Sólveig bjó til „lítið skrímsli“

Hópurinn sem Sólveig stofnaði, fyrir vörur og verð í Costco, …
Hópurinn sem Sólveig stofnaði, fyrir vörur og verð í Costco, er líklega orðinn sá annar stærsti á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Facebook-hópurinn Keypt í Costco Ísl. Myndir og verð. er orðinn einn stærsti stærsti Facebook-hópur landsins, en í hópnum eru tæplega 62 þúsund meðlimir. Hann er orðinn stærri en Góða systir, sem telur um 51 þúsund meðlimi. Söluhópurinn Braks og brall er hinsvegar enn stærri, með um 100 þúsund meðlimi.

Líklega má þó fullyrða að Costco-hópurinn sé sá hópur sem vaxið hefur hvað hraðast hér á landi, en hann var stofnaður síðastliðinn þriðjudag og því aðeins um vikugamall. Miðað við áhugann á hópurinn eflaust eftir að stækka enn frekar á næstu dögum.

Var forvitin um úrvalið

Það var Sólveig B. Fjólmundsdóttir sem stofnaði hópinn af einskærri forvitni. Hana langaði einfaldlega að fá upplýsingar um vöruúrval og verð í Costco, þar sem hún á ekki heimangengt strax, enda býr hún í Skagafirði.

 „Ég fór á Facebook til að kanna hvort það væri ekki einhver búin að búa svona hóp, en svo var ekki. Frænka mín hvatti mig þá til að taka af skarið og búa sjálf til hóp, sem ég gerði. Fljótlega varð mér það ljóst að ég hafði búið til lítið skrímsli. Það var greinilega þörf fyrir þennan hóp og þetta er að nýtast svo mörgum, en mig óraði ekki fyrir því hvað þetta gæti orðið stórt.“

Hefur hent nokkrum út

Sólveig hefur ekki þurft að hafa mikil afskipti af hópnum, þrátt fyrir að vera stofnandi. Flestir koma vel fram og virða hugmyndina á bak við hópinn, að hennar sögn.  „Mér finnst alveg ótrúlegt hvað það er mikil jákvæðni í 61 þúsund manna hópi. Það er svo  mikill metnaður í sumum þarna inni. Það var til dæmis einn sem setti 170 myndir í albúm. Þetta er frábært tæki til að skipuleggja innkaupin,“ segir Sólveig .

„Það eru fáir sem eru með skítkast og leiðindi. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar sem mætti flokka sem nettröll eða eru með vesen.“ Hún viðurkennir þó að hafa þurft að henda nokkrum einstaklingum út úr hópnum og neita þeim um aðgang, en þeir gátu ekki virt reglurnar sem hún setti.

Sólveig hvetur meðlimi hópsins annars til að vera duglega að tilkynna það ef einhverjir eru með dónaskap eða óviðeigandi athugasemdir, en hún hikar ekki við að eyða út umræðu sem ekki á heima á síðu hópsins. Þá vill Sólveig endilega koma því á framfæri að hún er ekki á launum hjá Costco og hafði engan hag af stofnun hópsins. Þetta var til gamans gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert