Að fylgja ferðamanninum eftir

Mynd/Istock

Íslenskur matur fellur vel að alþjóðlegum matartískubylgjum. Áskorun matvælafyrirtækja er að einskorða ekki íslenskan mat við Ísland heldur auka sýnileika sinn og fáanleika. Þetta kemur fram í greiningu sem kynnt var á opnum fundi Íslandsstofu í gær. Efni hennar fjallar um hvernig íslensk matvæli og matarmenning birtast á netinu á þremur áherslumörkuðum. Greiningin var unnin á vegum Íslandsstofu í samstarfi við breska fyrirtækið M2 Bespoke.

Ben Hollom, framkvæmdarstjóri breska fyrirtækisins M2 Bespoke, kynnti greininguna. Hollom benti á að íslenskur matur eigi ekki að einskorðast við Ísland heldur eigi að gera hann aðgengilegri erlendis. Með auknum straumi ferðamanna til Íslands séu fleiri en nokkru sinni fyrr að borða íslenskan mat. Áskorunin sé að gera hann fáanlegan og sýnilegan að Íslandsferð lokinni, og fylgja ferðamanninum þannig eftir.

Túristi gæðir sér á Bæjarins beztu.
Túristi gæðir sér á Bæjarins beztu. mbl.is/Ómar Óskarsson


Þá kemur fram að íslenskur matur falli mjög vel að alþjóðlegum matartískubylgjum. Lífrænn og þjóðlegur matur sé eftirsóttur, neytendur vilji vita hvaðan hann komi og hver sé saga hans. Íslensk matvælafyrirtæki eru því hvött til að segja sögu sína af sér og framleiðslu sinni. Þannig komi gæði og sérstaða fyrirtækjanna fram.

Í greiningunni er lögð áhersla á stöðuga netnotkun neytenda og breytingu á hlutverk þeirra. Nú ætlist neytendur fremur til beinna samskipta við matvælafyrirtækin. Einnig vilji þeir taka virkari þátt í auglýsingaherferðum og mótun fyrirtækjastefna. Þetta sé til dæmis gert með umfjöllun á vefsíðum fyrirtækja.

Ásamt samfélagsmiðlum ættu matvælafyrirtæki einnig að notast við „áhrifavalda“ frekar en auglýsingar. Fólk hlusti á einstaklinga eins og bloggara fremur en það sem fyrirtækin sjálf segi. Trúverðugleikinn komi frá fólkinu sjálfu. 

Greiningin var unnin úr leitarniðurstöðum, samfélagsmiðlum og fyrrum rannsóknum. Áherslumarkaðirnir í rannsókninni voru þrír, Bretland, Bandaríkin og Þýskaland. Löndin urðu fyrir valinu út frá áhuga íslenskra fyrirtækja. Í greiningunni er horft til afstöðu til fisks, áfengis, lambs og mjólkurvara.

Fundurinn var tekinn upp og mun vera gerður aðgengilegur á vef Íslandsstofu. Hægt er að nálgast greininguna hér.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert