Andrés Önd fræðir um netöryggi

Lesandi virðir fyrir sér Andrésar Andar blaðið um netöryggi og …
Lesandi virðir fyrir sér Andrésar Andar blaðið um netöryggi og ógnir á netinu. mbl.is/Skúli

Edda útgáfa í samstarfi við SAFT, vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi, gaf á dögunum út Andrésar Andar blað um samskipti á netinu en þar er m.a. farið yfir öryggisógnir, samfélagsmiðla og neteinelti svo dæmi séu tekin. Blaðinu var dreift með Morgunblaðinu í gær og verður dreift til allra grunnskóla landsins í haust.

María Brynhildur Johnson, sölu- og markaðsstjóri Eddu útgáfu, segir efnið hafa verið samið í samstarfi við útgefendur Andrésar Andar á Norðurlöndunum og hefur blaðið verið gefið út á nokkrum norrænum tungumálum. Hún segir tækifæri felast í því að gera fræðsluna skemmtilega. 

„Og hver er betri en Andrés í því að fræða krakkana um svona mikilvægt málefni,“ segir hún og bætir við að viðtökurnar hafi verið mjög góðar þegar blaðinu var dreift með Morgunblaðinu í gær.

SAFT kom m.a. að þýðingu á blaðinu og munu samtökin einnig annast dreifingu þess. Útgáfan er kostuð af Árvakri, móðurfélagi Eddu útgáfu, en mbl.is er einnig í eigu Árvakurs.

María Brynhildur segir að hægt sé að nálgast blaðið hjá Eddu útgáfu sem er staðsett í Hádegismóum, en eins og segir að ofan verður blaðinu dreift í alla grunnskóla landsins í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert