Þarf fleiri en tvo til að dansa á þingi

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagðist hafa áttað sig á því að …
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagðist hafa áttað sig á því að enginn er eyland í heilbrigðismálum. mbl.is/Golli

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, hóf sína ræðu í eldhúsdagsumræðum á Alþingi á því að minnast á óvenjulegt upphaf ríkisstjórnarinnar og það lykilhlutverk sem Björt framtíð gegndi í því. Hann sagði Bjarta framtíð hafa tekið þetta hlutverk sitt alvarlega og ákveðið að taka ábyrgð.

„Við trúum því að við höfum verið kosin til að hafa áhrif. Við störfum með ólíkum flokkum og ráðum ekki öllu ein. Við gerum málamiðlanir,“ sagði Óttarr og ítrekaði að ríkisstjórnarsamstarfið hefði gengið vel, líkt og samstarfið við þingið allt. Hann sagðist hafa áttað sig á því að hægt væri að hefja sig yfir flokkadrætti í ákveðnum málum og í raun væru mörg mál sem lítill ágreiningur væri um. „Það er stundum sagt að það þurfti tvo til að dansa tangó, en það þarf fleiri en tvo til að dansa á þingi. Það er hins vegar stundum erfitt að halda takti.“

 Enginn er eyland í heilbrigðismálum

Óttarr minntist á fund Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem hann sat nýverið, en sætisfélagar hans voru fulltrúar Indlands, Norður-Kóreu og Kongó, sem hann sagði hafa verið áhugavert að bera sig saman við. „Eftir að hafa heyrt sjónarmið 190 ríkja, þá var það mér ljóst að enginn er eyland í heilbrigðismálum, né öðrum málum.“ Hann sagði mikilvægt að land sem væri jafn friðsælt og ríkt og Ísland bæri ekki bara ábyrgð gagnvart sjálfu sér, heldur líka öðrum. Við ættum að vera fyrirmynd annarra.

Hann sagði Bjarta framtíð ekki keppast um vinsældir og þau væru stolt af sínum ráðuneytum. Kjörnir fulltrúar væru í þjónustustarfi og ættu að þjóna almannahagsmunum. Völd og ábyrgð væru sín hvor hliðin á sama peningi.

Hann kom inn á að það væri verk að vinna í heilbrigðismálum og sagði að ekki yrði hallað á önnur mál þó að bygging nýs Landspítala yrði sett á oddinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert