Gera ráð fyrir 824 m.kr. rekstrarafgangi

Kópavogbær gerir ekki ráð fyrir að taka lán fyrir framkvæmdum …
Kópavogbær gerir ekki ráð fyrir að taka lán fyrir framkvæmdum bæjarins þriðja árið í röð. mbl.is/Hjörtur

Ríflegur rekstrarafgangur, niðurgreiðsla skulda og áhersla á mennta- og lýðheilsumál er meðal þess sem fram kemur í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir næsta ár. Áætlunin hefur verið lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs.

Segir í fréttatilkynningu frá bænum að líkt og undanfarin ár standi ekki til að taka lán fyrir framkvæmdum bæjarins og þriðja árið í röð sé fjárhagsáætlunin unnin í samstarfi allra flokka.

Gert er ráð fyrir 824 milljóna króna rekstrarafgangi af rekstri bæjarins á næsta ári. Skuldahlutfall heldur áfram að lækka og á að vera orðið 127% í árslok samkvæmt áætluninni. Gangi það eftir hefur skuldahlutfallið lækkað úr 175% frá árinu 2014. Gert er ráð fyrir að lækkun skulda verði vel á þriðja milljarð.

„Við erum komin á þann stað að við getum framkvæmt af krafti um leið og við eflum grunnþjónustuna, greiðum niður skuldir og lækkum skatta. Þetta hefur tekist með góðu aðhaldi og metnaði á kjörtímabilinu. Kópavogsbær hefur allt til að bera til að vera með einn hagkvæmasta rekstur allra sveitarfélaga landsins,“ er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, í fréttatilkynningunni. 

Áætlunin er þá sögð endurspegla áherslu bæjarins á velferð íbúa. Þannig verði félagslegum íbúðum fjölgað og barnaverndin styrkt. Málefni aldraðra verði sömuleiðis í forgangi, gjald fyrir heimsendan mat til aldraðra lækkað og álagningarhlutfall fasteignagjalda einnig, bæði á íbúðir og atvinnuhúsnæði. 

Einnig verði unnið að verkefnum sem tengjast lýðheilsu í bænum í samræmi við nýsamþykkta lýðheilsustefnu og hefur verið ráðinn lýðheilsufræðingur til starfa hjá bænum til að fylgja aðgerðaáætlun stefnunnar eftir.  

Þá er gert ráð fyrir að námsögn verði án endurgjalds á næsta ári. Auk þess sem á næsta ári hefst bygging húsnæðis fyrir Skólahljómasveit Kópavogs, framkvæmdum við íþrótta- og fimleikahús við Vatnsendaskóla lýkur og stefnt er að því að hefja framkvæmd við nýjan skóla á Kársnesi.

Skóla- og leikskólalóðir verða þá endurnýjaðar í samræmi við verkefnið skemmtilegri leikskóla- og skólalóðir. Eins verður unnið að endurnýjun gervigrasvalla og þjónustuaðstaða sundlauganna endurnýjuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert