Malín búin að áfrýja dóminum

Malín Brand í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar málið var þingfest.
Malín Brand í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar málið var þingfest. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Malín Brand hefur áfrýjað dómi héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hún var dæmd í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundna, fyrir fjárkúgun til Hæstaréttar. Mál hennar er komið á áfrýjunarskrá Hæstaréttar og staðfestir verjandi hennar að hann hafi áfrýjað hennar hlut málsins.

Bæði Malín og systir hennar Hlín Einarsóttir voru ákærðar og dæmdar í málinu. Voru þær fundnar sekar um að hafa kúgað 700 þúsund krónur út úr karlmanni sem þær hótuðu að kæra fyrir nauðgun. Þá voru þær einnig fundnar sekar um tilraun til fjárkúgunar gegn fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Var dómur í málinu kveðinn upp í byrjun apríl. Vísir greindi fyrst frá áfrýjunni.

Í samtali við mbl.is staðfestir Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Malínar, að hann hafi áfrýjað málinu. Í áfrýjunarskrá Hæstaréttar er Hlín hins vegar ekki nefnd. Hólmgeir segir að ástæða áfrýjunarinnar sé að hann telji niðurstöðuna ekki rétta varðandi fyrsta kafla ákærunnar, en hún varðar 700 þúsund krónu fjárkúgunina. Segir hann að sýkna hefði átt fyrir þann kafla. Þá hafi refsingin fyrir síðari kafla ákærunnar verið allt of þung og jafnvel þótt sakfellt hefði verið fyrir báða ákæruliðina væri refsingin úr takti við það sem búast mátti við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert