Höllin full af börnum og unglingum

Maður með stúlku á öxlum sér í nágrenni Manchester Arena …
Maður með stúlku á öxlum sér í nágrenni Manchester Arena tónleikahallarinnar. 22 fórust í árásinni og 50 særðust, en tónleikagestir voru margir börn og unglingar AFP

 „Það versta við þetta er að hugsa til þess að höllin var full af börnum og unglingum. Þetta er ung stjarna og þarna hafa verið börn niður í 5-6 ára. Það gerir þetta enn meira sjokkerandi og sorglegt,“ segir  Ágústa M. Þórarinsdóttir, ræðismaður Íslands í Manchester. 22 lét­ust og yfir 50 eru særðir eft­ir að sprengja sprakk á tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariana Grande í Manchester Arena tónleikahöllinni í gærkvöldið.

Ágústa segir enga Íslendinga hafa sett sig í samband við sig eftir árásina, en mbl.is hefur birt viðtöl við nokkra Íslendingar sem voru á tónleikunum. „Ég hef svo verið í sambandi við sendiráðið í London þar sem við samhæfðum okkar aðgerðir ef eitthvað kæmi upp á,“ segir hún.

Manchester er vinsæll viðkomustaður hjá Íslendingum og segir Ágústa flug frá Íslandi til borgarinnar næstum daglega. „Þannig að það er mikið af Íslendingum sem kemur hingað í fótboltaferðir, verslunarferðir og til að fara á svona tónleika,“ segir hún og kveður aukinheldur á bilinu 100-200 Íslendinga vera búsetta í Manchester og nágrenni.

Ágústa M. Þórarinsdóttir, ræðismaður Íslands í Manchester, segir íbúa hafa …
Ágústa M. Þórarinsdóttir, ræðismaður Íslands í Manchester, segir íbúa hafa farið út og boðist til að keyra tónleikagesti og mætt á vettvang með mat fyrir lögreglu og sjúkraliða. Ljósmynd/Ágústa

Fólk beðið að vera ekki á ferðinni í miðbænum

Staðfest hefur verið um sjálfsvígsárás hafi verið að ræða, en ekki hefur verið gefið upp hver árásarmaðurinn hafi verið né hvort hann hafi átt sér einhverja vitorðsmenn.

Ágústa fer ekki til vinnu í dag, en hún vinnur í um 5 mínútna göngufjarlægð frá tónleikahöllinni, sem er í miðbænum, og þar er lokað í dag á umferð. Hún segir þetta óneitanlega valda mikilli röskun á samgöngum enda fari þúsundir í gegnum miðbæinn á degi hverjum. Lögregla hefur hins vegar beðið fólk að vera ekki á ferðinni þar í nágrenninu í dag, en hefur ekkert gefið upp um að ástæða sé til að óttast frekari árásir.

„Ég held að fólk sé þó bara skilningsríkt á þessa röskun. Það eru náttúrulega bara allir ennþá í sjokki. Margir voru farnir að sofa áður en fréttirnar bárust í gærkvöldi og vöknuðu síðan upp við þetta nú í morgun þegar þeir voru að gera sig klára til að senda börnin í skólann og annað slíkt. Fólk því ekki alveg búið að  átta sig á því hvað gerðist.“

Tónleikagestir bíða eftir að komast á brott eftir sprengjuárásina á …
Tónleikagestir bíða eftir að komast á brott eftir sprengjuárásina á Manchester Arena tónleikahöllina í gærkvöldi. AFP

Íbúar gáfu mat og keyrðu tónleikagesti

Hún segir breskum fjölmiðlum vera tíðrætt um þann mikla velvilja sem íbúar Manchester sýndu strax eftir árásina. „Það er svo æðislegt fólk sem býr hérna. Fólk fór út um miðja nótt og var að bjóðast til að aka fólki á brott og aðrir fóru með mat á vettvang fyrir lögreglu og sjúkraliða. Það er strax þessi samhugur sem hefur myndast hérna sem er mikilvægur til að hjálpa fólki í gegnum svona áfall.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hryðjuverkarárás, líkt og lögregla rannsakar þetta mál sem, er gerð í Manchester. Þannig kom írski lýðveldisherinn fyrir sprengju í miðbænum, raunar í nágrenni tónleikahallarinnar fyrir 20 árum síðan. „Þannig að borgin er ekki alveg óvön svona atburðum, en fólk á samt aldrei von á svona,“ segir Ágústa. „Það var sprengja sem hafði gífurleg áhrif, en þá var þó ekkert mannfall enda sprakk sú sprengja á sunnudagsmorgni þegar enginn var á ferli. Nú erum við að fást við eitthvað allt annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert