Taupokarnir með tvöfalt hlutverk

Má ekki einhver missa vél sem er geymd í bílskúrnum?
Má ekki einhver missa vél sem er geymd í bílskúrnum? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhuginn skein úr hverju andliti þegar Morgunblaðið heimsótti á mánudaginn hóp kvenna úr hópi flóttafólks og hælisleitenda sem vikulega mæta í aðstöðu Hjálpræðishersins í Mjóddinni í Reykjavík.

Nýlega settu Herinn og Hjálparstarf kirkjunnar af stað verkefni þar sem viðfang fólksins er að sauma innkaupa- og ávaxtapoka úr taui. Vaxandi áhugi er á að bjóða upp á slíka í verslunum í stað plastpoka, enda er margsagt hve mikil og skaðleg umhverfisáhrif þeir hafa og raunar plast almennt. Því má segja að taupokarnir góðu hafi nú tvöfalt hlutverk; félagslegt og sem umhverfisbætur.

Þúsund stykki í Nettó

„Meginmálið er að gefa konunum tækfæri á að komast út …
„Meginmálið er að gefa konunum tækfæri á að komast út á meðal fólks,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar. nbl.is/Eggert Jóhannesson


Um það bil mánuður er síðan taupokasaumurinn hófst. Í fyrsta skipið mættu þrjár konur, sjö í það næsta, þá ellefu og nú á mánudaginn voru þær fimmtán. Húsnæði Hjálpræðishersins dugar enn, en fjölgi saumakonunum áfram er sá möguleiki fyrir hendi að fá inni í félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar sem er ekki langt undan.

„Þetta hófst allt þannig að við hjá Hjálparstarfi kirkjunnar fengum gefins efnisstranga frá Epal. Þarna sáum við strax að úr þessu mætti gera eitthvað skemmtilegt og það blasti við að útbúa taupoka. Nýlega komumst við í samstarf við Nettó, en forsvarsmenn verslunarinnar ætla að taka hjá okkur alls þúsund innkaupapoka og til viðbótar minni poka fyrir ávexti og grænmeti,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, sem er í forsvari þessa verkefnis.

Frá Marokkó og Makedóníu

Handtök eru mörg og allt byrjar á að sníða efnið. …
Handtök eru mörg og allt byrjar á að sníða efnið. Þar byggja konurnar á ráðum og reynslu hverrar annarrar. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Saumakonurnar í Mjódd eru frá Marokkó, Palestínu, Írak, Sýrlandi og Makedóníu. Nokkrar þeirra hafa verið hér á landi í meira en áratug og hafa verið virkir þátttakendur í samfélaginu enda þótt þær séu ekki á vinnumarkaði sem stendur. Að mæta í saumaskapinn er því tækifæri þeirra til þess að komast út á meðal fólks. Konurnar frá Makedóníu verða þó væntanlega aðeins á Íslandi um skemmri tíma og verða bráðlega aftur sendar til síns heimalands, sem telst öruggt ríki. Væri það hins vegar hættulegt og stríðshrjáð væri líklegra að þær mættu dveljast hér til lengri tíma.

„Sumar kvennanna sem hingað hafa mætt hafa nýtt sér þá þjónustu fyrir hælisleitendur og flóttafólk sem við bjóðum. Við höfum sagt konunum frá starfinu hér á mánudagsmorgnum og þær síðan greint vinkonum sínum frá og þannig rúllar boltinn. Meginmálið er að gefa konunum tækfæri á að komast út á meðal fólks, enda búa þær oft við ákveðna einangrun. Síðan er auðvitað stór plús að hér vinnum við að frábæru samfélagsverkefni sem að auki þjálfar konurnar í handavinnu, sem er auðvitað mjög hagnýtur lærdómur, “ segir Vilborg og bætir við að reynt sé að blanda ýmsu við þetta starf, svo sem íslenskukennslu.

Sníða, klippa og sauma

Handtök eru mörg og allt byrjar á að sníða efnið.
Handtök eru mörg og allt byrjar á að sníða efnið. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Saumaskapur er vissulega nokkur kúnst og byrjendur þurfa margt að læra.

„Konurnar eru hér að sníða, klippa og sauma. Þetta krefst mikillar þolinmæði og stundum þarf að rekja saumana upp og byrja alveg upp á nýtt. Það er því oft líflegt hér í saumaherberginu þar sem við erum með alls sex saumavélar. Okkur vantar hins vegar að minnsta kosti fjórar vélar í viðbót svo ef það er einhver sem lumar á slíkum sem ekki eru notaðar tökum við afar þakklát við þeim,“ segir Vilborg Oddsdóttir að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert