Kennari komst upp með að nauðga nemanda

Konur í menntageiranum sendu frá sér yfirlýsingu og dag og …
Konur í menntageiranum sendu frá sér yfirlýsingu og dag og stigu fram með 30 sögur.

„Ég starfaði einu sinni við framhaldsskóla þar sem kennari nauðgaði nemanda, utan skólatíma. Skólastjóra var gert viðvart en kennarinn var ekki kærður fyrir verknaðinn.“ Svona hefst frásögn konu innan menntageirans sem greinir frá því að samstarfsmaður, kennari við framhaldsskóla, hafi komist upp með það að nauðga nemanda við skólann, en hann fékk að hætta störfum á fölskum forsendum eftir atvikið.

737 konur innan menntageirans hafa undirritað áskorun um að þær fái að vinna sína vinnu án áreitni, ofbeldis og mismununar. Þær stigu fram í dag og birtu 30 frásagnir af áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir eða orðið vitni að í starfi sínu, undir myllumerkinu #MeToo.

Konan sem hóf frásögnina hér að ofan sagði stjórnendur skólans hafa verið sammála um að maðurinn yrði að hætta störfum við skólann. Skólastjórinn kallaði kennarann því á fund og gaf honum kost á því að segja upp störfum

­„Niðurstaða fundar þessara tveggja karla var að kennarinn sagði upp undir því yfirskini að hann ætti við veikindi að stríða. Hann fékk að senda tölvupóst á starfsfólk skólans þar sem hann tilkynnti að hann hefði sagt upp störfum og væri að leita sér lækningar.“

Konan greinir frá því að kennarinn hafi að sjálfsögðu uppskorið mikla samúð og ónægja var með það innan skólans að maðurinn hefði sagt upp störfum, nær hefði verið að hann færi í veikindaleyfi.

„Þetta mátti maður hlusta á á kennarastofunni, vitandi hver hin raunverulega ástæða var. Þar sem maðurinn var ekki kærður taldi skólastjórinn að sér og okkur væri óheimilt að svo mikið sem gefa það í skyn hver raunveruleg ástæða fyrir uppsögninni væri. Þetta þýðir að maðurinn er með „óflekkað mannorð“ og hefur síðan starfað sem framhaldsskólakennari við fleiri en einn skóla. Enn þann dag í dag verður mér illt við tilhugsunina um þennan mann við kennslu unglinga.“      

Í yfirlýsingu kvennanna segir að þrátt fyrir að konur séu í meirihluta í skólum og öðrum menntastofnunum hafi þær þar ekki farið varhluta af þeirri mismunun sem viðgengst víða í skólasamfélaginu. „Káf, ofbeldi, áreitni, yfirgangur, hunsun, meiðandi athugasemdir og smættun á vinnuframlagi kvenna - allt þetta og meira til er hluti af reynslu kvenna í menntageiranum.“

Þar segir að konur hafi starfað við þessar aðstæður áratugum saman, margar hristi þetta af sér, aðrar séu snillingar í hnyttnum tilsvörum, sumar nái að snúa sig úr aðstæðunum, nokkrar tilkynni áreitnina en fjöldinn allur af konum segi ekkert. Sumar lýsi þeirri tilfinningu að vera orðnar „samdauna vandamálinu‟, aðrar hafa hægt um sig af ótta við viðbrögð og afleiðingar fyrir þær sjálfar.           

„Við eigum hvorki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur. Við eigum rétt á því að sinna okkar fagi og vinna okkar vinnu án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Við förum fram á að öll sem starfa að menntamálum taki höndum saman og uppræti sem fyrst og með öllum ráðum hvers konar kynbundna mismunun innan skólasamfélagsins,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert