Beinbrunasótt greind á Íslandi

Breinbrumasótt (Dengue) dregur tugi þúsunda manna til bana á ári …
Breinbrumasótt (Dengue) dregur tugi þúsunda manna til bana á ári hverju. AFP

Ungur maður kom í nóvember heim til Íslands eftir að hafa dvalist á Filippseyjum. Hann veiktist á heimleiðinni með hita, skjálfta, niðurgangi og almennum slappleika. Staðfest var með blóðprófi að um beinbrunasótt (Dengue) var að ræða en aðeins einu sinni áður hefur hún greinst hér á landi. Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum Embættis landlæknis sem komu út í gær. 

Engar áberandi blæðingar voru hjá unga manninum en sjúklingurinn kvartaði um doða á báðum fótleggjum neðan hnjáa af og til.

Fyrra tilvik beinbrunasóttarinnar hér á landi greindist í flugmanni sem dvalið hafði á Filippseyjum og Papua Nýju Gíneu árið 2013.

Beinbrunasótt er moskítóborinn veirusjúkdómur sem er landlægur í hitabeltislöndum og gengur reglubundið í faröldrum. Sjúkdómurinn er mikill skaðvaldur, sýkir tugi milljóna manna og dregur tugi þúsunda manna til dauða á ári hverju.

Þar sem moskítóflugur þrífast ekki hérlendis nær hann ekki að breiðast út á Íslandi. Ekki er til bóluefni gegn sjúkdómnum og ekki heldur sértæk lyfjameðferð. Mikilvægt er að forðast moskítóbit eftir megni en moskítóflugurnar (Aedes aegypti) sem bera þennan sjúkdóm bíta að degi til.

AFP

Tvíburunum heilsast vel

Vorið 2017 greindust mislingar í níu mánaða gömlu barni hér á landi sem dvalist hafði í Taílandi. Fjöldi einstaklinga hafði verið í misnánum samskiptum við barnið á meðan á veikindunum stóð. Stærsti hluti þessara einstaklinga var bólusettur en óbólusettum einstaklingum var boðin bólusetning sem allflestir þáðu. Tvíburabróðir barnsins veiktist svo af mislingum hér á landi hálfum mánuði eftir að bróðirinn veiktist.

Tvíburabræðurnir voru óbólusettir vegna aldurs. Þetta er í fyrsta skipti í u.þ.b. aldarfjórðung sem mislingasmit hefur orðið á Íslandi. Bræðrunum heilsaðist vel og ekki varð vart við frekara smit hér á landi sem tengdist þessum sjúklingum sem bendir til þess að hjarðónæmið hér á landi sé viðunandi.

Íslendingur sem starfaði í Bangladess veiktist í lok október 2017 þar í landi með öndunarfæraeinkenni en jafnaði sig á nokkrum dögum. Eftir heimkomu til Íslands í nóvember 2017 bar á útbrotum í andliti, á hálsi og bringu án annarra einkenna.

Hægt var að greina mislingaveiruna í sjúklingi með erfðamögnunartækni (PCR). Sjúklingur hafði sögu um fullnægjandi bólusetningu gegn mislingum og var mótefnasvarið kröftugt sem leiddi til vægrar sjúkdómsmyndar sem ekki var einkennandi fyrir mislinga. Ekki er kunnugt um að sjúklingurinn hafi smitað út frá sér hér á landi. 

Fimm með lifrarbólgu A

Á árinu 2017 greindust fimm einstaklingar með lifrarbólgu A hér á landi en síðustu fjögur árin á undan hafði enginn verið greindur með sjúkdóminn. Fjórir af þeim voru karlmenn sem höfðu kynmök við aðra karlmenn.

Tengdust þau tilfelli faraldri af völdum lifrarbólgu A sem gengur yfir í Evrópu um þessar mundir einkum meðal karlmanna sem hafa kynmök við karlmenn.

Lifrarbólga A smitast um munn með saurmenguðum mat eða vökva og engin meðferð er til við sjúkdómnum. Besta fyrirbyggjandi meðferðin við lifrarbólgu A er bólusetning auk almenns hreinlætis við inntöku matar og vökva.

Sóttvarnalæknir hvetur alla sem eru mikið á ferðalögum erlendis og sérstaklega karlmenn sem stunda kynlíf með karlmönnum að láta bólusetja sig. Lifrarbólga A er yfirleitt hættulítill sjúkdómur sem lagast án meðferðar en getur í stöku tilfellum valdið alvarlegum lifrarskemmdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert