„Staðan er brothætt“

Hægt er að vinna með markvissari hætti úr rannsóknum á …
Hægt er að vinna með markvissari hætti úr rannsóknum á læsi grunnskólabarna til batnaðar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér finnst við ekki standa illa. Við stöndum þokkalega en staðan er brothætt. Við verðum að halda áfram að gera betur. Mér finnst aðalatriðið snúast um hvað gerist á mið- og unglingastigi eftir að börnin eru orðin læs sem kallað er og að við útskrifum einstaklinga sem eru tilbúnir að takast á við verkefni framtíðarinnar,“ segir Guðmundur Björn Kristmundsson, fyrrverandi dósent Háskóla Íslands á menntavísindasviði, í erindi sínu sem nefnist: Hvar stöndum við? Hvert ætlum við? á ráðstefnunni Lestur er lykill að ævintýrum. Guðmundur hefur unnið að allmörgum rannsóknum á lestri og læsi bæði hér á landi og erlendis.     

Guðmundur bendir á að umræðan í samfélaginu um læsi undanfarið hafi einkennst af röngum fullyrðingum. Hann nefnir sem dæmi að í nýafstaðinni kosningabaráttu hafi því verið haldið fram að þriðjungur drengja sé ill- eða jafnvel ólæs. Það er fulldjúpt í árinni tekið, að sögn Guðmundar.

Lestur ekki það sama og læsi

Lestur er ekki það sama og læsi, áréttar Guðmundur og vísar til þess að læsi nær yfir allt í senn, lestur, ritun og lesskilning. Við lestrarkennslu eru misjafnar aðferðir notaðar, til dæmis hljóðaaðferðin og byrjendalæsi. Spurður hvaða aðferð henti best vill hann ekki nefna eina aðferð sem hina einu réttu.  

„Við verðum að gæta þess að einblína ekki á eina aðferð. Mér finnst ekki gott þegar það er gert. Læsi er flókið fyrirbæri og margir þættir spila inn í og því er nauðsynlegt að menn kunni til verka. Það er vont þegar þetta er gert að þrætuepli,“ segir Guðmundur. Hann segir að undanfarið hafi verið lögð of mikil áhersla á aðferðir við lestrarkennslu. „Stundum virðist litlu skipta hvaða aðferðum er beitt ef til að mynda áhuginn er ekki fyrir hendi hjá börnum. Það þarf að vinna með áhugann hjá börnum og vinna markvisst að því að gera börn og unglinga að lestrarhestum í víðasta skilningi þess orðs,“ segir Guðmundur. Í því samhengi tekur hann fram að í einni af fjölmörgum heimsóknum sínum í kennslu í grunnskóla landsins hafi hann orðið vitni að frábærri kennslu þar sem kennarinn beitti tiltölulega markvisst ákveðnum leiðum en ekki einni.

„Það má segja að ég sé hálfgerður skröltormur í þessu,“ segir Guðmundur og vísar til þess að hann forðist að hampa einni kennsluaðferð umfram aðra. Nám til læsi virðist fara fram með ólíkum hætti mili einstaklinga. Sjálfur hafi hann alla tíð forðast að setja tiltekna kennsluaðferð á stall sem „bestu aðferð“.  

Verðum að vinna betur úr rannsóknum

Guðmundur segir að við búum yfir mikilli þekkingu um læsi hins vegar er sá galli að við miðlum þeirri þekkingu ekki nægilega vel áfram. „Við rannsökum ýmislegt en þurfum að vinna markvissara úr rannsóknum svo þær nýtist betur,“ segir Guðmundur. Margar rannsóknir á læsi eru ekki nýttar til hins ýtrasta og vísar hann sem dæmi til PISA-rannsókna. Þetta stafar ekki af viljaleysi heldur vantar bæði fólk og fé í frekari úrvinnslu á þessum gögnum. Þar af leiðandi er hætta á að við missum af tækifæri til að draga upp heildarmynd af stöðunni sem er dýrmætt, að sögn Guðmundar.

Ný rannsókn sem birtist á næstunni á viðhorfi foreldra til náms barna sinna sýnir að foreldrar telja sig bera mikla ábyrgð á námi barna sinna. Hins vegar skortir ráðleggingar og leiðbeiningar til þeirra um hvað þeir geta gert betur, að sögn Guðmundar. Þrátt fyrir að ýmislegt megi bæta þá er hann ekki svartsýnn á stöðuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert