Nýir framkvæmdastjórar Pírata

Erla og Kristján hafa mikla reynslu og þekkingu á fjölmiðlum, …
Erla og Kristján hafa mikla reynslu og þekkingu á fjölmiðlum, markaðsmálum og ráðgjöf. Mynd/Píratar

Erla Hlynsdóttir og Kristján Gunnarsson hafa verið ráðin til starfa hjá Pírötum. Taka þau bæði við hlutverki framkvæmdastjóra Pírata, sem áður var í höndum Sigríðar Bylgju Sigurjónsdóttur, og enn fremur hlutverki framkvæmdastjóra þingflokks Pírata. Þetta kemur fram á heimasíðu Pírata.

Störf Erlu og Kristjáns fela bæði í sér vinnu með þingflokknum, ásamt því að hlúa að starfsemi í grasrót og baklandi Pírata um allt land. Píratar auglýstu í apríl eftir starfsfólki og voru Kristján og Erla valin hæfust úr hópi umsækjenda.

Erla hefur starfað við fjölmiðla í áratug, meðal annars á DV, Stöð 2 og Fréttatímanum. Hún er þó einna þekktust fyrir að hafa í þrígang unnið sigur gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið á tjáningarfrelsi Erlu. Hún er með BA-gráðu í félags- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands en hún hefur enn fremur lokið námi í stafrænni markaðssetningu og viðskiptum á netinu við Opna háskólann í HR.

Kristján hefur síðustu misseri unnið með þingflokki Pírata að fjölbreyttum verkefnum. Hann hefur starfað við ráðgjöf og markaðsmál í yfir áratug, bæði fyrir stór og smá fyrirtæki. Ásamt því hefur hann verið virkur í margvíslegum nýsköpunarverkefnum síðasta áratug og setti nýverið á fót sprotafyrirtækið Konto.is. Þar til í fyrra var Kristján annar eiganda vefstofunnar Kosmos & Kaos. Á ferlinum hefur hann til að mynda starfað sem markaðsstjóri, kennari og framkvæmdastjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert