„Jafnar sig enginn á svona strax“

Frá brunanum.
Frá brunanum. Ljósmynd/Pétur Snæbjörnsson

„Það jafnar sig enginn á svona einn, tveir og þrír,“ segir Pétur Snæbjörnsson, hótelstjóri Hótels Reynihliðar á Mývatni, en bruni kom upp í starfsmannahúsi hótelsins í síðustu viku. Nágranni varð eldsins var og varaði starfsmennina við sem voru allir í fastasvefni. 

Sjö bjuggu í húsinu. Sex þeirra voru starfsmenn hótelsins en einn starfsmaður annars staðar frá að sögn Péturs. Búið er að koma þeim öllum fyrir tímabundið í öðru húsnæði, einhverjir gista á hótelinu og aðrir fengu inni á heimilum fólks í nágrenninu. „Menn voru lausnamiðaðir í því að leysa þetta,“ segir Pétur.

Hann segir starfsmannahúsið óíbúðarhæft eins og staðan sé núna. Eldsupptök eru enn ókunn en beðið er eftir skýrslu frá slökkviliðinu. Pétur er farið að lengja eftir skýrslunni þar sem ekki sé hægt að hefjast handa við að hreinsa upp brunarústirnar fyrr en skýrslan er tilbúin. 

„Við bíðum eftir skýrslunni, það er hásumar og mikið um sumarleyfi. Nógu seinlegt er opinbera kerfið þótt það sé ekki í fríi líka,“ segir Pétur. Hann segir að hæglega hefði getað orðið stórbruni í húsinu, þurrt, heitt, vindasamt og mikið af plasti, tjöru og timbri í húsinu.

Fyrri fréttir mbl.is um málið:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert