Brynjar og Svandís vanhæf

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, stíga bæði til hliðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þegar skipun í embætti fimmtán dómara við Landsrétt verður þar tekin fyrir, vegna vanhæfis.

Eins og mbl.is greindi frá hefur Sigríður Á. Andersen dóms­málaráðherra af­hent for­seta Alþing­is til­lögu sína að skip­un í embættin. Eru til­lög­ur henn­ar ekki þær sömu og til­lög­ur dóm­nefnd­ar um um­sækj­end­ur, sem skilaði ráðherra um­sögn sinni fyrr í mánuðinum.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari er á lista ráðherra, en hún er eiginkona Brynjars Níelssonar, sem er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Segir hann í samtali við mbl.is að það hafi legið fyrir frá upphafi að hann tæki ekki þátt í meðferð málsins fyrir nefndinni þar sem Arnfríður var á meðal umsækjenda.

Þá er Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður á lista dómnefndarinnar, en hann er fyrrverandi eiginmaður Svandísar Svavarsdóttur sem einnig á sæti í nefndinni. Lá einnig fyrir frá upphafi að hún tæki ekki þátt í meðferð málsins.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málið afgreitt á Alþingi á miðvikudag

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun gegna hlutverki formanns nefndarinnar í stað Brynjars, yfir þessu máli. Þá kemur Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, inn í nefndina sem staðgengill hans á meðan. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinsti grænna, kemur inn í stað Svandísar.

Að sögn Njáls mun nefndin funda klukkan níu í fyrramálið og fara yfir gögn málsins. Stefnt er svo að því að málið verði afgreitt fyrir þinginu á miðvikudag, með atkvæðagreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert