Flestir hættir við en John Snorri ætlar á toppinn

John Snorri stefnir áfram ótrauður á toppinn þrátt fyrir að …
John Snorri stefnir áfram ótrauður á toppinn þrátt fyrir að flestir aðrir hafi hætt við. Lífsspor á K2/Facebook

John Snorri Sigurjónsson stefnir ótrauður áfram á topp fjallsins K2, þrátt fyrir að flestir aðrir séu hættir við. Útlit er fyrir að veður leyfi áframhaldandi för í fyrramálið. 

Snýst um að komast í fjórðu búðir

Fjallagarpurinn John Snorri dvelur nú í 7.400 metra hæð í hlíðum fjallsins K2 þar sem hann bíður færis að halda áfram för. „Hann er núna bara í tjaldi í þriðju búðum að bíða og láta sér leiðast,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Lífs styrktarfélags, í samtali við mbl.is.

Að sögn Hjördísar snýst förin nú aðallega um að koma sér upp í fjórðu búðir. „Það er í raun og veru erfiðari leiðangur en frá búðum fjögur og upp,“ segir Hjördís. John Snorri stefnir á að leggja af stað upp í fjórðu búðir í fyrramálið. Hvort af því verður veltur á veðrinu og Hjördís segir útlit fyrir að það verði ágætt á morgun. Frá fjórðu búðum liggur svo leiðin á topp fjallsins. 

Flestir aðrir hættir við

„Spáin fyrir fimmtudaginn er betri en hún er búin að vera,“ segir Hjördís. Að sögn hennar hafa flestir aðrir hópar, sem ætluðu að freista þess að klífa fjallið, hætt við. „Það er kannski af því að þeir voru ekki komnir jafn langt og myndu þar af leiðandi ekki ná þessum veðurglugga sem er í kortunum,“ segir Hjördís. 

Hópurinn ber meira á bakinu en ætlunin var vegna þess að ekki er vitað um ástand búnaðarins sem búið var að fara með upp áður. Fyrir nokkru féll snjóflóð yfir svæðið og vegna veðurs hefur ekki verið hægt að athuga stöðuna.

John Snorri í góðum gír í grunnbúðum á K2.
John Snorri í góðum gír í grunnbúðum á K2. Ljósmynd/Lífsspor á K2

Hægt er að fylgj­ast með John Snorra á vefsíðunni Lífs­spor en hann safn­ar áheit­um fyr­ir Líf styrkt­ar­fé­lag á leið sinni og all­ur ágóði renn­ur beint til fé­lags­ins. Á vefsíðunni er einnig hægt að sjá nákvæma staðsetningu John Snorra hverju sinni

Einnig er hægt að fylgjast með ferðum hans hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert