„Og þá ætla ég að heita Gylfi“

Benjamín Orri og Gylfi með treyju hins síðarnefnda.
Benjamín Orri og Gylfi með treyju hins síðarnefnda. Ljósmynd/Brynjar Jóhannesson

Benjamín Orri Hulduson, fimm ára, var í hópi þeirra tæplega 10.000 áhorfenda sem voru á leik Íslands og Kósóvó í knattspyrnu karla á Laugardalsvelli í fyrradag þar sem Ísland tryggði sér farmiða á HM í Rússlandi á næsta ári.

Eftir leikinn hitti Benjamín Gylfa Þór Sigurðsson, landsliðsmann og leikmann Everton. Þeir tóku tal saman, vel fór á með þeim og í kveðjugjöf þáði Benjamín áritaða treyju Gylfa.

„Þegar ég passa í hana ætla ég að nota hana. Og þá ætla ég að heita Gylfi,“ segir Benjamín, en treyjan er nokkuð við vöxt og mun líklega að mestu nýtast honum til skrauts og til minningar um þennan afdrifaríka knattspyrnuleik, a.m.k. næstu árin. „Ég spurði hann af hverju hann hefði farið í Everton. Það var af því að búningurinn þar er blár eins og íslenski búningurinn.“

Benjamín Orri sýnir boltafimi sína.
Benjamín Orri sýnir boltafimi sína. mbl.is/RAX

Benjamín var iðinn við að sækja heimaleiki íslenska liðsins í undankeppni HM og eftir að hafa fengið það staðfest hjá Huldu Björk Brynjarsdóttur, móður sinni, segist hann hafa farið á hvern einasta leik undanfarið ár. Því kemur ekki á óvart að hann hafi séð úrslitin fyrir, en hann hafði spáð 2:0 sigri Íslands.

Þorir ekki til Rússlands

Benjamín æfir fótbolta bæði með 7. og 8. flokki Fram. Spurður hvers vegna hann æfi með tveimur flokkum er svarið: „Ég er svo góður. Ég hef æft síðan ég var þriggja ára. Svo bjó guð mig bara svona til, hann gerði mig góðan í fótbolta.“

Benjamín segist stefna á atvinnumennsku í knattspyrnu, en ætlar ekki að setjast að erlendis eins og títt er meðal íslenskra atvinnumanna. „Ég ætla að vera á Íslandi,“ segir hann. Inntur eftir því hvað einkenni góða knattspyrnumenn er hann með skýringar á reiðum höndum „Þeir mæta á allar æfingar. Maður þarf líka að borða hollan mat,“ segir Benjamín og segist vera hættur að drekka sykraða drykki í þessu skyni.

Ætlarðu á HM í Rússlandi næsta sumar? „Nei, ég þori það ekki. Ég er hræddur við að fara í flugvél.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert