Skátar skila yfir 2 milljörðum í gjaldeyristekjur

Það eru skátar í hverjum krók og kima í Laugardalshöll …
Það eru skátar í hverjum krók og kima í Laugardalshöll þessa stundina. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú erum við, Bandalag íslenskra skáta, að opna einn umfangsmesta viðburð sem hefur verið haldinn á Íslandi,“ segir Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot 2017, sem sett verður í Laugardalshöll í dag.

Um 5.200 manns frá um 100 löndum taka þátt í mótinu með einum eða öðrum hætti, þar af 4.700 þátttakendur á aldrinum 18-25 auk fjölda sjálfboðaliða 26 ára og eldri. Áætlað er að gjaldeyristekjur af mótinu verði á bilinu 2-2,5 milljarðar króna auk þess sem skátarnir munu inna af hendi yfir 20 þúsund vinnustundir í sjálfboðavinnu.

„Velta mótsins er í kringum 500-600 milljónir samkvæmt síðustu tölum en við höfum reiknað það upp að heildar efnahagslegur ávinningur íslensks samfélags er á milli 2-2,5 milljarðar,“ segir Hrönn í samtali við mbl.is. Er í þeirri tölu gert ráð fyrir þeim ferðum sem þátttakendur fara í á eigin vegum auk annars útlagðs kostnaðar en að meðaltali dvelja þátttakendur á landinu í um 3 vikur. Mótið sjálft stendur yfir í 9 daga.

Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot, og Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri …
Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot, og Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, kynntu mótið fyrir fjölmiðlafólki í Laugardalshöll í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„En það er ekki nóg vegna þess að hver einasti þátttakandi, 4.000 manns, vinnur sjálfboðavinnu, einhvers konar samfélagsverkefni í fjórar til sex stundir, og allt í allt erum við þá með yfir 20 þúsund vinnustundir í slíkri sjálfboðavinnu,“ segir Hrönn. Sú sjálfboðavinna mun eiga sér stað á þeim 11 stöðum um landið þar sem mótið fer fram en það eru sveitarfélög á hverjum stað sem leggja skátunum til verkefni.

„Þannig að við leggjum til mannafla með þekkingu en samfélögin ákveða og forgangsraða í hverju við erum að fara að vinna,“ útskýrir Hrönn. Verkefnin fela meðal annars í sér göngustígagerð, hreinsun stranda og leiki fyrir börn.

Undirbúningur alþjóðlega skátamótsins World Scout Moot er nú á lokametrunum …
Undirbúningur alþjóðlega skátamótsins World Scout Moot er nú á lokametrunum en mótið verður sett í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá hefur átt sér stað talsverð innviðauppbygging á Úlfljótsvatni svo unnt sé að taka á móti öllum fjöldanum, sturtu- og salernisaðstaða hefur verið bætt, opnaðir veitingastaðir, sjúkraþjónusta og sitt hvað fleira sem margt mun nýtast áfram á svæðinu að móti loknu.

„Það er mikil þekking og reynsla sem við erum að koma með heim og þetta byggir upp okkar aldursbil, 18-26 ára, sem við viljum styrkja enn frekar. Þannig að við erum komin með góðan starfsgrunn til að byggja á í áframhaldandi starfi,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags Íslenskra skáta, spurður hvaða þýðingu mótið hefur fyrir skátahreyfinguna á Íslandi.

Skátar smyrja nokkur þúsund samlokur fyrir viðburðinn í dag.
Skátar smyrja nokkur þúsund samlokur fyrir viðburðinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta býr til samheldni meðal sjálfboðaliðanna okkar sem hafa starfað með okkur undanfarin ár og byggir undir það að þeir verði ábyrgir, sjálfstæðir og virkir samfélagsþegnar sem er okkar meginmarkmið í skátahreyfingunni,“ segir Hermann enn fremur.

Stærsta skátamótið til þessa

Mótið fer fram víðs vegar um landið en að lokinni setningarathöfn í dag dreifist hópurinn milli Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Selfoss, Hveragerðis, Akraness, Akureyrar, Heimalands, Hólaskjóls, Skaftafells og Þingvalla. Þá kemur hópurinn aftur allur saman á Úlfljótsvatni á laugardag en mótinu lýkur formlega 2. ágúst.

Dagskrá mótsins byggir á þremur þemum sem lögð verður áhersla á, þ.e. ævintýrum og útivist, menningu og loks umhverfi og náttúru og er nokkuð staðbundið hver áherslan er hverju sinni en alls eru um 170 dagskrárliðir í boði á mótinu. Mótið hefur verið haldið á fjögurra ára fresti um nokkuð skeið en þetta er í fyrsta sinn sem það fer fram á Íslandi. Aldrei áður hefur mótið verið jafnstórt og nú. 

Alls taka 5.142 skátar frá um 100 löndum þátt í …
Alls taka 5.142 skátar frá um 100 löndum þátt í mótinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Sjálfboðaliðar pakka mat í kassa sem sendur verður með þátttakendum …
Sjálfboðaliðar pakka mat í kassa sem sendur verður með þátttakendum víða um landið næstu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon
Sjálfboðaliðar eru nú í óða önn við undirbúning í Laugardalshöll …
Sjálfboðaliðar eru nú í óða önn við undirbúning í Laugardalshöll þar sem meðal annars er verið að pakka og undirbúa mat fyrir yfir 4.000 þátttakendur skátamótsins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert