Afleit ráðstöfun fyrir flugmenn

Formaður FÍA fjallar um áhafnaleigur í pistli í fréttablaði félagsins.
Formaður FÍA fjallar um áhafnaleigur í pistli í fréttablaði félagsins. mbl.is/RAX

Að flugmenn komi til starfa hjá flugfélögum í gegnum áhafnaleigur verður sífellt algengara.“ Þannig hefst pistill Örnólfs Jónssonar, flugstjóra og formanns Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna (FÍA) í fréttablaði félagsins.

Segir hann starfsmannaleigur skilgreindar sem þjónustufyrirtæki sem samkvæmt samningi leigja út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda og falla áhafnaleigur þar undir.

„Fyrir flugfélög er þetta hagkvæm ráðstöfun en fyrir flugmenn afleit. Það sem útaf ber hjá flugmönnunum við slíkt ráðningarfyrirkomulag samanborið við flugmenn á kjarasamningi í gengum stéttarfélag er yfirleitt skortur á lífeyris-, orlofs-, veikinda og tryggingaréttindum. Einnig er uppsagnarfrestur jafnan stuttur eða hreinlega enginn. Þar fyrir utan skortir þá allt bakland í samskiptum við flugrekstaraðilann þegar upp koma ágreiningsmál,“ skrifar Örnólfur.

Hann segir tegundir slíkra samninga margskonar og kjör flugmanna mismunandi. „Áhafnaleigur eru jafnvel í beinni eða óbeinni eigu flugfélaganna sjálfra og þá gjarnan staðsettar á aflandseyjum eða í skattaskjólum. Þær leigja þá flugfélögunum flugmenn á verði langt umfram þann kostnað sem þær hafa af flugmönnunum og hagnaðurinn verður þá eftir þar sem skattalegt hagræði er mest. Til að koma í veg fyrir ótakmarkaða skattskyldu í landinu er fólk flutt milli starfstöðva reglubundið (e. floating base).

Örnólfur segir að þekkt flugfélög sem hafi gengið hvað lengst í þessum efnum séu Ryanair og Norwegian.

Hann bendir á að Vinnumálastofnun hafi hingað til ekki haft eftirlit né kallað eftir því hvort hvort að starfsmannaleigur þ.m.t. áhafnarleigur starfandi hér á landi tilkynni starfsemi sína til samræmis við ákvæði laga nr. 139/2005 um starfsmannaleigur.

Þar segir að starfsmannaleigum beri að tilkynna starfsmannaleigu- þjónustu sína til Vinnumálastofnunar eigi síðar en sama dag og starfsemi hefst í fyrsta skiptið ásamt því að veita upplýsingar um þá starfsmenn sem hingað koma til starfa og skila inn afritum af ráðningarsamningum þeirra.

Það hlýtur að vera krafa íslenskra stéttarfélaga að ríkisvaldið fullvissi þau um að eftirlitshlutverk með framkvæmd laganna um starfsmannaleigur sé til staðar og vinni að því markmiði laganna að stuðla að jafnri samkeppnisstöðu og að vinna gegn félagslegum undirboðum,“ skrifar Örnólfur en pistilinn má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert