Öryggismálin ráðherrunum ofarlega í huga

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Bergen.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Bergen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norræn samvinna og ýmis alþjóða- og öryggismál voru viðfangsefnin á  fyrri degi sumarfundar forsætisráðherra Norðurlandanna sem nú fer fram í Bergen í Noregi.  Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að mikilvægi baráttunnar gegn hryðjuverkum og öfgasamtökum hafi verið forsætisráðherrunum ofarlega í huga.

Þá var einnig komið inn á nýafstaðinn leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins (NATO), sem þrjú Norðurlandanna eiga aðild að. Samstarf Norðurlandanna og Kína var líka til umræðu svo og staða mála meðal annars í Rússlandi, Úkraínu og á Sýrlandi.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands, leiddi umræðuna um svæðisbundið samstarf og beindi umræðunni aðallega að málefnum norðurslóða, Norðurskautsráðinu og Eystrasaltsráðinu, en Ísland gegnir formennsku í Eystrasaltsráðinu um þessar mundir.

„Samráðsfundir sem þessir gegna nú enn meira hlutverki en áður, ekki síst í ljósi örra breytinga og þróunar í heimsmálum. Samstaða og samvinna Norðurlanda í veigamiklum málum gerir rödd okkar enn sterkari á alþjóðavettvangi” er haft eftir Bjarna í tilkynningunni.

Þá var rætt um samstarf Norðurlandanna á sviði umhverfis- og loftslagsmála og upplýsingatækni og ákveðið að stofna til sérstakrar ráðherranefndar um stafræna tækni.

Loks var útganga Bretlands úr Evrópusambandinu var til umfjöllunar og sammæltust forsætisráðherrarnir um að eiga eins mikla samvinnu og kostur er í þeirri vinnu sem framundan er. 

Forsætisráðherrarnir munu halda áfram umræðum í kvöld og á fundum þeirra á morgun  verða sérstaklega á dagskrá ýmis norræn málefni og norræn samvinna og meðal annars kynnt verkefnið „Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum“. Þá munu forsætisráðherrarnir eiga fund með framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og forseta Norðurlandaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert