„Það hlýnar á morgun“

Það hefur verið kalt á landinu í dag en það …
Það hefur verið kalt á landinu í dag en það var 8 stiga frost í Reykjavík í morgun. mbl.is/Eggert

Heldur hlýnar á landinu öllu seinnipartinn á morgun og hitastig verður komið réttum megin við frostmark síðdegis og annað kvöld. Þessu fylgir þó einhver rigning, sérstaklega á suðvesturhluta landsins.

„Veður verður rysjótt á morgun. Áttin er suðaustlæg og henni fylgir svolítil rigning á láglendi og kannski slydda á fjallvegum á Suðvesturlandi,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það hlýnar á morgun,“ segir Elín en það snýr aftur í suðvestanátt á sunnudag með stöku éljum.

Hún segir að fólk verði að hafa varann á á morgun. „Jörðin er mjög köld og þegar það fer að rigna ofan á það getur myndast glæra og leiðindaástand.“

Elín bendir á að spáin fyrir mánudag sé ekki góð en þá gera spár ráð fyrir mikilli rigningu. Þá gæti þurft að fylgjast með því hvort vatn vaxi í ám og vötnum.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert