Matsmaður fenginn í mál Birnu

Thomas Møller Olsen er sakaður um að hafa orðið Birnu …
Thomas Møller Olsen er sakaður um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þýski réttarmeinafræðingurinn Urs Oliver Wiesbrock mun mæta fyrir dóm í máli gegn Thom­as Møller Ol­sen, sem ákærður er fyrir morð á Birnu Brjánsdóttur í janúar. Hlut­verk rétt­ar­meina­fræðings í mál­inu er að svara fimm spurn­ing­um er liggja fyr­ir og verður hann þar með dómskvaddur matsmaður málsins.

Gert er ráð fyrir að hann verði búinn að svara spurningunum 27. júní, en næsta fyrirtaka málsins verður 7. júní og er þá áætlað að taka ákvörðun um aðalmeðferð málsins. Hún yrði þó aldrei fyrr en í fyrsta lagi í júlí, en þinghald þá getur reynst erfitt vegna sumarfría, þar eð um þrjátíu vitni verða boðuð fyrir dóminn í málinu.

Olsen var auk þess dæmdur áfram í gæsluvarðhald í fjórar vikur, til 20. júní. Mótmælti verjandi hans kröfu saksóknara, sem á móti sagði að dómstólar hefðu ítrekað úrskurðað um gæsluvarðhald yfir honum með almannahagsmuni í húfi. Féllst dómari við Héraðsdóm Reykjaness á þá kröfu saksóknara.

Wiesbrock mun nú fá send gögn úr málinu, en þýða þarf þau. Taldi saksóknari að hægt yrði að senda honum þau fljótlega eftir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert