Ólögmæt dreifing skilaboða

Tölvuskjár með Twitter opið
Tölvuskjár með Twitter opið mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Skjáskot af einkaskilaboðum og dreifing þeirra á netinu, án samþykkis, er hegningarlagabrot. Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

Slík dreifing er orðin algeng á samfélagsmiðlum. Skjáskotin eru oft og tíðum tengd aðstæðum þar sem einstaklingur hefur stigið í vænginn við annan.

„Þetta er sérstakur málaflokkur, segjum að einhver sé að reyna við annan og sendir viðkomandi aðila skilaboð og hinn aðilinn tekur þau skilaboð og dreifir þeim áfram og gerir þannig gys að þeim sem sendi skilaboðin. Það er hægt að segja að þetta sé persónuverndarbrot í eðli sínu en oftast er litið á þetta sem hegningarlagabrot,“ segir Helga.

Erfitt að höfða einkarefsimál

Einstaklingur sem er ósáttur við dreifingu á einkaskilaboðum sínum þarf að höfða einkarefsimál ef hann hyggst leita réttar síns en Helga telur að það geti verið erfitt fyrir þá sem vilja kæra slík mál. „Þetta er einkarefsimál og þarf viðkomandi því sjálfur að höfða slíkt mál. Það má spyrja sig hvort það sé boðlegt; af hverju er gerður þessi greinarmunur? Af hverju fer þetta ekki til lögreglu og ákæruvalds eins og refsimál?“ Hún segir jafnframt að almennt sé litið svo á að hegningarlagabrotið sé þyngra og meira, en að sterkast væri fyrir brotaþola að kæra einnig fyrir brot á persónuverndarlögum. „Það væri sterkara að höfða þannig mál,“ segir Helga en það getur verið kostnaðarsamt að fara í einkarefsimál. „Hegningarlagabrotið hefur alltaf út á við virkað þyngra og meira brot en á móti kemur að það þarf að fara í einkarefsimál og það fara ekkert allir í það, að fá sér lögmann, borga fyrir greinargerð og fleira slíkt.“

Helga segir að ef breyta ætti framkvæmd þessara mála og flytja þau sem persónuverndarmál yrði erfitt fyrir Persónuvernd að sinna slíkum málum sökum anna. Nánari umfjöllun um málið er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert