Ætlar að borga flugnám með blaðburðarlaunum

Ragna Kristbjörg Rúnarsdóttir og Bjarki Þór Sigurðarson bera út Morgunblaðið …
Ragna Kristbjörg Rúnarsdóttir og Bjarki Þór Sigurðarson bera út Morgunblaðið í nokkrum götum í Tangahverfinu í Mosfellsbænum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bjarki Þór Sigurðarson er ungur maður stórra drauma sem er nýbyrjaður í flugnámi. Það kostar skildinginn sinn en blaðburðurinn hefur bjargað málum. Bjarki og Ragna Kristbjörg Rúnarsdóttir móðir hans hafa frá 2014 saman borið Morgunblaðið í hús við Bolla-, Leiru- og Skeljatanga í Mosfellsbæ og safnast þegar saman kemur.

„Við mæðginin settumst niður og hringdum í Moggann og fengum uppgefið hver mánaðarlaunin yrðu um það bil í einu hverfi sem var laust. Okkur reiknaðist til að það tæki okkur um þrjú ár að vinna fyrir einkaflugmannsnáminu, sem þá var rétt rúm 1,3 milljónir króna. Við ákváðum að slá til og taka starfið,“ sagði Rúna í samtali við Morgunblaðið.

Bjarki segir það hafa verið ánægjulegt að sjá upphæðina inni bankabókinni hækka um hver mánaðamót og það hafi í raun eflt sig. „Nú í sumar voru komin þrjú ár í starfinu og við komin með upphæðina. Þá hafði upphæðin sem námið kostar reyndar hækkað um 200 þúsund krónur frá því ég kannað málið fyrst. Því var ekkert annað í boði en að halda blaðburðinum áfram og ná inn þessum tvö hundruð þúsund krónum sem þurfti í viðbót, segir Bjarki. Hann er á náttúrufræðibraut Framhaldsskólans í Mosfellsbæ og nú í vikulokin byrjar hann á bóklegu flugnámskeiði.

Verklegi hlutinn, það er 45 flugtímar í loftunum bláu, byrjar svo í vor og að honum loknum fær Bjarki einkaflugmannsprófið gangi allt að óskum. Samanlagt kostar þetta allt um 1,5 milljónir króna – og í það fara blaðburðarpeningarnir.

Skarpari sýn og ábyrgðartilfinning

„Ég sem móðir er ekki í vafa um að krakkar hafa gott af því að setja sér markmið og vinna að þeim, annaðhvort sjálf eða í samvinnu við foreldra sína. Hjá okkur Bjarka er skiptingin sú að við berum blaðið út sinn daginn hvort – og förum saman þegar blaðinu er dreift í hvert hús. Þetta er hressandi göngutúr í morgunsárið; lagt af stað klukkan sex, komið heim um klukkan sjö og svo er það vinna eða skóli klukkustund síðar, segir Ragna – sem finnst þetta starf hafa gefið syni sínum skarpari sýn á markmið sín í leik og starfi – auk þess sem ábyrgðartilfinning hans hafi alveg klárlega eflst.

„Þetta hefur mikið uppeldislegt gildi svo ég tali nú ekki um ánægjuna sem skapast þegar barn og foreldri vinna saman að markmiðinu. Þetta eru í raun og veru algjörar gæðastundir. Ein og hálf milljón króna eru sannarlega peningur sem maður hirðir ekki upp úr götunni en er hægt að eignast með því að fara klukkustund fyrr en ella á fætur á morgnana. Blaðburðurinn er heldur ekki mikil fyrirhöfn þegar allt kemur til alls, fyrir svo utan að útiveran og göngutúrinn eru eiginlega bónus. Vinir Bjarka Þórs fóru að bera út blöð þegar þeir fréttu af okkur – það er að launin væru ágæt og fyrirhöfnin í starfinu væri lítil. Þetta er í raun alveg tilvalið starf fyrir krakka og foreldra þeirra – og alltaf vantar blaðbera til starfa hefur mér skilist,“ segir Ragna um þetta skemmtilega samstarf þeirra Bjarka Þórs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert