Mosaviðgerðir heppnuðust mjög vel

Myndin til vinstri sýnir hlíðina eftir viðgerðirnar á meðan myndin …
Myndin til vinstri sýnir hlíðina eftir viðgerðirnar á meðan myndin til hægri var tekin áður en hafist var handa við viðgerðir. Mynd/Magnea Magnúsdóttir

Viðgerðir á skemmdarverkum í mosanum í Litlu-Svínahlíð við Nesjavelli lauk núna í vikunni og lítur út fyrir að þær hafi tekist mjög vel. Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar, fór fyrir átta manna hópi sem fór til að laga skemmdirnar. Hún segir niðurstöðuna vera framar björtustu vonum.

„Þetta heppnaðist rosalega vel,“ segir hún og bætir við að lítið móti fyrir þeim stöfum sem mótaðir höfðu verið í mosann. Hópurinn tók mosa í kringum stafina og setti í sárin og segir Magnea að með þessari aðferð hafi stafirnir orðið ógreinilegri og öll ummerki fallið betur inn í náttúruna.

Þetta er í fyrsta skiptið sem þessi aðferð er notuð til að laga stærri skemmdarverk, en Magnea segist hafa prófað þessa aðferð og fleiri á skemmdarverk við Litlu kaffistofuna. Þessi hafi hins vegar komið best út og því ákveðið að nota hana.

Það tók hópinn tvo daga að laga skemmdirnar, en núna tekur við langur tími þar sem mosinn þarf að gróa saman, þrátt fyrir að ummerkin séu ekki eins greinileg og áður. Hefur komið fram að slíkt geti tekið mörg ár.

Mikil umræða spratt upp á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar í kjölfar þess að myndum af skemmdarverkunum var deilt á hópinn. Segir Magnea að framtakið hafi fengið mikla athygli og hafði Landgræðslan í kjölfarið samband við hana og er nú stefnt að því að halda mosaviðgerðanámskeið í haust. Segir hún að verkefni þess námskeiðs verði væntanlega að laga skemmdir sem séu í Vífilsfelli.

Magnea segir að einnig sé hún með í vinnslu viðgerðamyndband þar sem sýnt verði hvernig hægt sé að beita þessari aðferð, en hún telur að allir eigi að geta gert við mosaskemmdir ef þeir kynni sér málið fyrst.

Átta manna vinnuhópur frá ON vann að viðgerðunum í tvo …
Átta manna vinnuhópur frá ON vann að viðgerðunum í tvo daga. Mynd/Magnea Magnúsdóttir
Skemmdirnar voru vel sýnilegar frá Nesjavallavegi.
Skemmdirnar voru vel sýnilegar frá Nesjavallavegi. Mynd/Magnea Magnúsdóttir
Hlíðin eftir viðgerðina.
Hlíðin eftir viðgerðina. Mynd/Magnea Magnúsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert