„Rosalega ertu komin með stór brjóst“

Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar, ljósmæður og fleiri starfsmenn heilbrigðisstofnana skrifa undir …
Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar, ljósmæður og fleiri starfsmenn heilbrigðisstofnana skrifa undir yfirlýsinguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kynbundið ofbeldi áreitni og mismunun hefur átt sé stað innan allra heilbrigðisstofnana landsins og á því þarf að taka tafarlaust. Vandann má bæði finna í framkomu samstarfsmanna sem og þeirra skjólstæðinga sem nota þjónustuna. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu 627 kvenna sem starfa í heilbrigðisþjónustu. Yfirlýsingunni fylgja 53 frásagnir kvenna af kynbundinni mismunun og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í starfi.

„Konur eiga skilið vinnufrið, að lifa og starfa í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga í sínum störfum,“ segir í yfirlýsingunni. „Birtingarmyndirnar eru fjölmargar og kemur áreitnin alls staðar að úr kerfinu; frá kennurum, stjórnendum, samstarfsmönnum og skjólstæðingum. Margar frásagnanna snúast um að mörk um eðlileg samskipti eru markvisst ekki virt og hefst það nánast um leið og konur stíga fæti inn í heilbrigðiskerfið sem nemendur.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að konum sem lenda í áreitni hefur verið sagt að harka af sér og venjast aðstæðum, sumum jafnvel sagt að þegja eða þeim refsað þegar þær hafa stigið fram og sagt frá. „Konum er iðulega sýnt í orði og á borði að þær séu ekki jafnar körlum. Ítrekað eru þær hundsaðar í faglegum samræðum, lítið gert úr fagþekkingu þeirra og vitsmunum og þær gjarnan hlutgerðar og ýtt til hliðar í sínum störfum.Öll eigum við rétt á faglegri heilbrigðisþjónustu og konur í heilbrigðiskerfinu sinna sínu starfi af heilindum og fagmennsku. Þær gera sér fulla grein fyrir því hversu viðkvæmur hópur skjólstæðingar þeirra er og sýna því aðgát og virðingu.

Frásagnir kvenna sem starfa í heilbrigðisþjónustu sýna svart á hvítu að breytinga er þörf og það strax.Konur eiga ekki að þurfa að hvísla varnarorðum að hver annarri um það hvernig hægt sé að forðast kynferðislega áreini eða mismunun eða þegja starfsöryggis síns vegna.“

Konurnar lýsa bæði samskiptum sínum við karlkyns samstarfsmenn sem og …
Konurnar lýsa bæði samskiptum sínum við karlkyns samstarfsmenn sem og skjólstæðinga þeirra stofnana sem þær hafa starfað hjá.

Ein kvennanna lýsir atviki sem hún lenti í með þessum orðum:

„Fundur með amk 7 konum og einum karli. Karlinn: Anna, stattu aðeins upp! (Èg hèlt èg sæti à einhverju eða hefði misst eitthvað ofan à mig ). Èg stóð upp. Karlinn: Rosalega ertu komin með stòr brjóst! Èg missti málið og settist. Enginn sagði neitt og fundurinn hélt àfram. Dæmigerðar staðhæfingar frà sama einstakling: Maður missir hann alveg niður nàlægt svona umræðu.... Endalaus lìtilsvirðing í samskiptum, beinar hótanir og að grafið væri undan starfi mìnu, var þó miklu verra. Umræðan um hegðunina var: að nenna ekki/treysta sèr ekki, ì hann, enda lentir þù þà ì hòpnum sem talað var illa um og grafið undan.“

Önnur sagði svo frá:

„Þegar ég var í verknámi sem hjúkrunarnemi á fyrir nokkrum árum var eldri maður sem greip í klofið á mér og sagðist vilja sofa hjá mér.“

Önnur segir frá því að þegar hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á stofnun á höfuðborgarsvæðinu hafi hún verði hluti af félagsskap sem henni þótti mikilvægur. Í þeim félagsskap var læknir sem hún þekkti lítið. „Eitt kvöld ákvað þessi maður að skrifa mér tölvupóst með nákvæmum lýsingum um hvað hann óskaði að gera við mig og með mér á mjög kynferðislegan hátt. Bréfið sendi hann mér tvisvar sinnum því í fyrra skiptið gleymdi hann að festa viðhengið með, myndir af kynfærum hans annars vegar í slökun og hins vegar í fullri reisn. Honum fannst hann sjálfur „svo vel vaxinn að neðan“ að eigin sögn í tölvupóstinum.“

Ein konan segir svo frá:

„Ein eftirminnileg saga. Var inn í herbergi með karlmanni sem var 40 árum eldri en ég. Þurfti að taka margar blóðprufur, setja æðalegg og búa um sár. Hann talaði mikið um börnin sín og vinnu. Ég kinkaði bara kolli og reyndi að einbeita mér. Þegar ég var búin að vera inn í herberginu í nokkrar mínútur sagði hann „ég ætti að læsa herberginu, henda þér upp á bekkinn og ríða þér“. Mér brá en svaraði stuttu seinna „þú varst að segja mér frá dætrum þínum, ég ætla að vona það að þær þurfi ekki að hitta menn eins og þig í vinnunni sinni“.“

Elska að sjá þau hossast

Sumar konurnar lýsa einnig samskiptum sínum við skjólstæðinga heilbrigðisstofnana. Hér fer ein slík reynslusaga:

„Stuttu eftir miðnætti varð allt brjálað að gera og kallinn hringir bjöllunni. Enginn séns að kalla á aðstoð svo af stað ég fer. Þegar ég kem inn og slekk á bjöllunni biður hann mig að laga kodda og skipta um stellingu. Þegar ég beygi mig að honum grípur hann þéttingsfast í annað brjóstið mitt og byrjar aftur að fróa sér. Ég kem mér undan, klára vaktina í móki og læt deildarstjóra vita við vaktaskipti. Skilaboðin voru skýr: ekki vera með neitt vesen, hann er nú gamall og þú svo sæt. Sami vinnustaður, þáverandi yfirmaður heimilisins: Gætir þú sleppt brjóstahaldaranum á morgun? Ég elska að sjá þau hossast.“

Þá er þessi saga á meðal þeirra sem hafa verið birtar:

„Pantaði tíma hjá karlkyns lækni sem ég þekkti ekki og hann spyr hvar ég sé að vinna þegar hann kemst að því að ég sé hjúkrunarfræðingur. Ég segi honum það og hann segir mér að í „gamla daga“ þegar hann var að vinna á spítalanum var næsta deild við mína deild uppáhalds deild allra læknanna því þar voru hjúkkurnar með svo góð og flott brjóst.“

Hættar að þegja til að halda friðinn

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir að konur í heilbrigðisþjónustu skili hér með skömminni þangað sem hún á heima og krefjast þess að heilbrigðisyfirvöld landsins, stéttarfélög, fyrirtæki og stofnanir á heilbrigðissviði viðurkenni vandann og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlunum gegn kynbundnu ofbeldi og kynbundinni mismunun ef þær eru ekki nú þegar til staðar. Farið er fram á að þolendum kynferðisofbeldis og kynbundinnar mismununar innan heilbrigðisþjónustunnar sé veittur stuðningur við að vinna úr reynslu sinni og fái aðstoð frá viðeigandi aðilum við að færa sín mál í rétt ferli. Taka ber mark á þolendum og málum verður að vísa í réttan faglegan farveg. Það mun stuðla að aukinni fagmennsku ásamt því að bæta hag starfsmanna sem og skjólstæðinga.

„Farið er fram á að gerð sé áætlun um aðgerðir og úrbætur þar sem meðal annars verði farið yfir ferli umkvartana og starfsfólki og stjórnendum veitt markviss fræðsla um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og mismununar og þjálfun í því hvernig vinna eigi úr umkvörtunum. Mikilvægt er að líta heildstætt á vandamálið og nálgast það lausnamiðað og faglega til að tryggja sem farsælust samskipti vinnustaðar, starfsfólks og skjólstæðinga.Með fræðslu og faglegum vinnubrögðum er hagsmuna allra gætt.

Við erum hættar að þegja til að halda friðinn, við segjum okkar sögur og krefjumst úrbóta.
#konurtala #viðerumgosið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert