Íslandsbanki eykur stuðning sinn við Reykjavíkurmaraþon

Keppendur í 10 kílómetra hlaupi voru hressir í bragði við …
Keppendur í 10 kílómetra hlaupi voru hressir í bragði við upphaf Reykjavíkurmaraþonsins í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsbanki hefur ákveðið að auka stuðning sinn við Reykjavíkurmaraþon og leggur áheitasöfnuninni enn frekari lið. Bankinn mun greiða allan kostnað sem fellur til við söfnunina svo sem þróun og viðhald á tölvukerfi vegna heimasíðunnar og færslugjöld vegna áheita.

Í fréttatilkynningu segir að Íslandsbanki hafi engar tekjur af söfnuninni, hvorki beinar né óbeinar. Íslandsbanki hefur stutt við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka síðastliðin 20 ár. Bankinn stofnaði söfnunarsíðuna Hlaupastyrkur.is fyrir tíu árum og hafa safnast í gegnum vefinn hundruð milljóna króna. Meira en 100 góðgerðarfélög skrá sig til þátttöku árlega í söfnuninni og er þetta stærsta söfnun margra þeirra á hverju ári. 

Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur umsjón með hlaupinu og hafa 5% af áheitum farið í kostnað. Núna munu áheitin hinsvegar renna óskert til góðgerðarfélaga, segir í tilkynningunni.

Auk þess að vera styrktaraðili hlaupsins hefur Íslandsbanki einnig heitið á alla starfsmenn sína og tóku rúmlega 300 starfsmenn þátt í ár. „Bankinn er stoltur af þessum glæsilega viðburði sem er hluti af samfélagsstefnu bankans og vonast til að aukið framlag efli viðburðinn enn frekar,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert