Hestaskipti í miðri á ekki hyggileg

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, í ræðustól Alþingis.
Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, í ræðustól Alþingis. mbl.is/Golli

Ekki er annað hægt en að heillast af því, hverju þessi fámenna þjóð í stóru og harðbýlu landi hefur áorkað. Þetta sagði Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í ræðu sinni fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Eldhúsdagsumræðum, sem nú fara fram á Alþingi.

Jón sagði miklar væntingar vera meðal landsmanna um aukna hagsæld og bætta afkomu íslensks almennings. Þær væru endurómur af almennt góðri stöðu í íslensku efnahagslífi.

Einstök útgjaldaaukning milli ára

„Við finnum það sem betur fer langflest að eftir nokkur mögur ár er árangur ötuls starfs við endurreisn íslensks efnahagslífs að skila sér í hús af fullum krafti. Árangur okkar er eftirtektarverður og vekur athygli víða um heim. Styrk stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum er grundvöllurinn að árangrinum, ásamt því að ytri skilyrði hafa verið okkur hagfelld. Með bættum efnahag þjóðarbúsins fylgja væntingar um aukin útgjöld til hinna ýmsu málaflokka,“ sagði Jón.

Bætti hann við að þessa hefði mátt sjá stað við afgreiðslu síðustu fjárlaga þar sem útgjöld ríkisins voru aukin um 55 milljarða króna frá árinu áður, en slík útgjaldaaukning á milli ára væri einstök og óvarlegt að búast við slíkri aukningu á milli ára í framtíðinni.

„Í þeirri fjármálaáætlun sem rædd hefur verið á Alþingi undanfarið er til að mynda gert ráð fyrir um það bil 20 milljarða árlegri útgjaldaaukningu.“

Eldhúsdagsumræður fara nú fram á Alþingi.
Eldhúsdagsumræður fara nú fram á Alþingi. mbl.is/Golli

Fullljóst að enn sé nokkuð í land

Enginn vafi væri á því að Íslendingum hefði miðað vel síðastliðin ár.

„Við Íslendingar upplifum nú lengsta stöðugleikatímabil í sögu þjóðarinnar sem sést meðal annars á því að í 40 mánuði samfleytt hefur verðbólga í landinu verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Við höfum jafnframt orðið vitni að mestu kaupmáttaraukningu sem sögur fara af á umliðnum árum sem studd er af háu atvinnustigi og stórminnkandi atvinnuleysi sem hefur bætt kjör okkar allra. Þessi góða staða er ekki sjálfsögð og við sjáum það best á því að við – í þessu tilliti – skerum okkur úr miðað við þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við,“ sagði Jón.

„En þrátt fyrir þetta, þá er okkur fullljóst að við eigum enn nokkuð í land á ýmsum sviðum og það okkar bíða ýmis krefjandi verkefni við að svara kröfum samfélagsins um úrbætur í nokkrum málaflokkum. Það er skýrt kveðið á um það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að meginverkefni hennar er að stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, í samgöngum, í heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt.

Ríkisstjórnin er staðföst í að fylgja eftir ábyrgri stefnu sinni, sem – ef okkur tekst það ætlunarverk okkar – mun skapa grunn að enn frekari hagsæld en við búum við í dag.“

Árangurinn engin tilviljun

En þrátt fyrir hagstæð skilyrði og styrka stjórn landsmála, sagði Jón það alveg ljóst að aðstæðurnar í þjóðfélaginu væru mjög krefjandi og ríkisstjórnarinnar bíða mörg erfið verkefni.

„Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að sýna ábyrgð og ráðdeild í opinberum fjármálum og við verðum að temja okkur öguð og gagnsæ vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu.“

Því næst sagði hann að alltaf væri hollt að minnast uppruna síns, og ef litið væri um öxl væri ekki annað hægt en að heillast af því, hverju þessi fámenna þjóð í stóru og harðbýlu landi hefði áorkað.

„Árangurinn er engin tilviljun, bæði vegna þess að í landinu býr dugmikið fólk sem unnið hefur ötullega að markmiðum sínum, en einnig vegna þess að sú meginstefna og framtíðarsýn um þjóðfélagsskipanina sem hér hefur verið rekin á síðustu áratugum, hefur borið árangur.

Leiðarljósið í þeirri vegferð hefur verið frelsi einstaklingsins til orða og athafna  – sem  hefur leyst úr læðingi krafta sem smitað hafa út frá sér. Að hafa þá framtíðarsýn að sem flestir hafi tækifæri til atvinnu hefur leitt það af sér að atvinnuþátttaka fólks á Íslandi á sér vart nokkra hliðstæðu meðal annarra þjóða.“

Þingmenn fylgjast með ræðum kollega sinna.
Þingmenn fylgjast með ræðum kollega sinna. mbl.is/Golli

Stoðirnar fleiri og styrkar

Jón sagði að lykilatriði þessari vegferð hefði verið sú stefna sem mörkuð hefði verið fyrir meira en hálfri öld um skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.

„Sú stefna hefur lagt grunninn að öflugu samfélagi, samfélagi sem er traustara en nokkru sinni áður hér á landi. Þetta höfum við gert á okkar eigin forsendum og í samstarfi við erlenda aðila eftir því sem við hefur átt. Það er liðin sú tíð að við byggjum á einhæfu atvinnulífi í verðmætasköpun í landinu. Nú eru stoðirnar fleiri og styrkari.

Sú skynsamlega ákvörðun sem tekin var fyrir meira en hálfri öld – að virkja fallvötnin og fá til liðs við okkur stóra kaupendur að orkunni ­– olli straumhvörfum. Okkur hefði verið nánast ómögulegt að svara kalli nútímans um orkuskipti með rafvæðingu landsins án þess að til þessa hefði komið. Nú hálfri öld síðar borgum við lægsta raforkuverð sem þekkist meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við.“

Framsýni forvera hvatning til góðra verka

Sagði hann að líta mætti líka á þetta í öðru ljósi.

„Ef við horfum til frænda okkar í Danmörku, þar sem búa tæplega 6 milljónir manna, eða 17 sinnum fleira fólk en við Íslendingar erum, sem byggir upp innviði í landi sem er lítið eitt stærra en Suðurkjördæmi, þá gerum við okkur betur grein fyrir því hvílíku Grettistaki hefur verið lyft hér á landi á umliðnum árum og áratugum.

Við verðum að hafa þetta í huga og vera með þessar staðreyndir að leiðarljósi, þegar við hugum að framtíðinni. Við eigum að láta framsýni forvera okkar verða okkur sjálfum að hvatningu til góðra verka – íslensku samfélagi til hagsbóta.“

Stefna í fiskveiðistjórnun reynst happadrjúg

Jón sagði að enginn þyrfti að efast um að sú stefna sem hér hefði verið rekin í fiskveiðistjórnunarmálum hefði reynst þjóðinni happadrjúg.

„Allt frá því að einkaframtakið var leyst úr læðingi fyrir áratugum hefur þróunin verið í rétta átt. Með tækniframförum bæði til lands og sjávar hefur verðmætasköpun stórvaxið og er nú með því besta sem þekkist í sjávarútvegi á alþjóða vettvangi.

Við höfum um árabil deilt um það hvernig skuli haga gjaldtöku af þessari atvinnugrein umfram aðrar greinar – en sjávarútvegurinn greiðir nú þegar hæstu gjöldin sem nokkur atvinnugrein greiðir í opinbera sjóði.“

Nú ætti að reyna að leita sátta.

„Við skulum öll leggjast á eitt um það að ná sátt – og þá ekki síst við greinina sjálfa – en á sama tíma forðast að leika okkur með eitt helsta fjöregg okkar til þess eins að þjóna óljósum tilfinningalegum markmiðum.

Bæði sjávarútvegur og landbúnaður hafa verið grundvöllurinn að byggðafestu hér á landi um aldir, en núna eru breyttir tímar og við verðum að horfa jafnframt til nýrra tækifæra.“

Jón sagði það borna von að þingið næði að endurvinna …
Jón sagði það borna von að þingið næði að endurvinna traust á meðan talað væri út og suður í sumum málum. mbl.is/Ómar

Öflugt atvinnulíf forsenda framfara

„Byggðafesta hefur verið grunnstef í stefnu Sjálfstæðisflokksins – sem og að skapa landsmönnum jöfn tækifæri til athafna. Við sjálfstæðismenn erum þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta einstaklinganna til fulls. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins.

Stefna ríkisstjórnar ræður því hvert þjóðinni er stefnt hverju sinni. Treystir hún eingöngu á forsjá sína og heftir þegnana við að bjarga sér eftir því sem þeir best geta – eða treystir hún fyrst og fremst á frumkvæði og kraft borgaranna til að skapa sjálfum sér tækifæri, í stað þess að leggja á þá hömlur og hindranir?“

Um þetta sagði Jón að hefði verið tekist á í íslenskum stjórnmálum í gegnum tíðina, en það væri gæfa þessarar þjóðar að sú stefna hefði orðið ofan á sem hvetji einstaklingana til dáða.

Aukin samkeppni kjarabót fyrir neytendur

„Við horfum þessa dagana á ákveðna umbyltingu í íslenskri verslun. Það hefur ekki farið framhjá neinum að erlent stórfyrirtæki opnaði nýlega verslun í Garðabæ og annað er á leiðinni hingað til lands. Hér á ég við Costco og H&M,“ útskýrði Jón.

„Jafnvel að þótt heyrist gagnrýnisraddir frá vinstri, þá er það engum vafa undirorpið að aukin samkeppni á smásölumarkaði ætti að verða íslenskum neytendum veruleg kjarabót. Og því ber að fagna – og undrast um leið þau forpokuðu sjónarmið sem frá gagnrýnendum koma.

Það er engin tilviljun að þessi fyrirtæki horfa nú til Íslands og ákveða að hefja hér starfsemi. Hér hefur niðurfelling tolla og vörugjalda sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir – og var reyndar gagnrýnd hér á Alþingi af vinstri mönnum – haft úrslitaáhrif.“

Jón sagði stefnu ríkisstjórnar ráða því hvert þjóðinni væri stefnt …
Jón sagði stefnu ríkisstjórnar ráða því hvert þjóðinni væri stefnt hverju sinni. mbl.is/Eggert

Pólitískt trúarofstæki vinstri manna

„Annað dæmi um furðulega skammsýni og pólitískt trúarofstæki er andúð vinstri manna á einkarekstri á ýmsum sviðum þar sem ríkið hefur verið ráðandi. Þetta á  til að mynda við um ýmsa starfsemi á heilbrigðissviði. Hvaða vit er til dæmis í því að senda fólk til útlanda í liðsskiptaaðgerðir – á einkasjúkrahúsum svo því sé haldið til haga – með ærnum tilkostnaði fyrir samfélagið, þegar hægt er að gera þessar aðgerðir ódýrari hér á Íslandi?

Það er með ólíkindum að málum skuli vera svona fyrirkomið.“

Jón sagði það borna von að þingið næði að endurvinna traust á meðan talað væri út og suður í sumum málum.

„Sem dæmi, það kemur eitt virtasta tímarit í heimi á vettvangi heilbrigðismála og segir að í samanburði á tilteknum mælikvarða sé íslenskt heilbirgðiskerfi í 2. sæti í heiminum. Gefur þetta ekki tilefni til að staldra við, í umræðu um stöðu heilbrigðismála á Íslandi? Ef marka má umræður og stöðu margra, mætti ætla að hér væri allt í kaldakoli.

Það er allt í lagi að gagnrýna, en það er ástæðulaust að tala allt niður í svaðið og það eykur sannarlega ekki virðingu Alþingis þegar slíkar raddir heyrast úr þessum ræðustól.“

Enginn annar hestur tiltækur

„Í umræðum á Alþingi síðustu daga hefur verið kallað eftir því að ríkisstjórnin segi af sér og að boðað verði til kosninga. Skyldi það nú reynast heilladrjúgt fyrir þjóðina? Allir flokkar reyndu fyrir sér um stjórnarmyndun með einum eða öðrum hætti—með árangri sem þarf ekki að rifja upp.

Núverandi stjórnarflokkar náðu saman um stefnu þar sem fylgt er eftir góðum árangri fyrri ríkisstjórnar af ábyrgð. Um kröfu stjórnarandstöðunnar er það að segja að það hefur aldrei þótt  hyggilegt að hafa hestaskipti í miðri á, hvað þá að reyna það þegar enginn annar hestur er tiltækur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert