„Kíkti aumingi á okkur í Kjötbúðina“

Skjáskot af myndskeiðinu.

Brotist var inn í Kjötbúðina við Grensásveg um klukkan 7.30 í morgun. Frá þessu greinir eigandi búðarinnar, Geir Rúnar Birgisson, og birtir um leið myndbandsupptöku af þjófnaðinum á Facebook-síðu sinni.

Í samtali við mbl.is segir hann þjófinn hafa haft um tíu til fimmtán þúsund krónur upp úr krafsinu. Mesta tjónið felist þó í skemmdum á hurðinni.

„Hann beyglaði hurðina og karminn og það þarf að laga það allt.“

Geir segist þá ekki hafa tilkynnt lögreglu um þjófnaðinn, enda hefði það lítið að segja.

„Reynslan hefur sýnt mér það að slíkt breytir litlu. Þeir finna hann ekkert, og skiljanlega. Maður hefur það líka á tilfinningunni að ef hann skyldi nást þá fengist lítið upp í tjónið. Þetta dettur því um sjálft sig.“

Um hálft ár er liðið frá því síðast var brotist inn í búðina. Aðspurður segir Geir að vel geti verið að sami maðurinn hafi verið að verki þá.

Hér fylgir myndskeiðið sem Geir birtir á Facebook-síðu sinni og lætur með fylgja: „Það kíkti einn aumingi á okkur í kjötbúðina í nótt.“ Horft hefur verið á upptökuna um tvö þúsund sinnum, þegar þetta er skrifað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert