Íslenskir háskólar áfram hálfdrættingar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis í kvöld.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis í kvöld. mbl.is/Golli

„Þegar horft er um öxl yfir veturinn eru stærstu vonbrigðin þau að hafa horft upp á fullkomið skilningsleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim sem minnst hafa á milli handanna, svik á stórfelldri uppbyggingu innviða og algjört metnaðarleysi þegar kemur að því að búa okkur undir þær stórkostlegu breytingar sem handan eru við hornið.“

Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni við eldhúsdagsumræður í kvöld.

„Það var súrt að ekki skuli hafa tekist að mynda stjórn um kerfisbreytingar: réttláta meðferð auðlinda, nýja stjórnarskrá og framtíðartilhögun peningamála, sem tryggði jafnari lífskjör og stöðugra efnahagslíf.

Og það var skúffandi og um leið ótrúlegt að sjá flokka, sem fyrir kosningar töluðu fyrir slíkum málum, henda loforðum sínum í ruslið í skiptum fyrir fáein misseri í ríkisstjórn,“ sagði Logi.

„Við megum ekki festast í viðbragðsstjórnmálum þar sem metnaðurinn snýst aðeins um það að lágmarka tjónið þegar skaðinn er skeður. Frú forseti, samfélag okkar stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gjörbreyta þjóðfélaginu.“

Eldhúsdagsumræður fara fram á Alþingi í kvöld.
Eldhúsdagsumræður fara fram á Alþingi í kvöld. mbl.is/Golli

Breytingarnar gerist á ógnarhraða

„Nýja iðnbyltingin er að því leyti frábrugðin þeim fyrri að nú mun tæknin ekki einungis leysa vöðvaafl af hólmi, heldur líka hugaraflið að einhverju leyti. Gervigreindin gefur vélum áður óþekkta hæfni.

Þær eru farnar að hlusta, tala og skilja. Þurfa ekki daglega stjórn frá mönnum til að leysa flókin og margbreytileg verkefni, og störf sem bæði háskólamenntaðir og minna menntaðir sinna í dag munu að einhverju leyti hverfa. Þótt tæknin hafi verið í stöðugri þróun er ýmislegt sem bendir til þess að í hinum stafræna, vel tengda heimi, muni þessar breytingar gerast á ógnarhraða,“ sagði Logi.

Nýi veruleikinn gefi tækifæri til meiri samskipta við fjölskyldu, vini og auknar frístundir. Í honum felist þá miklir möguleikar fyrir mannkynið allt, skipting gæða milli ríkari og fátækari hluta heimsins auk þess sem framleiðsla verði vistvænni.

Sem sagt, friðsælli og betri heimur.“

Logi benti þó á að af hinum nýja veruleika geti einnig stafað ógnir. Kortleggja þurfi hvaða störf breytist, tapist og hvaða ný störf verði til. Hindra þurfi þá að hagnaður slíkrar hagræðingar endi allur hjá þeim sem eiga fyrirtækin, en slíkt sagði hann munu leiða til enn meiri misskiptingar og gera okkur vanmáttug til að standa undir almannaþjónustu.

Menntun væri þá langmikilvægasti undirbúningur okkar fyrir slíka framtíð. Skapandi hugsun og tölvufærni muni verða lykilþættir í þróun atvinnulífsins.

Loforð um hagræðingu svikið

„Ekkert í stefnu stjórnarinnar mætir þessu:

Framlag til framhaldsskóla, háskóla og nýsköpunar eru í engu samræmi við það sem þau þyrftu að vera. Áfram verða íslenskir háskólar hálfdrættingar á við systurskóla sína á Norðurlöndunum.

Loforð um að framhaldsskólarnir njóti hagræðingar vegna styttingar þeirra var svikið. Fleiri hundruð milljónir verða hrifsaðar úr skólunum á næstu árum. Komið hefur í ljós að hér var um sparnaðaraðgerð að ræða. Engin áform um að bæta skólastarf.

Þegar rætt eru um styttingu náms má spyrja hvort sníða eigi ungu fólki svo þröngan stakk. Er rétt að herða svo að kröfum um námsframvindu að ekki gefist tími til þess að njóta lífsins, sinna tómstundum eða prófa sig áfram á þessu mikilvæga þroskaskeiði.“

Alþingismenn hlýða á eldhúsdagsumræður.
Alþingismenn hlýða á eldhúsdagsumræður. mbl.is/Golli

„Landspítalinn orðinn svo heit kartafla ...“

Logi sagði ríkisstjórnina ekki heldur hlusta á þjóðina þegar komi að heilbrigðismálum.

„Opinbera heilbrigðiskerfinu er haldið við sultarmörk meðan fjármunir renna ljúflega í einkarekstur, án þess að sýnt sé fram á hagkvæmi slíks. Og þar er kraninn opinn. Ríkisstjórnin er tilbúin að borga eftir hendinni þegar læknar í einkarekstri senda reikning en opinberum stofnunum er gert að hagræða.

Landspítalinn er orðinn svo heit kartafla að stjórnin getur ekki haldið á henni lengur. Hún ræður ekki við reksturinn og sér þá einu lausn að setja pólitíska agenta yfir stjórn spítalans til að fela vandræðaganginn.

Og þrátt fyrir þá staðreynd að margt sé vel gert í heilbrigðismálum þjóðarinnar er æpandi sú staðreynd að það fjölgar enn þeim sem hafa ekki efni á aðstoð,“ sagði Logi.

„Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hefur meiri framsýni, meiri kjark og fleiri gæfusmiði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert