Starfsmönnum fækkað jafn og þétt

Hjá Ríkisútvarpinu eru 258 stöðugildi og eru í þeirri tölu þeir sem eru í fullu starfi og þeir sem eru í hlutastarfi. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, mennta- og menningarmálaráðherra, við skriflegri fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um verktakavinnu hjá stofnuninni.

Fram kemur að fjöldi stöðugilda hafi dregist saman jafnt og þétt á undanförnum árum en árið 2013 hafi fjöldinn verið 297 og árið 2008 324. „Kostnaður Ríkisútvarpsins vegna verktaka hefur verið mjög stöðugur undanfarin ár og er um 25% af heildarlaunakostnaði. Árstíðarsveiflur eru eðli málsins samkvæmt í fjölda og kostnaði við verktaka á hverju sviði. Verkefni þeirra verktaka sem vinna fyrir Ríkisútvarpið eru afar mismunandi, allt frá því að t.d. tónlistarmaður komi fram í eitt skipti í einum þætti eða til dagskrárgerðar í nokkra mánuði.

Þá séu ýmis tilfallandi eða tímabundin verkefni sem ekki koma að dagskrá unnin í verktöku. „Verktakar sem vinna fyrir Ríkisútvarpið samkvæmt þessari skilgreiningu skipta hundruðum á hverju ári. Miðað er við að verktakar vinni við verkefni sem ekki er hægt að skipuleggja í ráðningarhæft form, eins og t.d. fastar, fyrirfram skipulagðar vaktir eða dagvinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert