugamanna. Hann naut þegar mikillar virðingar þeirra sem fylgdust grannt með en upp á síðkastið var almenningur farinn að taka við sér. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna tónlist hans við myndirnar Sicario og Arrival, sem bera með sér hárnákvæma blöndu af listrænni sýn og því sem kalla mætti þjónustu við kvikmyndaformið. Þetta er algerlega ótrúleg tónlist hjá Jóhanni, og gæðin á því sem hann hefur sent frá sér í gegnum tíðina eru mikil og góð,“ segir Arnar.

„Jói var listamaður fram í fingurgóma, ofurseldur tónlistargyðjunni og var vinnusamur, metnaðarfullur og með afar skýra sýn á hlutina. Þess fyrir utan afskaplega mikill ljúflingur og góð sál. Það sem er sorglegast, er að hann var alltaf að vaxa í listinni og hann hefði án efa farið enn lengra á næstu árum. Þetta er mikill missir fyrir tónlistarheiminn, ekki bara hérlendis heldur á alþjóðlega vísu einnig."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert