Rannsaka áhrif höfuðhöggs á íþróttakonur

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir læknir.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir læknir. Ljósmynd/Aðsend

Nú er að hefjast yfirgripsmikil rannsókn á áhrifum heilahristings og höfuðhögga á sálfræðilega þætti og starfsemi heiladinguls í íslenskum íþróttakonum. Þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér á landi á íþróttamönnum. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, prófessor og sérfræðingur í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum, Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík, og María Kristín Jónsdóttir, sálfræðingur og dósent við HR, standa fyrir rannsókninni.

Helga hefur gert framsýna rannsókn á áhrifum höfuðhöggs á heiladingul á sjúklingum Landspítalans sem hefur vakið athygli erlendis og niðurstöður hennar eru væntanlegar í læknatímaritinu The Brain.

Er í lagi að börn skalli bolta?

„Áhrif höfuðhöggs í íþróttum á heiladingul hefur lítið verið rannsakað. Við vitum að varanleg heiladingulsbilun getur orðið hjá allt að 11-67% þeirra sem fá höfuðhögg skv. nýlegum rannsóknum. Það hlýtur að vera sama hlutfall hjá þeim sem fá höfuðhögg í íþróttum en þetta vitum við ekki með vissu og ætlum að skoða,“ segir Helga. Hún bendir á að það sé mikilvægt að rannsaka t.d. hvort það sé í lagi eða ekki að börn sem eru að vaxa skalli bolta af fullum þunga og hvaða áhrif mörg höfuðhögg geta haft.

Liðin Fram og ÍBV eigast við í handbolta kvenna.
Liðin Fram og ÍBV eigast við í handbolta kvenna. mbl.is/Árni Sæberg

Þekking og rannsóknir á áhrifum höfuðhöggs á heiladingul hefur vaxið upp úr síðustu aldamótum. Enn sem komið er eru ekki komnar alþjóðlegar ráðleggingar um eftirfylgni fyrir fólk sem hefur orðið fyrir höfuðhöggi. Mörgum spurningum er enn ósvarað til dæmis hversu alvarlegt og hvers eðlis þau þurfa að vera svo einstaklingur þurfi eftirfylgni og einnig skiptir máli að finna út hvað þarf að meta til að finna út hver fær heiladingulsbilun og hver ekki.

Helga segir brýnt að slíkar ráðleggingar og eftirfylgni verði gefnar út og til að unnt sé að gera slíkt verði fyrst að rannsaka þetta vel. Hún bindur vonir við að þessi rannsókn muni stuðla að því að slíkt verði gerði gert í kjölfarið. „Við viljum líka vekja athygli á þessu með öryggi íþróttamanna í fyrirrúmi en höfuðhögg gæti haft áhrif á allt líf þeirra,“ segir Helga.

Knattspyrna kvenna.
Knattspyrna kvenna. mbl.is/Eggert

Höfuðverkur, magnleysi og framtaksleysi

Í úrtaki rannsóknarinnar verða að minnsta kosti 50 íþróttakonur á aldrinum 30-45 ára úr handknattleik og knattspyrnu sem hafa fengið höfuðhögg. Mögulega verða einnig íþróttamenn í úrtakinu. Í rannsókninni verða skoðaðir sálfræðilegir og taugasálfræðilegir þættir og lögð fyrir sálfræðipróf þar sem spurningalistinn er víður, til dæmis verður spurt um áhrif höfuðhöggs á líðan þeirra og reynt að meta snerpu og viðbragðsflýti. Í þriðja hlutanum verða konur valdar úr og þeim boðið til rannsóknar á mögulegum hormónaskaða vegna heiladingulsbilunar eftir höfuðhögg.

Við höfuðhögg og heilahristing getur einstaklingur setið uppi með höfuðverk, magnleysi, þrotleysi, framtaksleysi o.fl. Helga bendir á að það sé ekki gott að fá höfuðhögg hvað þá að fá fleiri skömmu seinna.

„Það getur verið erfitt að greina á milli skaða á heilafrumum eða hvort um eiginlegan hormónaskort sé að ræða líka. Það verður ekki greint nema með því að skoða það og taka hormónamælingar. Það er ekki hægt að greina slíkt með viðtölum eða líkamsskoðunum,“ segir Helga og bætir við: „Við teljum að við séum að gera rannsókn sem hafi aldrei verið gerð áður á þessu á þennan mælikvarða.“ 

Verkefnið hefur hlotið veglegan styrk úr Vísindasjóði Landspítalans en verkefnið þarf fleiri styrki, að sögn Helgu og er nú unnið að því að fjölga styrkumsóknum.  

Er óhætt að ung börn skalli bolta af fullum krafti?
Er óhætt að ung börn skalli bolta af fullum krafti?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert