ORA verðlaunað í París

Humarsúpan frá ORA.
Humarsúpan frá ORA. Ljósmynd/ORA

ORA hlaut í fyrradag verðlaun í París fyrir forrétti á sýningu sem heitir Wabel, undir útflutningsvörumerki fyrirtækisins, Iceland's Finest. Þetta er framleiðsla sem ORA hefur hafið á vörum sínum til útflutnings.

Dómnefnd á vegum sýningarinnar veitti vöruhugmyndinni verðlaun á sýningunni fyrir fallegustu og bestu umbúðirnar og hugmyndina 2017.

Boðið var upp á vörunar með drykk í lok dags í gær. Allt kláraðist og þeir sem smökkuðu veitingarnar létu vel af þeim, að sögn Jóhannesar Egilssonar, sem stýrir útflutningi ORA. Hann tók á móti viðurkenningunni. „Við erum hérna á vörusýningunni Wabel í París, þar sem um 600 matvælaframleiðendur hvaðanæva úr heiminum koma til að kynna sig fyrir stærstu verslunarkeðjum heims. Við vorum að kynna hér í fyrsta sinn vöruhugmynd sem við höfum verið að vinna að síðastliðin misseri undir vörumerkinu Iceland's Finest. Vöruhugmyndin gengur út á að gera sjávarrétti einfalda og skemmtilega,“ segir hann við Morgunblaðið.

Jóhannes Egilsson, sem stýrir útflutningi ORA, með verðlaunin.
Jóhannes Egilsson, sem stýrir útflutningi ORA, með verðlaunin. Ljósmynd/ORA

ORA framleiðir vörurnar, en hugmyndin með henni er sú að hjálpa nýrri kynslóð að átta sig á hvernig á að nota, útbúa og njóta hágæða sjávarrétta með einföldum hætti, svo að þeir líti vel út og smakkist vel.

„Við settumst niður með fremstu matreiðslumönnum landsins og fórum saman yfir það sem við erum að framleiða og þeir hjálpuðu okkur að þróa vörurnar, en síðan vildum við gera áhugaverða vöruhugmynd í kringum þetta. Við beinum sjónum okkar að sjávarréttum aðallega. Þetta er þægilegt, tekur stuttan tíma, er hollt og ferskt, smakkast vel og lítur vel út. Við erum að reyna að hjálpa yngri kynslóðinni sem hefur ekki endilega þekkingu á því hvernig á að nota vörurnar okkar. Hugmyndin er að fólk sé kannski á leið heim frá vinnu á föstudegi eftir vinnu en er að fara að fá vini sína í heimsókn. Þá geti þau bara gripið þetta með og sett saman fínasta mat á u.þ.b. tíu mínútum, þannig að hann líti út eins og fær kokkur hafi útbúið hann. Þannig geti fólk verið að bjóða upp á eitthvað einstakt og frá Íslandi,“ segir Jóhannes.

Fyrirtækið hafi vandað sig sérstaklega við markaðsvinnu og vörumerkjauppbyggingu, útlit og umbúðir.

Uppruni og vandað hráefni

„Iceland's Finest er vörumerkið sem við ætlum að byggja okkar útflutning á og þær vörur sem við erum að selja erlendis. Það vísar í upprunann og endurspeglar að við ætlum að vinna með besta fáanlega hráefni, sem eru íslenskar sjávarafurðir. Þarna erum við að kynna þessa vöruhugmynd í fyrsta sinn og erum að koma þessu af stað. Við erum í sambandi við margar stórar verslunarkeðjur í Bandaríkjunum og Evrópu og hefur stór keðja þegar sýnt okkur áhuga – þó ég geti ekki nefnt nein nöfn á þessu stigi, en varan er miðuð við sölu í verslunum, a.m.k. til að byrja með,“ segir Jóhannes.

Fæst nú þegar í Fríhöfninni

ORA byrjaði að selja Iceland's Finest-vörurnar í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli í sumar og hefur það reynst ágætlega. Til stendur að framleiða þetta allt heima á Íslandi þannig að virðisaukinn verði til þar. Varan er m.a. humarsúpa, grásleppukavíar og loðnuhrogn, laxa- og þorskmús, síld, þorsklifur og rúgbrauðskex, sem Myllan bakar fyrir Iceland's Finest.

Vöruhugmyndin gengur út á vandaða, fallega og bragðgóða sjávarforrétti fyrir fjóra sem fólk getur keypt í fallegum umbúðum og sett saman á fáeinum mínútum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert