Gul viðvörun víða um land

Gul viðvörun er víða næstu tvo sólarhringa.
Gul viðvörun er víða næstu tvo sólarhringa. Mynd/Veðurstofa Íslands

Búast má við áframhaldandi hvassvirðri á Suður- og Suðausturlandi í kvöld og í nótt og fram frameftir annað kvöld. Þó mun hlýna og gera má ráð fyrir rigningu samhliða vindinum á morgun. Á Faxaflóasvæðinu er spáð hvassri austanátt síðdegis á morgun og er sérstaklega varað við snörpum vindhviðum við fjöll, meðal annars Hafnarfjall og Kjalarnes.

Þá gætu heiðar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sérstaklega orðið slæmar í þessari vindátt að sögn Haralds Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir að ekki stefni í að vindurinn verði jafn mikill og í suðaustan áttinni um daginn, en það verði samt leiðinda hvassviðri. Segir hann að í borginni verði þó líklegast nokkuð skaplegt veður.

Veðurstofan hefur nú bætt við gulri viðvörun á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og nær viðvörunin frá því annað kvöld og fram á hádegi á þriðjudaginn.

Segir Haraldur að frá Breiðafirði og norður í land megi búast við talsverðu hríðarveðri eftir kvöldmat á morgun. „Það er nóg af lausum snjó á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og þar verður þetta líklega skafhríð,“ segir hann og bætir við að við slíkar aðstæður sé mjög lélegt ferðaveður. Segir hann að í raun eigi allir sem eru á ferðinni næstu tvo sólarhringa að fylgjast vel með veðurspá. Ekki sé endilega líklegt að vegum verði lokað, en að veðrið geti engu að síður reynst mörgum erfitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert