Fjórir létust úr listeríusýkingu

AFP

Óvenjumargir eða sjö einstaklingar greindust með listeríusýkingu á árinu 2017 en hún orsakast af bakteríunni Listeria monocytogenes. Fjórir af þessum sjúklingum létust, þrír af þeim voru eldri einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma en einn var nýfætt barn. Sýkingarnar voru taldar innlendar í sex af þessum tilfellum, segir í Farsóttarfréttum embættis landlæknis sem komu út í gær.

mbl.is/Helgi Bjarnason

Bakteríuna má finna í ógerilsneyddri mjólk og afurðum hennar, í hráum fiski og í grænmeti. Sýkingin getur verið skæð þeim sem eru með skert ónæmiskerfi, nýburum og eldra fólki.

„Fyrsta tilfellinu af listeríusýkingu var lýst á Íslandi 1978. Árið 1997 var listeríusýking gerð tilkynningarskyld. Fjöldi tilfella á árabilinu 1997‒2016 var 19 eða u.þ.b. eitt tilfelli á ári að meðaltali en dreifingin ójöfn.

Á árunum 2015 og 2016 greindist enginn með listeríu. Rannsókn á orsökum þessara sýkinga stendur yfir,“ segir í Farsóttarfréttum.

Rakið til frosins forpakkaðs grænmetis

Samkvæmt upplýsingum fá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa á þessu ári greinst listeríusýkingar í Austurríki, Danmörku, Finnlandi, Bretlandi og Svíþjóð af völdum L. monocytogenes-sýkla sem eru erfðafræðilega skyldir.

Líkur eru á því að rekja megi sýkingarnar í Evrópu til frosins forpakkaðs grænmetis sem verið hefur í umferð frá árinu 2015 en beðið er frekari niðurstaðna. Unnið er að því að kanna skyldleika íslensku bakteríustofnanna við þá evrópsku.

Sígellusýking á leikskóla í Grindavík

Í lok nóvember 2017 var tilkynnt um sígellusýkingu í barni á leikskóla í Grindavík. Nokkuð hafði borið á iðrakveisu meðal barna og starfsmanna þar, oftast með uppköstum. Sýnatökur úr öðrum sýndu ekki fram á neina sýkingarvalda. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kannaði að- stæður í leikskólanum og veitti ráðgjöf um hreinlæti.

Ekki hefur tekist að rekja uppruna sígellusýkingarinnar en barnið hafði ekki verið erlendis. Sígellusýkingar eru nú orðnar sjaldgæfar hér á landi. Árin 2014 og 2015 greindust sígellutilfelli eitt hvort árið og bæði tilfellin voru af erlendum uppruna.

Hópsýking hjá alþjóðlegu fyrirtæki í Reykjavík

Iðrasýkingar voru áberandi á árinu 2017. Í ágúst sl. braust út hópsýking af völdum nóróveiru meðal skáta. Af rúmlega 180 manns sem dvöldu á Úlfljótsvatni veiktist 81. Ekki tókst að rækta veiruna i umhverfinu og því líklegt að sjúkdómurinn hafi smitast frá manni til manns sem bjuggu þröngt saman.

Síðla ágústmánaðar braust svo út hópsýking með iðrakveisu meðal 130 starfsmanna Háaleitisskóla-Hvassaleiti og Hörðuvallaskóla sem talin var vera af völdum bakteríunnar Aeromonas hydrophilia. Talið var að rekja mætti sýkinguna til óhreinsaðs blaðsalats sem var á matborðum skólanna.

Um miðjan nóvember 2017 hófst hópsýking með magakveisu meðal starfsmanna alþjóðlegs fyrirtækis með höfuðstöðvar í Reykjavík. Af um 200 starfsmönnum veiktust 50 þeirra með niðurgangi, kviðverkjum, hita og í sumum tilfellum uppköstum.

Einkennin vörðu að jafnaði 3-6 daga og enginn þurfti á sjúkrahúsvist að halda. Ítarlegar bakteríu-, sníkjudýra- og veirurannsóknir leiddu ekki ljós orsök veikinnar.

Gerð var tilfellaviðmiðunarrannsókn af hálfu sóttvarnalæknis sem beindist að því að kanna hvort veikindin tengdust ákveðnum mat eða drykk. Jafnframt kannaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur aðstæður innan fyrirtækisins. Þessar rannsóknir leiddu ekkert markvert í ljós sem skýrt gæti þessa hópsýkingu.

AFP

Sýkingum af völdum salmonella fjölgaði talsvert á árinu 2017 miðað við árin á undan. Hluti skýringarinnar á því er að á árinu greindust tíu einstaklingar með iðrasýkingu af völdum bakteríunnar Salmonella typhimurium sem er aukning umfram það sem vænta má. Átta þeirra greindust haustið 2017 og virtust sýkingarnar vera af innlendum toga.

Matvælastofnun rannsakar salmonella 

Rannsóknir á þessum bakteríum leiddu í ljós að þær eru samstofna í sjö tilfellum en eitt tilfelli (þriggja ára barn í Mosfellsbæ) var með annan salmonellustofn sem fundist hefur á svínabúi hér á landi. Þessir bakteríustofnar tengjast ekki hópsýkingum af völdum S. typhimurium á Norðurlöndum sem varð vart við um svipað leyti. Ekki hefur enn fundist skýring á innlendu tilfellunum að öðru leyti en því að sýkinguna í áðurnefndu barni má hugsanlega rekja til svínabús hér á landi. Matvælastofnun rannsakar það mál.

Í byrjun nóvember 2017 greindust sýkingar af völdum Salmonella poona hjá fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu. Faðir var sýktur en einkennalaus en kona hans og dóttir voru með niðurgang og þurfti dóttirin að vistast á spítala. Fjölskyldan hafði ekki dvalið erlendis og því sýkst hér á landi.

Í ágúst 2017 ræktaðist þessi salmonella í ryksýni frá sojamjöli sem kann að hafa verið gefið gæludýrum. Ekki tókst að tengja það sýkingunni í fjölskyldunni. S. poona greindist síðast í hópsýkingu meðal aldraðra í sambýli á höfuðborgarsvæðinu árið 2008 og starfsmanna þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert