„Guðrún kaus sjálf að stíga til hliðar“

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, stígur til hliðar til að tryggja …
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, stígur til hliðar til að tryggja faglega úttekt á starfsumhverfinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Guðrún kaus sjálf að stíga til hliðar, vegna þess að spjótin hafa beinst að henni. Hún gerir það til að tryggja faglega úttekt,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, sem hefur tekið við hluverki talskonu Stígamóta eftir að Guðrún Jónsdóttir steig til hliðar fyrr í dag.

Stjórn og starfshópur Stígamóta hafa ákveðið að láta utanaðkomandi aðila gera úttekt á starfsumhverfi samtakanna í kjölfar þess að tíu konur hafa lýst neikvæðri upplifun af starfi sínu á vettvangi samtakanna.

„Okkur finnst það skynsamlegt og ábyrgt að láta óháða fagaðila skoða starfsumhverfið í framhaldi af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað. Við höfum góða samvisku og trúum því statt og stöðugt að með þessu sé verið að stíga rétt skref,“ segir Steinunn. „Við viljum endilega setja þetta mál í algjöran forgang og fá úttektina sem allra fyrst,“ bætir hún við.

Fyrst til að stíga fram og lýsa „ofbeldissambandi“ sínu við Stígamót var Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, sem deildi reynslu sinni í pistli á Facebook. Í gær sendu svo níu konur, sem starfað hafa á vettvangi samtakanna, frá sér yfirlýsingu og sögðu reynslu sína af starfinu sambærilega þeirri sem Helga lýsti.

Steinunn segir Stígamót að taka þessar yfirlýsingar alvarlega og að mikilvægt sé að ganga í málið eins fljótt og auðið er. „Úttektin mun fara fram sem allra fyrst, en Stígamót eru nú að leita eftir vinnustaðasálfræðingi sem er viðurkenndur þjónustuaðili hjá Vinnueftirlitinu, til að taka að sér verkið.

Aðspurð hvort hún telji yfirlýsingar kvennanna um neikvæða umræðu um Stígamót hafa skaðað samtökin, segir Steinunn: „Okkur þykir afleitt ef þessi umræða verður til þess að fólkið sem þarf mest á Stígamótum að halda treystir sér ekki til að leita hingað. Þess vegna skiptir það svo miklu máli að taka á þessu af fullri ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert