Loksins húsnæði eftir 10 ára bið

Hilmar Malmquist er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.
Hilmar Malmquist er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Kaflaskil urðu í sögu Náttúruminjasafns Íslands í dag þegar skrifað var undir samning um að safnið fá aðstöðu til sýninga í Perlunni.

„Náttúruminjasafnið var stofnsett 2007 og hefur aldrei haft yfir eigin sýningarrými þar til núna, það er bara svo einfalt þótt ótrúlegt megi virðast,“ sagði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands í Magasíninu á K100 í dag.

Fjármögnun ekki klár

Spurður hvað þurfi mikið fjármagn til framkvæmdarinnar segir Hilmar:

„Þetta eru tæpir 400 fermetrar sem standa Náttúruminjasafni til boða til að byrja með að minnsta kosti, hugsanlega bætast aðrir 400 fermetrar við fyrr en varir í öðrum tanki sem verður leystur undan vatninu sem er geymt í honum. Það liggur fyrir gróf kostnaðaráætlun um sýningahald Náttúruminjasafnsins og það svona veltur aðeins á því hve mikið verður lagt í margmiðlunarþáttinn í sýningunni. En þá erum við erum kannski að tala um svona 160, 170 upp í 220 milljónir. Þetta er nú ekki meira en það.“

Til samanburðar nefnir hann að heildarfjárfesting Perlu Norðursins, sem er með allt húsið á leigu, sé um tveir milljarðar.

Hilmar segir að nú taki við þriggja til fjögurra mánaða áhlaupsvinna við að frumhanna inn í rýmið og máta mismunandi sviðsetningar og að kostnaðararmeta sýningahaldið. Þá kemur til kasta Alþingis í haust af því að Alþingi verður að fjármagna sýningahaldið. Það er ekki í höfn ennþá.

Skemmtilegt samstarf ríkisstofnunar og einkaaðila

Varðandi næstu áfanga í ferlinu segir Hilmar hönnunarteymi komið af stað.


„Við komum til með að vinna náið með sýningarhönnuðum á vegum Perlu Norðursins. Þetta er skemmtilegt samstarf milli ríkisstofnunar og einkaaðila og já, er óskaplega spennandi verkefni.“

Skötuormar í búrum

„Við stefnum á að vera með lifandi verur. Þær verða kannski allar mjög stórar.“

Hann nefnir skötuorm sem dæmi um árstíðabundið atriði sem væri hægt að bjóða upp á.

„Þeir vaxa á heilu ári um heila 5 sm og verpa svo eggjum. Svo hefst ferillinn aftur næsta ár. Þetta á sér bara stað yfir 2-3 vikna skeið á haustin og þá er meiningin að vera með allt krökt af skötuormum í búrum og þá streyma skólakrakkarnir inn og forvitnast um þessi dýr. Hvernig þau verða til og á hverju þau lifa og svo framvegis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert