Kvennaathvarfið hlaut viðurkenningu Barnaheilla

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfisns, tók við viðurkenningu Barnaheilla frá Kolbrúnu …
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfisns, tók við viðurkenningu Barnaheilla frá Kolbrúnu Baldursdóttur, formanni Barnaheilla.

Kvennaathvarfið hlaut í dag viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2017 fyrir að beina sjónum sínum í auknum mæli að þörfum og réttindum barna sem í athvarfinu búa hverju sinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Barnaheillum.

Þar kemur fram að engum geti dulist það gríðarlega mikilvæga starf sem Kvennaathvarfið hafi frá opnun þess, árið 1982, unnið til verndar konum og börnum sem neyðst hafa til að flýja heimili sín vegna ofbeldis.

Konur og börn þeirra geta dvalist í athvarfinu þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis af hálfu maka eða annarra heimilismanna.

Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert