Sek um að trúa á bjartsýni formannsins

Stefán vonast til þess að Neytendasamtökin hljóti ekki álitshnekki vegna …
Stefán vonast til þess að Neytendasamtökin hljóti ekki álitshnekki vegna deilnanna. mynd/Kristinn Ingvarsson

Pattstaða ríkir í stjórn Neytendasamtakanna að sögn Stefáns Hrafns Jónssonar, stjórnarmanns í samtökunum, en stjórnin lýsti yfir vantrausti á formanninn, Ólaf Arnarson, í byrjun maí. Sjálfur segist formaðurinn ætla að gegna skyldum sínum áfram og að hann hafi lýst vilja sínum til að lægja öldurnar í samtökunum. Í gær reyndi stjórnin að funda, en Ólafur sleit fundinum í raun áður en hann hófst, vegna tillögu um að kosið yrði um fundarstjórn. Þá sagði varaformaður samtakanna, Steinunn Ása Atladóttir, sig úr í stjórninni í gær. 

Stefán segir óljóst hvað gerist næst í málinu. Hvort það þýði nokkuð að reyna að fá annan fund á meðan ástandið er svona. „Fundurinn í gær var ansi stuttur, ég hef ekki setið á styttri fundi. Ég er hissa ef maðurinn er að leita sátta að hann sé ekki tilbúinn að ræða við stjórn, og láta karp um val á fundarstjóra hafa þessi áhrif. Hann segir í fjölmiðlum að hann vilji leita sátta, en þetta voru ekki tilburðir í þá áttina,“ segir Stefán og heldur áfram: „Lög samtakanna eru ekkert mjög nákvæm og þau þarf að endurskoða. Þau eru ekkert mikið að hjálpa okkur í þessum vanda. Þegar þau eru sett þá er ekki gert ráð fyrir að þessi staða geti komið upp.“ Ein leið í stöðunni getur hins vegar verið að stjórn og formaður ræði óformlega saman á milli funda.

Ekki hægt að reka samtök á bjartsýni

Það er mat meirihluta stjórnar samtakanna að Ólafur hafi ítrekað leynt stjórnina upplýsingum og skuldbundið samtökin efnum framar. Kom það fram í yfirlýsingu sem meirihlutinn sendi frá sér í gær. Þar kom jafnframt fram að formaður hefði gengið til samninga um rekstur smáforrits með þeim orðum að það yrði samtökunum að kostnaðarlausu. Í ljós hafi hins vegar komið að smáforritið er kostnaðarsamt. „Það kom okkur á óvart að um væri að ræða svona háa upphæð. Það var fullt af fólki í stjórn sem upplifði það eftir fundi að samstarfið um forritið ætti ekki að fela í sér kostnað, þó að það sé mjög auðvelt að sýna fram á hvernig hann til kom,“ segir Stefán

Frétt mbl.is: „Leyndi ítrekað upplýsingum“

Þá mun Ólafur hafa látið leiðrétta laun sín afturvirkt og leigt bifreið sem hentaði ekki fjárhagsstöðu samtakanna. Stefán segir hins vegar að þessi atriði hafi ekki haft úrslitaáhrif hvað varðar vantraust í garð formannsins.

„Kjarninn í þessu er ekki bíllinn eða launin. Það þarf að líta á þetta í aðeins stærra samhengi. Við höfum til dæmis kallað eftir rekstraráætlun. Við fengum drög að henni 2. apríl, sem er frekar seint. Það voru bara drög, en við teljum mikilvægt að í rekstrinum sé stuðst við rekstraráætlun svo það sé hægt að meta tilteknar ákvarðanir. Við vorum að bíða eftir því. Það má kannski segja að stjórnin hafi helst gerst sek um að trúa á bjartsýni formannsins um auknar tekjur. Það er hins vegar erfitt að reka samtök í þröngri stöðu á bjartsýni.“

Stefán segist aldrei hafa setið styttri fund en þann hjá …
Stefán segist aldrei hafa setið styttri fund en þann hjá stjórn samtakanna í gær. Aðsend mynd

Stefán veit í raun ekki hvað gerist næst en er að kynna sér hvernig best er að taka á málum sem þessum. „Ég fékk gefins bók um stjórn og rekstur félagasamtaka og er að kynna mér hvað maður gerir í svona málum. Ég er þarna í sjálfboðavinnu og að reyna að leggja mitt af mörkum til að skapa betra neytendaumhverfi. Þetta eru hins vegar aðstæður sem ég hef ekki verið í áður. Ég veit því ekki hvað gerist næst. Það er vissulega mikilvægt að finna lausn, en það er rétt sólarhringur síðan síðasti fundur var haldinn.“

Stjórnarmenn geta krafist þess að fá fund en hann þarf að boða með ákveðnum fyrirvara. „Ég veit hins vegar ekki hvort við eigum að vera að eyða tíma í það ef það er ekki vilji til halda fund öðruvísi en að slíta honum samstundis.“

Vonar að samtökin skaðist ekki

En getur stjórnin starfað áfram með formanni sem hún er búin að lýsa yfir vantrausti á? „Ég tel að það sé mjög erfitt fyrir formann að starfa ef hann hefur ekki stjórnina með sér. Það er ýmislegt sem þarf að samþykkja og ræða. Það er þó ekki útilokað að formaður geti unnið traust aftur, en þá þarf að gera einhverjar breytingar frá því sem nú er.“

Samkvæmt lögum Neytendasamtakanna er það ekki í höndum stjórnar að koma formanni frá, enda er hann kosinn á þingi samtakanna. Að sögn Stefáns eru því bara tveir möguleikar í stöðunni; formaður situr áfram eða segir sjálfur af sér.

Frétt mbl.is: „Ég setti fundinn og sleit honum“

Ólafur hefur hins vegar gefið það út að hann ætli sér að rækja þær skyldur sem hann hafi að gegna gagnvart samtökunum. Í samtali við mbl.is í gær sagði hann jafnframt: „Þetta fólk var sjálf­kjörið í stjórn­ina. Þing Neyt­enda­sam­tak­anna tók ekki af­stöðu til þessa fólks þar sem það voru tólf fram­bjóðend­ur í tólf stjórn­ar­sæti. Þannig að ef menn ætla að fara að met­ast um lýðræðis­legt umboð þá held ég að mitt sé mun sterk­ara.“

Aðspurður segir Stefán Neytendasamtökin vel starfhæf þrátt fyrir deilur stjórnar, enda sé öflugt fólk sem starfar á skrifstofunni, sinnir þar verkefnum og leiðbeinir félagsmönnum í málefnum sem koma að samtökum. Þá vonast hann til að samtökin beri ekki mikla álitshnekki vegna deilnanna. „Samtökin standa ekki og falla með einstaka stjórnarmönnum og ég vona að þetta hafi ekki skaðað samtökin mikið, þótt það megi búast við einhverjum áhrifum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert